19.6.2020 | 10:18
Föðurleysi, umhverfi og aðbúnaður drengja
Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. júní 2020
Fjölskyldan er stöðugt á undanhaldi. Um helmingur barna mæðra undir þrítugu fæðist utan hjónabands. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku eru synir táningsmæðra yfirleitt í sérstökum áhættuhópi með tilliti til þroska og aðlögunar. Í tæpum 70% tilvika fara konur fram á skilnað. Í langflestum tilvika fá mæður forsjá barnanna eða búa þeim heimili. Rannsókn í BNA benda til, að félagsráðgjafar ljái börnum eyra um heimilisfesti, vilji þau búa hjá móður sinni. Annars ekki. Mæður fá öflugan stuðning frá kvenfrelsunarhreyfingunum, sem frá því um miðjan áttunda áratug síðustu aldar hafa ákveðið barist fyrir rétti móður til barna. Þetta er beinlínis í blóra við endurteknar rannsóknaniðurstöður þess efnis, að geti barn ekki búið við reglubundið atlæti beggja foreldra, sé þeim yfirleitt í hvívetna betur komið hjá föður sínum.
Sjálfsvígstíðni drengja og karla er skelfileg. Á aldrinum10-15 ára fremja tvöfalt fleiri strákar sjálfsvíg, heldur en stelpur; á aldrinum 15-19 ára eru þeir fjórum sinnum fleiri; á aldrinum 20-24 eru þeir fimm til sex sinnum fleiri. Sjálfsvígum karla fjölgar meira, en hjá konum. Í Indlandi t.d. aukast þau níu sinnum hraðar. Meðan tíðni sjálfsvíga lækkaði um þriðjung hjá konum, hækkaði hún um fjórðung hjá körlum. Samkynhneigðir piltar svipta sig þrefalt oftar lífi, miðað við stúlkur í sömu stöðu.
Athyglisbrestur (ADHD), geðsjúkdómar, þroskaskerðing og námsörðugleikar færast í vöxt, jafnvel svo, að talað er um taugaþroskakreppuna (neural crises). Börn þunglyndra mæðra eru allt að tvisvar sinnum líklegri til að glíma við ADHD, svo og þeir drengir, sem ekki búa við aðhlynningu feðra sinna. Konur verða stöðugt daprari í bragði og neyta ógnarlegs magns þunglyndislyfja, samtímis því, að mikill fjöldi drengja nýtur ekki föðurhandleiðslu. T.d. elst um þessar mundir um þriðjungur barna upp við föðurleysi í Bretlandi og BNA.
Drengjum er þrefalt hættara, en stúlkum, við að ánetjast tölvuleikjum. Þeim er einnig hættara við að ánetjast klámi, áfengi og öðrum fíkniefnum. Þeir hrökklast umvörpum úr framhaldsskóla og stunda síður nám við æðri menntastofnanir. Þeir eru reknir þrisvar sinnum oftar úr skóla, en stúlkur. Einkunnir þeirra eru yfirleitt lakari, nema séu þeir stúlkulegir í hátt. Þá fá þeir svipaðar einkunnir. Slök frammistaða í lestri er sérstakt áhyggjuefni, því lestur er nefnilega fyrirboði árangurs í lífinu. Greind drengja hrakar einnig. Það er skiljanlegt í ljósi aðbúnaðar þeirra í samfélagi og skóla. Rannsóknir frá Bretlandi benda til, að drengir hafi glutrað niður 15 stigum greindarvísitölu síðan 1980. Jafnvel þótt samvistir með föður fyrir 11 ára aldur stuðli ákveðið að aukinni greind þeirra, er föðurleysið samt sem áður geigvænlegt.
Synir, eiginmenn og feður, eru oftar hrifnir á brott vegna fjórtán algengustu sjúkdóma af fimmtán (ofbeldis og slysa). Hlutfallið er alls staðar hærra, nema í Alzheimers sjúkdómi. Sums staðar margfalt hærra; hjartasjúkdómar, illkynja krabbamein, lungnasjúkdómar, slys, heilablóðfall, sykursýki, öndunarerfiðleikar og lungabólga, nýrnabólgur, sjálfsvíg (nærfellt fjórum sinnum tíðari), blóðeitrun, lifrarsjúkdómar, skorpulifur, of hár blóðþrýstingur, Parkinsons sjúkdómur, veirusýkingar í lungum og lungnaþroti (pneumonitis), alnæmi (AIDS) o g morð.
Heilsuspillandi vinnuumhverfi tekur stöðugt stærri toll. Hátterni, sem bæði kyn töldu áður bæði sæmilegt og sjálfsagt, hefur fyrir atbeina kvenfrelsaranna nú verið endurskilgreint ýmist sem haturstal, kynfólska, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða nauðgun og lögum breytt til samræmis. Við ákærur þar um er víða engin eiginleg sönnunarfærsla nauðsynleg fyrir rétti. Aukin heldur hefur víða í skólum, fyrirtækjum og stofnunum verið á komið á fót svonefndum kengúrudómstólum, sem dæma í slíkum málum.
Miðað við reglur hinnar norður-amerísku Jafnréttisstofu (Equal Employment Opportunity Commisson), þá er það álitið fullnægjandi sönnun ávirðinga um misjafnt kynferðislegt athæfi af karla hálfu að hvísla fullyrðingu þar um í eyra vinkonunnar. Kvenkyns sálfræðingur í flota BNA, kennir, að spyrji karl konu, hvers vegna hún sækist eftir frama í flotanum, sé það dæmigerð kynferðisleg áreitni.
Norður-ameríski sálfræðingurinn, Warren Farrell, segir um þessa þróun: Í hnotskurn; vinnuvernd karla gegn dauðaslysum var virt að vettugi. Í stað þess [var lögð áhersla á] að vernda konur fyrir hvatvíslegu dufli og daðri. ... Konum hefur hlotnast á einum áratugi meiri vernd gegn sóðalegum bröndurum í vinnunni, heldur en karlar hafa fengið gegn dauðaslysum á sama vettvangi.
Þróunin umhverfi okkar er oft fyrirboði þess, sem koma skal á Íslandi.
Þýðingar eru höfundar, Arnars Sverrissonar.