Bíða drengir tjón af skólagöngu?

Bíða drengir tjón af skólagöngu? Hin nýja „undirstétt.“ – birtist í Morgunblaðinu 28. okt. 2020, höfundur: Arnar Sverrisson.
 
Um þessar mundir eru það almælt tíðindi, að drengir séu umvörpum tregir – í einkunnum mælt. Þeir eru hvorki læsir né skrifandi, svo viðunandi sé. Stjórnmálamenn og almenningur yppir öxlum. Umræðan um þessa mannréttindahörmung er svo rýr í roðinu, að Hermundur Sigmundsson, sálfræðingur, jafnar henni við þöggun. Samtímis þessum tossagangi verða sjúkdómsgreiningarnar stöðugt skrautlegri og lyfjagjafir færast jafnt og þétt í vöxt til að halda staulunum í skefjum. Svo vanbúið er skólakerfið til uppeldis og kennslu veikara kynsins.
Skömmu eftir aldamótin skrifaði norður-ameríski blaðamaðurinn, Glenn. J. Sacks: „Sonur minn stendur í röð að skóla loknum. Hann bíður eftir daglegri skýrslu um hegðun sína. Fyrstu bekkingarnir eru eirðarlausir í röðinni. Það er líklega þess vegna, að þeir eru kallaðir „slæmu krakkarnir,“ sem daglega skýrslu þarf að gefa um. Krakkarnir tíu eiga eitt sameiginlegt – þeir eru allir strákar. Bráðum kemur að því, að snáðarnir sýni sömu, dapurlegu ásýndina og skýrslurnar þeirra .... Þeir munu þramma heim á leið eins og sonur minn og bíða refsingar. Þeir vita í hugskoti sínu, að refsingu eigi þeir skilið. ... [M]argir þeirra munu aldrei ganga í öðruvísi skóla. Á öllum stigum skólastarfs er miklu sennilegra, að drengir séu agaðir til, vísað úr skóla tímabundið eða alfarið, og látnir sitja eftir - fremur en stúlkur. ... Það er þrefalt líklegra, að drengir séu sjúkdómsgreindir ofvirkir með athyglisbrest, fjórum sinnum líklegra, að þeir svipi sig lífi og miklu líklegra, að þeir ánetjist áfengi eða fíkniefnum á unglingsaldri - heldur en stúlkur.“ Höfundur kallar drengi hina nýju „undirstétt“ í skólunum.
Nýlega vakti nokkra athygli í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA), þegar vopnaðir öryggisverðir leiddu úr kennslustund einhverfan dreng, sem mundaði fingur sína í byssu stað í leiki við bekkjarfélaga. Kennslukonunni þótti sér stafa ógn af og enginn miskunn skyldi sýnd samkvæmt reglunum (zero tolerance). Blaðamaðurinn, Benjamin Arie, skrifaði af þessu tilefni: „Vaxandi taumleysi og kvenmiðun skólastarfs gerir [skóla] öldungis ófæra um að taka á háttalagi ungra karlmanna. [Skólarnir] hafa gefið skynsemina upp á bátinn í þeirri viðleitni að skilgreina fíflalæti sem glæp. ... Það má einu gilda, hvernig er mælt: skólarnir okkar bregðast drengjunum.“
Margir hafa síðustu áratugi bent á, að blikur séu á lofti í skólastarfi og að við flytum sofandi að feigðarósi. Það fjölgar stöðugt þeim rannsóknarniðurstöðum, sem valda mannúðarsinnum, eiginlegum jafnréttissinnum, og velunnurum barna, hrolli millum skinns og hörunds.
Bridget K. Hamre og Robert C. Pianta birtu, ári áður en Glenn skrifaði ofangreinda hugvekju, niðurstöðu rannsóknar sinnar um áhrif tengsla leikskólakennara og barna á árangur í áttunda bekki grunnskóla (eight grade). Niðurstaðan var þessi: „Neikvæðni í tengslum á leikskólastigi, er einkenndist af ásteytingu og ósjálfstæði (dependency), tengdist námsárangri og hegðun í áttunda bekki. Sérstaklega á þetta við um börn, sem sýndu slæma hegðun í leikskóla - og almennt fyrir drengi.“
Nýlega birti Lynn A. Barnett, niðurstöður langtímarannsóknar sinnar á hartnær þrjú hundruð börnum í leikskóla. Greinin heitir: „Menntun gáskafullra drengja. Trúðarnir í kennslustofunni“ (The Education of Playful boys: Class Clowns in the Classroom). (Gáski var skilgreindur sem skjótræði, sveigjanleiki, hugdettur, gleði og skopskyn.): „Þegar í fyrsta bekki sýndu kennararnir andúð á gáskafullum drengjum, litu að öllu jöfnu á þá sem truflun í kennslunni, síst til vinsælda fallna og uppnefndu þá trúða.“ Og svona hélt þetta áfram bekk eftir bekk.
Í átta ára gamalli rannsókn frá Norður-Írlandi, komu í ljós m.a. eftirtalin einkenni á námi drengja; drógust aftur úr í námi og töldu sig ekki færa um að vinna það upp; þekkingarleysi í lestri, skrift og reikningi allar götur frá leikskóla og fyrstu stigum grunnskóla; leiði, sem leiddi til truflana í kennslustundum; slæmt samband við kennara; framandi námsefni; aukinn þrýstingur eftir tíu til tólf ár í skóla og skortur á hjálp í því sambandi; vantrú á, að góður árangur í skóla stuðlaði að því, að þeir fengu vinnu; hræðsla við skuldir í tengslum við háskólanám; ónægur undirbúningur til að takast á við meginumbreytingaskeið á unglingsaldri; afskornir frá samfélaginu og heimi fullorðinna; einelti; ofbeldi eða ofbeldisógn í hvunndeginum. Þá fóru þeir, sem fyrir ofbeldi urðu, leynt með reynslu sína.
Nýlegar sænskar rannsóknir benda til, að kvenkennarar vanmeti hæfni drengja við námsmat, borið saman við hlutlægar prófniðurstöður. Norskar rannsóknir benda á tölfræðilega fylgni milli félagfærnimats kennara og árangurs stelpna og stráka í norsku og stærðfræði. Danskar rannsóknir benda til, að kennarar hafi bæði færri og rýrari væntingar til drengja.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband