Bjarni fær skilaboð

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson skrifar: Þetta telst vera fyrsti pólitíski pistill minn í tæp tvö ár. Mér blöskrar og ég er búinn að fá nóg af því hvernig þessi maður hagar sér í íslensku samfélagi, stjórnmálum og með vald landsins.
"Opið bréf til Bjarna Benediktssonar ráðherra
 
Sæll Bjarni,
Nú er jólahátíðin að baki og árið senn á enda. Fréttin um 50 manna partýið sem þú sóttir ásamt konu þinni, var nöturlegt innlegg í sjálfan aðfangadaginn. Kvöldið áður þurfti lögreglan að vísa ykkur hjónum og öðrum gestum í burtu sem brotið höfðu sóttvarnarreglur sem ákveðnar eru m.a. af þér sem hluta af ríkisstjórn Íslands.
Þann 25. september s.l. varstu harður á því að við, fólkið í landinu, verðum að átta okkur á því að við séum í sama bátnum.
Nú ætla ég að fara með þig aftur um nokkra mánuði og byrja á því að staldra við síðasta vor.
Þann 15. apríl s.l. lést móðir mín. Hún var á hjúkrunarheimili. Þegar Covid kom upp þá dó eitthvað innra með henni. Vonleysi og söknuður við að geta ekki hitt börnin sín og aðra ættingja og vini, varð henni þungbært. Algjör einangrun og einsemd blasti við. Við urðum að fylgja sóttvarnarreglum. Þennan umrædda dag vorum við börnin hennar kölluð til að kveðja hana. Við vorum með hanska, grímur, og máttum sem minnst vera nálægt henni. Helst áttum við að vera sem fæst inni hjá henni. Þetta var ömurlegt og sárt að reyna að útskýra fyrir mömmu hvers vegna við ættum að bera grímur og hanska, hvers vegna við mættum helst ekki snerta hana, og hvers vegna allt væri svo kalt og ópersónulegt. Mamma var vön að kyssa okkur bless og taka utan um okkur. Um nóttina lést mamma!
Við jarðaförina urðum við að sætta okkur að við athöfnina mættu ekki fleiri en 20 manns vera.
Ég kvaddi ástvini á árinu og vegna takmarkana og reglna var ekki hægt að kveðja með viðeigandi hætti. Jafnvel ekki hægt að fylgja viðkomandi í jarðaförinni. Það eru ótal aðilar sem hafa upplifað þessa upplifun og hún er erfið og sorgleg.
Vinur minn rekur veitingastað. Síðan sóttvarnarreglurnar voru settar á er hann í alvarlegri stöðu með rekstur sinn og lokaði honum á tímabili. Fjárhagslegt tap hans er mikið og honum er bara sagt að við séum í þessu saman!
Ég hef skemmt á aðfangadag fyrir ákveðin félagasamtök sem byggja á kristilegum grunni. Til þess að jólasveinninn mætti koma og skemmta börnunum þessi jól og á aðfangadag, þurfti ég að fara í Covid próf á Þorláksmessu að beiðni Landlæknis. Þar til niðurstaða kæmi um Covid eða ekki og tillit til verkefnisins þá þurfti ég að halda mig frá fólki þar til skemmtunin fór fram daginn eftir. Það var á sama tíma og þú varst í 50 manna partýinu.
Að morgni aðfangadags er aðstoðarmannaliði þínu ljóst að það verði að senda út "tilkynningu" að umræddur ráðherra í partýinu hafi verið þú. Þú áttir víst ekki að hafa áttað þig á stöðunni og fjölda fólksins sem var þarna saman komin. Að þú fattir ekki þegar fjöldin er komin yfir 10 manns er afar ótrúverðugt. Þú vissir vel um stöðuna og vegna athugasemdar í dagbók lögreglunnar og umræðu á internetinu var sett fram "afsökunarbeiðni" frá þér - áður en blaðamenn kæmu fram með frétt um hvaða ráðherra hafi brotið sóttvarnarreglur. Sorglegt er að nú á að skammast í lögreglunni fyrir bókun sína í dagbók hennar.
Þann 21. ágúst s.l. ákvað Land­búnaðarráðherra Írlands að segja af sér eftir að hafa brotið leiðbeinandi sóttvarnareglur stjórnvalda með því að taka þátt í kvöldverði golfsambands þingsins. Sá ráðherra axlaði ábyrgð.
Það er ljóst að þú braust sóttvarnarlög og þér var jafnframt ljóst hver staðan var. Ef ekki væri fyrir árverkni lögreglunnar að hafa stöðvað þetta partý, hefði enginn komist að þessu. Þú hefðir varla farið að tala um það á aðfangadegi á Facebook síðu þinni?
Sóttvarnarreglur stjórnvalda hafa sett mörg fyrirtæki í þrot og víða er staðan mjög erfið vegna harðra reglna, sem þú m.a. virðir ekki. Nemendur framhaldsskóla hafa lagt á sig gríðarlega vinnu og sumir misst af félagslegu mikilvægi í þroska og því að vera í framhaldsskóla. Allt samfélagið leggur sig fram og "hlýðir Víði" - nema þú!
Þér er ekki stætt að komast upp með að brjóta lög. Þú ert ráðherra og berð mikla ábyrgð. Þú ættir að sýna fordæmi og axla þessa ábyrgð og segja af þér strax. Annað er algjörlega siðlaust. Það er svipað og að aka undir áhrifum áfengis, vera tekin af lögreglu og skrifa svo á Facebook "Ég biðst afsökunar" og fá enga sekt og aka í burtu aftur drukkinn því siðleysið ræður og hrokinn!
Það versta er að þú virðist ekki einu sinni kunna að skammast þín..."
 

Bloggfærslur 1. janúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband