Gagnrýna Stundina, ekki að ósekju.

Stjórnarkonur í félagi um foreldrajafnrétti gagnrýna Stundina

Stjórnarkonur í Félagi um foreldrajafnrétti birtu í gær yfrlýsingu á Facebook-síðu félagsins, þar sem gerðar eru athugasemdir við umfjöllun Stundarinnar um foreldraútilokun.

Stjórnarkonurnar segja Stundina horfa fram hjá rannsóknum undangenginna áratuga og hafna því að hugtakið „foreldraútilokun“ sé byggt á vafasömum kenningum feðrahreyfinga og ofbeldismanna.

Í yfirlýsingunni segir kynjahlutföll þeirra sem leita til félagsins hafi verið jöfn á síðasta ári og að erfitt sé fyrir konur sem sæta útilokun frá börnum sínum að koma fram vegna viðhorfa samfélagsins. Ummæli sem ítrekað hafi birst í umfjöllun Stundarinnar geri lítið úr börnum og mæðrum sem missa tengsl í kjölfar skilnaðar.

Bent er á að foreldraútilokun bitni ekki aðeins á foreldrum heldur einnig börnum sem verða fyrir slíku ofbeldi, systkinum þeirra og öðrum ástvinum.

Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér:

Við stjórnarkonur í Félagi um foreldrajafnrétti gerum alvarlegar athugasemdir við umfjöllun Stundarinnar síðustu misseri um það ofbeldi sem felst í foreldraútilokun og hundruð barna og foreldra verða fyrir á Íslandi á ári hverju. Það er mat okkar að umfjöllun Stundarinnar um málefnið hafi verið afar hlutdræg og skaðað viðleitni félagsins að fræða um þessa tegund ofbeldis. Miðillinn hefur auk þess í umfjöllun sinni horft framhjá þúsundum erlendra rannsókna um foreldraútilokun sem gerðar hafa verið á síðustu áratugum.

Á síðasta ári leituðu jafn margar konur og karlar til Félags um foreldrajafnrétti vegna tálmana og tengslarofs við börn sín. Mjög erfitt getur verið fyrir konur að koma fram vegna viðhorfa samfélagsins til mæðra sem ekki eru með börn sín.

Í viðtölum Stundarinnar eru ítrekað birt ummæli þar sem barátta gegn foreldraútilokun er sögð byggja á vafasömum kenningum feðrahreyfinga og ofbeldismanna sem vilji viðhalda ofbeldi gegn börnum og barnsmæðrum. Slík endurtekin umræða endurspeglar fordóma og fáfræði og gerir ekki einungis lítið úr þeim börnum sem lenda í foreldraútilokun, heldur smánar þær mæður sem verða fyrir því að ósekju að missa tengsl við börn sín í kjölfar skilnaðar.

Fjöldi einstaklinga um allan heim þjáist vegna foreldraútilokunar. Þar með talin eru börn, systkini, mæður, feður, ömmur, afar, frændur og frænkur.

Við ítrekum boð til ritstjórnar Stundarinnar um fræðslu og bendum auk þess á fræðslumyndbönd á YouTube um foreldraútilokun.

Fyrir hönd stjórnar Félags um foreldrajafnrétti,

Ester Magnúsdóttir
Ingveldur Eyjalín Stefánsdóttir
Júlíana Kjartansdóttir
Sigríður Guðlaugsdóttir
Unnur Þorsteinsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband