Er Kvennaathvarfið silfur samfélagsins?

Í Silfri RÚV birtist þann 29. nóv. þessa árs, þ.e. 2020, áhugavert viðtal við Sigþrúði Guðmundsdóttur, kvennaathvarfsstýru. Þáttarstjórnandi var Fanney Birna Jónsdóttir. (Hér er krækjan, ef fólk skyldi hafa áhuga: https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/silfrid/29054/8l2ig1, viðtalið hefst á 1.08.)
Ég hef margsinnis bent á kynjaskakka umfjöllun RÚV um samskipti kynjanna. Kvenfórnarlambsviðhorfið er þar ríkjandi. Þetta viðtal kemur nánast samtímis frétt um konu, sem dæmdar voru bætur vegna ofbeldis eiginmanns síns. Sorglegt, ef það hefur við rök að styðjast. En hvort tveggja er dæmigert fyrir umfjöllun RÚV um efnið.
Hlutaðeigandi kona birtist grátklökk á skjánum, svo hjarta áhorfenda (mitt meðtalið) tók kipp. (Konur í þessari stöðu eru kallaðar þolendur, fórnarlömb og aflifendur.) Ofbeldismanninum er ekki boðið að segja sína sögu. Því vitum við fátt í raun um, hvað átti sér stað á þessu ólukkulega heimili. Í um sjötíu af hundraði tilvika heimilisofbeldis, beita báðir aðiljar ofbeldi. Engin fagleg umfjöllun um ofbeldi á heimilum fylgdi í kjölfarið, svo hugsun fólks ríður á þeirri tilfinningabylgju, sem slíkt viðtal skapar; það hvarflar óhjákvæmilega að áhorfendum, að karlar meiði konur, að þær séu fórnarlömb karla.
Í nefndu viðtali tekur Fanney Birna sama pól í hæðina. Henni er hugleikin staða kvenna og barna, sem eru læst inni á heimilunum með ”ofbeldismanninum.” Það er ”oft faðirinn,” að sögn Sigþrúðar. Síðan verður stöllunum tíðrætt um eymd kvenna og barna, sem ekki fá nægja þjónustu frá hinu opinbera. Til að ráða bót á því hefur verið ráðin ”barnastarfskona,” sem spjallar við börnin og mömmurnar, svo þær „verði enn þá betri mömmur.“ Það er hvorki um menntun hennar getið né aðrar forsendur til að taka að sér slík störf. Annað úrræði er smíði ”fjölbýlishúss” á vegum Kvennaathvarfsins, sem verður stökkpallur fyrir konur út í samfélagið. Þær „verða sterkustu konur í heimi, náttúrulega,“ segir Sigþrúður.
Meint og aukið ofbeldi eiginkarla og feðra á tíma Kínaveirunnar er sérstakt áhyggjuefni m.a. „UN Women,“ Katrínar Jakobsdóttur og RÚV. Fyrir fáeinum dögum, skýrðu fréttaskýrendur sjónvarps okkar allra frá því, að vísindarannsóknir sýndu, að fórnarlömbum karla ætti eftir að fjölga skelfilega. (Þó var ekki talað um veldisvöxt.) Þetta áhugamál RÚV er sem sé tekið aftur á dagskrá hjá Fanneyju Birnu. (Fréttamönnum RÚV hefur ekki hugkvæmst, að meiri samvera heimilisfólks, kynni að leiða til einhvers góðs.)
Fanney Birna er fróðleiksfús og innti því viðmælanda sinn eftir orsökum þessa „mikla ofbeldis“ gegn konum. Svipað hlutfall ofbeldis gegn körlum er henni ekki hugleikið. Það stóð ekki á svarinu: Í grunnsamfélagsgerðinni er um að ræða „undirokun kvenna á svo margan hátt.“ (Í kvenfrelsunarfræðunum heitir þetta „structural violence“ á ensku). Og svo er ofbeldisvörnum einnig áfátt. Börnin læra ofbeldið á heimilum sínum (væntanlega af feðrum).
Staðreyndir um heimilisofbeldi eru víðs fjarri í umræðu þessara kvenna beggja. T.d. það, að um það bil jafnt er á komið með kynjunum um ofbeldi og alvarleika þess. Börn verða aukin heldur oftar fyrir ofbeldi af hendi móður en föður.
Ég hef áður reynt að benda á, hvílíkar skaðræðisstofnanir kvennaathvörfin eru fjölskyldum – ekki síst börnum. Einnig hef ég reynt að benda á (alvöru)vísindalegar staðreyndir um heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Vísindamennsku „UN Woman“ hef ég rakið. Áhugasamir geta fundið efnið á: arnarsverrisson.is. Sömuleiðis hef ég kynnt hugleiðingar um umfjöllun RÚV. Hún er í senn ósiðleg og ófagleg og að öllum líkindum ólögleg, samkvæmt þeim lögum, sem um fjölmiðilinn gilda.
Svo virðist sem stjórnvöld með ríkisfjölmiðilinn, opinberar menningarstofnanir, hálfopinberar „hjálparstofnanir“ og ríkisstofnanir í broddi fylkingar heyji látlaust áróðursstríð gegn feðrum og körlum – og drengjum um leið; þeir eru (fæddir) ofbeldismenn. „Oss er í dag, nýr kúgari fæddur,“ er viðkvæði ofstækisfyllstu kvenfrelsara, þegar „hnokkinn“ lítur dagsins í ljós í faðmi ljósmæðranna, sem síðan „úthluta“ fyrirbærinu einhverju kyni. (Samkvæmt kvenfrelsunarfræðunum eru þau fimm hið minnsta.)
 
Greinina birti Arnar Sverrisson á snjáldursíðu sinni 1.des 2020 Pistla hans má finna á síðunni hans.

Bloggfærslur 1. desember 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband