Rekin- krafðist kjarasamningsbundinni launa

 

REKIN- krafðist kjarasamningsbundinna launa

Flest upplifir maður á lífsleiðinni. Dóttir mín vann á Lebowski Bar í Reykjavík, aðallega um kvöld og helgar, en ekki í fullu starfi. Upplýsingar um launakjör vantaði og hún aflaði sér ekki þeirra. Launin komu til tals okkar á milli. Stelpan reiknaði með að kjarasamningsbundnum launum og hafði kynnt sér þau. Síðar fékk hún veður af því, frá samstarfsmanni, að tímalaunin gætu verið jafnaðarlaun. Eftir samræðu okkar og upplýsingar um að slík laun væri hvergi að finna í kjarasamningum ákvað hún að leita réttar síns ef jafnaðarlaun yrðu greidd. Það kom á daginn, 1550 kr á tímann fyrir dag- kvöld-helgar og stórhátíðarvinnu. Hver græðir á því? Vinnuveitandinn, þegar ungmenni vinna fáa dagavinnutíma. Og ekki greiðir vinnuveitandi meira en honum ber þó svo að tímalaun kjarasamnings sé það lægsta sem má borga. Samkvæmt kjarasamningi á að greiða um 1700 krónur í næturvinnu og stórhátíðarkaup, t.d. á 17. Júní, er þó nokkuð hærra, sem sagt ekki farið að lögum á þeim vinnustað.

Dóttir mín óskaði eftir kjarasamningsbundnum launum hjá eigendum Lebowski Bar. Rétt um klukkustund síðar var óskað eftir að hún gerði hlé á vinnu sinni. Hún leitaði til stéttarfélagsins sem upplýsti hana um rétt sinn. Vinnuveitanda ber að greiða skipulagðar vaktir og segja henni upp. Hún óskaði eftir uppsagnarbréfi, því ekki er hægt að gera hlé á vinnu launþega, sem hún og fékk. Eigendur Lebowski Bars vildu gera vel, og að mínu mati þagga niður í henni, því dóttur minni voru greiddar rúmar 1700 krónur á tímann í lokauppgjörinu sem jafnaðarkaup. Kannski var þetta líka aðvörun til hinna starfsmannanna, sjáið hvernig fer fyrir þeim sem krefjast réttar síns. Sem betur fer lét stúlkan ekki þagga niður í sér og málið verður klárað hjá stéttarfélaginu. Ekki svo að skilja að hún ríði feitum hesti frá þessu uppgjöri, heldur, réttur hennar var fótum troðinn og ekki farið að lögum, það skiptir höfuðmáli.

Með of lágum launagreiðslum verða ungmenni af orlofsgreiðslum, lífeyrissjóðsgreiðslum og greiðslum vinnuveitenda í orlofs-og starfsmenntasjóð verkalýðsfélagins. Réttur til vetraleyfis hverfur eins og dögg fyrir sólu, þau hreinlega gufa upp og vinnuveitandi hagnast. Réttindi sem sjást ekki en eru til staðar. Vinnuveitandi græðir meira því minna sem hann borgar af launatengdum gjöldum. Það sem launþegi byggir upp innan stéttarfélags rennur í hans vasa.

Verra er þegar maður heyrir af ,,svörtum launagreiðslum.“ Unga fólkið veit ekki hvað slíkt inniber og hve RÉTTINDALAUS þau eru séu ,,laun undir borðið“ þegin. Engin slysatrygging, engin orlofsréttur, enginn starfsmenntassjóður, engin starfsreynsla, því ekki er hægt að sýna fram á reynslu-enginn launagreiðandi- og lífeyrisréttindi myndast ekki. Vinnuveitandi hagnast heldur betur því hann greiðir engin launatengd gjöld sem eru ívið meiri en launþegi þarf að greiða í skatta af launum sínum.

Ég hvet ungt fólk sem þiggur jafnaðarlaun, sem er lægra en í kjarasamningi, að leggjast á sveif með stéttarfélögunum og hafna jafnaðarkaupi. Ég kalla foreldra til samræðu um laun unga fólksins, ræðið við börn ykkar um kjarasamningsbundin réttindi, hvetjið þau til að leita réttar síns hjá stéttarfélögunum.

Til að koma í veg fyrir jafnaðarlaun þarf vitundarvakningu meðal þeirra sem fá slík laun greidd eða þekkja til þess. Þið tapið  bara, vinnuveitandi græðir á ykkar kostnað!

Til félaga innan samtaka hótel-og veitingahúsa segi ég, takið til í eigin ranna, útrýmið jafnaðarkaupi og notið kjarasamninga. Sýnið félögum ykkar ekki þolinmæði gagnvart slíku lögbroti, það kastar rýrð á alla ykkar starfssemi.

Helga Dögg Sverrisdóttir

 

 


mbl.is Krafðist réttra launa og var rekin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Mjög góð grein og segir nákvæmlega hvernig málið liggur.  Í þessu tilfelli og mörgum öðrum er atvinnurekandinn að nýta sér þekkingarskort ungmennanna og gerir þetta líka í trausti þess að yfirleitt er um sumarvinnu að ræða og yfirleitt stendur fólk ekki í neinu "leiðréttingaveseni" fyrir svo stuttan tíma.  Ég var fyrir nokkuð löngu síðan kennari í framhaldsskóla og mér blöskraði svo algjörlega þegar einn nemandinn sagði mér að hann væri að vinna sem VERKTAKI og fengi borgað það sama á tímann og LAUNAMAÐUR.  Þetta er grófasta dæmið sem ég hef séð en þetta er örugglega ekki einsdæmi.  Ég tók mig nú reyndar til og tók hluta af kennslustund í það að útskýra fyrir nemendum hver munurinn á launþega og verktaka væri, þau höfðu einfaldlega ekki hugmynd um að það væri nokkur munur á þessu tvennu.  Mér fannst nú svolítið merkilegt að þau voru í svokölluðum "lífsleikniáföngum" í skólanum og að þau skuli ekki vera frædd um svona hluti...................

Jóhann Elíasson, 3.8.2014 kl. 11:14

2 identicon

Takk fyrir það Jóhannes. Já þetta er með ólíkindum hvað vinnuveitendum dettur í hug. Veit að starfsmenn stéttarfélaga koma inn í grunnskólann til að fræða börnin um kaup og kjör. Spurning hvort það sé ekki heldur snemmt og taka eigi þessa fræðslu inn í framhaldsskólann. Sæi gjarnan skylduáfanga, rétt eins og skyndihjálp, kaup og kjör, þín réttindi og skyldur á vinnumarkaðnum. En það er víst borin von!

Við sem eldri og reyndari erum þurfum að miðla til þeirra sem feta sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum. Galli á gjöf Njarðar, margir vilja ekki gera athugasemd af hræðslu við að missa vinnuna. Mörg ungmenni hafa skyldum að gegna, með húsaleigu og reka kannski bíl og þetta er lífsviðurværi þeirra. Málið þarf að nálgast á annan hátt. Vekja þarf athygli þingmanna á þessu og fá löggjöf sem gerir stéttarfélögunum kleift að vinna með vinnustað sem brýtur á fólki. Ekki að það sé sjálfvalið eins og Logi eigandi Lebowski Bar í Reykjavík,sagði í hádegisfréttum, þeim sé ekki heimilt að afhenda launaseðla annarra starfsmanna. Hér þarf virkilega að taka á málunum.

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 3.8.2014 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband