Draumur Alþingis um ofbeldissnautt samfélag

Alþingismenn eiga sér draum. Drauminn um samfélag án ofbeldis – sérstaklega þó kynferðislegs og kynbundins (karlaofbeldis). Svipaðan draum hefur marga dreymt áður. Hann rættist í Hálsaskógi, en hvergi annars staðar. En draumurinn er vitaskuld fagur - og því enn má reyna, þrátt fyrir aukið eftirlit, skriffinnsku og álögur á almenning.
Skólakerfið kemur óhjákvæmilega í brennidepil í þessu efni, enda er nú stofnaður hópur valinkunnra ellefu kvenna (og tveggja stráka), sem á að vísa okkur leið. Ferðalagið hefst þegar í leikskólum landsins. Lilja menntamálaráðherra gat með engu móti fundið fleiri stráka eða karla í vinnuhópinn. En ekki virðist hafa verið hörgull á snjöllum, sætum konum og kvenfrelsurum.
Hópurinn á að taka mið af neðangreindum þingsályktunum. Athygli vekur m.a. áherslan á „mee-too“ arfinn og kynferðislegt og kynbundið ofbeldi, þ.e. kynofbeldi karla, þátttöku Stígamóta og Kvennaathvarfs beint og óbeint í fyrirhuguðum aðgerðum. Fræðsluefni Stígamóta um sjúka ást og eitraða karlmennsku verður m.a. gert hátt undir höfði.
Hér eru nokkrar glefsur úr viðeigandi þingsályktunum:
Þingsályktun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingu þess (7. júní 2019): Um að vinna bug á ofbeldi: „… ekki síst kynbundið ofbeldi, einelti, haturstal og myndbirtingar á stafrænum miðlum sem hvetja til ofbeldis. Horft verði meðal annars til frásagna og umræðu sem birtist í samfélaginu undir myllumerkinu #églíka/#metoo.“
„Kynning og innleiðing [á fyrirmyndarstarfi í íþrótta- og æskulýðsstarfi] verði skipulögð í samráði við samstarfsaðila og viðeigandi fræðsla veitt ásamt eftirfylgni í samræmi við aðgerðir á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í kjölfar frásagna úr íþróttahreyfingunni í tengslum við #églíka/#metoo.“
Kennsla um kynheilbrigði og kynhegðun: „… fræðsla um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi. Þetta stuðli að því að einstaklingar taki ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms, kynbundins ofbeldis og kynferðislegra birtingarmynda eineltis og haturstals sem og eigin framkomu á netmiðlum og birtingar myndefnis. Kennsla verði endurskipulögð í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í samfélaginu undir myllumerkinu #églíka/#metoo, þ.m.t. kennsla til nemenda, kennara og annarra sem vinna með börnum.“
Þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni (3. júní 2020):
„Kennsla grundvallist á gagnreyndri þekkingu sem hæfi aldri og þroska nemenda.“
„Skólaskrifstofur sveitarfélaga, með stuðningi frá forvarnafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, miðli þekkingu og veiti leikskólum og grunnskólum, ásamt frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, stuðning til að tryggja að forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni verði samþættar skólastarfi, einkum í kennslu, og að starfsfólk hljóti fræðslu. Skólaskrifstofurnar tryggi að forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni verði markviss þáttur í skólastefnu sveitarfélaga og í forvarnastefnu hvers skóla um sig.“
„ Innan Menntamálastofnunar starfi ritstjóri/verkefnisstjóri í a.m.k. hálfu starfi sem hafi það hlutverk að byggja upp þekkingu á námsefnisgerð sem styðji forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, þar á meðal gerð námsefnis í jafnréttis- og kynjafræðum. Verkefnisstjórinn skal fylgja eftir þeim verkefnum sem Menntamálastofnun eru falin samkvæmt aðgerðaáætlun þessari.“
„Tryggt verði að leikskólar hafi aðgang að vönduðu námsefni sem stuðli að forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og henti leikskólabörnum á öllum aldri, sbr. grunnþætti menntunar samkvæmt aðalnámskrá leikskóla.“
„Í hverjum grunnskóla starfi teymi sem hafi það hlutverk að tryggja kennslu í öllum árgöngum um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem hæfir aldri og þroska nemenda.“
„Fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni verði beint til unglinga í gegnum félagsmiðstöðvar. Stígamótum verði falið að halda áfram fræðslu til starfsfólks félagsmiðstöðva sem fram hefur farið í tengslum við átakið Sjúk ást."
„Staðið verði að kynningarátaki um gildi kynjafræðikennslu í framhaldsskólum og þar á meðal um gildi þess að gera kynjafræði að skyldufagi, sbr. 23. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla." Samhliða verði námsefni um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og um kynheilbrigði og kynhegðun kynnt fyrir framhaldsskólakennurum, …“
 
Pistillinn birti Arnar Sverrisson á snjáldursíðu sinni 19. des. 2020. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband