Kjarasamningur, hvað er það? -meira um jafnaðarlaun-

Það má með sanni segja að mér hafi verið rekinn kinnhestur eftir reynslu dóttur minnar við eigendur Lebowski Bar í Reykjavík. Einstaklingur er umsvifalaust rekinn vilji hann laun og réttindin samkvæmt kjarasamningi. Nýr heimur fyrir mér.

Gerð kjarasamninga er oft erfitt verk og alþjóð veit að tekist er á um margvísleg réttindi við gerð samninga. Við þurfum ekki annað en fylgjast með gangi mála til að vita það. En til hvers eru kjarasamningar? Eru þeir t.d. notaðir til að koma í veg fyrir gjörning eins og eigendur Lebowski Bar í Reykjavík framkvæmdu, reka starfsmann sem vill fara að lögum. Hvað með þá? Til hvers að reka stað þegar ekki er farið að lögum og hvaða úrræði eru til að stoppa slíkt framferði?  Kjarasamningur er gerður til að tryggja starfsmanni lágmarkslaun og réttindi. Það má ekki greiða lægri laun en kjarasamningur kveður á um, en öllum er heimilt að greiða hærri laun. Með gólfinu er tryggt að vinnuveitendur hafi ekki laun af starfsmanni sínum. Samt virðist það ótrúlega algengt í hótel-og veitingahúsageiranum og sennilega innan ferðaþjónustunnar ef marka má fréttir verkalýðsfélaga að vestan.

Ekki er ýkja langt síðan að þrír þingmenn lögðu fram frumvarp um lágmarkslaun í landinu og um lögbrot væri að ræða ef lægri laun væru greidd. Slíkt væri gert í Evrópu. Forsvarsmenn ASÍ töldu slíkt óþarft þar sem kjarasamningur segði til um það og vildu meina að löggjöfin væri til að vernda erlenda starfsmenn þar sem hún væri sett. Nú hefur reynslan sýnt mér að endurskoðunar er þörf, eigendur Lebowski Bar í Reykjavík hafa með gjörningi sínum sannað það. Hvort það sé nákvæmlega sú leið sem fara á skal ósagt látið, en ég kalla eftir aðgerðum sem virka.

Helga Dögg Sverrisdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband