Vantraust á Heimildina

og ekki að ósekju. Heimildin ætlar að taka við rætinni fréttamennsku Stundarinnar og Edda Falak á að vera þar í forsvari. Missögn er lygi. Ekki flókið. Edda laug upp á saklausa menn sem hún vann ekki einu sinni með. Þórði og Ingibjörgu á Heimildinni finnst það í lagi. Feitletrun er mín.

Hér má sjá vantraustyfirlýsinguna:

Kæra Heimild,

Ég lýsi hér með yfir vantrausti á Heimildinni sem fréttamiðli í ljósi afstöðu hennar til “missagna” Eddu Falak sem gerst hefur sek um það að “missegja” um starfsferil sinn. Ég veit að í mínu starfi sem háskólakennari hefði ég umsvifalaust verið rekin hefði ég gerst sek um slíkt hið sama. En í fjölmiðli sem (kaldhæðnislega) kallar sig “Heimildin” virðast lygar afstæðar. 

Áður fagnaði ég því að Edda skyldi gefa konum tækifæri til þess að tjá reynslu sína vegna þess að oftast er það þeirra eina  úrræði í mjög viðkvæmri stöðu. Þar með gátu þær raungert reynslu sem aðrir reyndu að útmá. Það var mikilvægt og trúverðugleiki þeirra kvenna sem stigu fram er ósnortinn. Hins vegar hefur Edda Falak sýnt fram á að hún hefur ekki burði til þess að sinna þessum erfiða málaflokki. 

Heimildin heldur því fram að um “menningarstríð” sé að ræða þar sem andstæðingar MeToo ráðist gegn  Eddu Falak. Fyrir mig var MeToo bylting sem gaf mér fyrst kleyft að vinna úr hörmulegri reynslu. En að einhver skuli nýta sér ömurlega reynslu fólks til frama í fjölmiðlum er mér ofar skilningi. Til þess að bæta gráu ofan á svart hefur hún síðastliðinn sólarhring hótað “lúserum” ofbeldi  á samfélagsmiðlum.

Ég hef aldrei áður heyrt nafnorðið missögn þrátt fyrir að hafa að miklu leyti eytt minni starfsævi í að skoða íslenskt mál. Ég veit í raun varla hvað orðið þýðir. Það eina sem ég veit er að Edda Falak hefur með mjög alvarlegum hætti grafið undan trúverðugleika sínum. Að Frosti Logason skyldi afhjúpa hana var, að mínu mati, óheppileg tilviljun — en það kemur ekki í veg fyrir þá staðreynd að með lágmarks rannsóknarvinnu hefði hver sem er  getað gert slíkt hið sama. 

Ég skil heldur ekki af hverju ýmsar konur á samfélagsmiðlum styðja Eddu Falak í krafti #afsakið. Ég stal pony-hesti af leikskólanum mínum þegar ég var þriggja ára og laug að mömmu minni um það — þetta hefur ekkert með þá alvarlegu staðreynd að gera að Edda Falak bjó til falskan söguþráð sem varð henni til frama í fjölmiðlum. 

Ég hef reynt það á eigin skinni hvernig það er að vera brotaþoli ofbeldis og veruleika þess að reyna að reka ofbeldismál í dómskerfinu. Það er ekki auðvelt hlutskipti. Að einhver hafi skapað sér svigrúm í umræðunni á grundvelli falskra reynslusagna er vægast sagt móðgun við brotaþola ofbeldis.  Mér blöskrar yfirhylmingin og tvískinnungshátturinn sem birtist í umræðunni um þetta mál. Allt er það í mótsögn við þau gildi sem drifu MeToo-hreyfinguna áfram.

Virðingarfyllst,
Sigríður Mjöll Björnsdóttir (brotaþoli)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband