13.5.2020 | 13:49
Jafnréttissjónarmið í háloftunum
Mikið er rætt og ritað um Icelandair og starfsfólk þess. Ein stéttin sem starfar hjá fyrirtækinu er þjónustustétt, flugfreyjur og flugþjónar, sem færa farþegum sitt lítið af hverju í ferðalaginu og reyna líka að selja varning til að auka á laun sín.
Allt sem selt er um borð er að mínu mati óþurftarvörur, sem fást á öðrum stöðum. Drepleiðinlegt er fyrir marga farþega að sitja undir sölustörfum starfsmanna Icelandair svo ekki sé talað um þvingaðar auglýsingar sem glymja í hátalarakerfinu og í sjónvarpi sætanna. Mætti hverfa úr vélum félagsins mín vegna.
Í gær birtist snjáldursíðupistill flugfreyju þar sem hún úthúðar fyrirtækinu sem hún vinnur hjá. Ákveðnir farþegar fengu sendingu í leiðinni.
Flugfreyjan þakkar sínum sæla að mamma hennar vinni ekki lengur hjá fyrirtækinu, svo mikið hafi verið lagt á hana og konurnar sem starfa þar. Þær þurfi meira að segja að leggja til rassa svo einstaka karlar geti klappað þeim, sagði hún.
Ekki gott og alls óviðeigandi í alla staði.
Mér varð um þegar hún sagði Icelandair þvinga freyjurnar til að nota andlitsmálningu, lakka neglur og ganga um á háhæluðum skóm. Freyjurnar hafa ekkert val, að hennar sögn. Og það sem verra er, þær þurfa að borga fyrir herlegheitin sjálfar.
Hvað með karlmennina í stéttinni? Þurfa þeir að undirgangast sömu ákvæði? Ég man nú ekki eftir að hafa séð það í flugi!
Hér er klárlega jafnréttisjónarmið sem þarf að skoða. Mismunun af verstu tegund.
Af hverju er ætlast til einhvers af konum sem ekki er ætlast til af körlum innan sömu atvinnugreinar? Spyr sá sem ekki veit.
Væri ekki lag í samningaviðræðunum sem nú standa yfir að koma þessu óréttlæti út úr samningum. Samkvæmt orðum freyjunnar er þvingunarákvæðið í kjarasamningi þeirra.
Auðvitað eiga starfsmenn að velja hvort þeir mæta með stríðsmálningu, lakkaðar neglur og í háhæluðum skóm til vinnu. Sama á að gilda með pils, vilji kona ekki ganga í pilsi, á hún að hafa val þar um.
Hvar eru jafnréttisstofa, jafnréttisstamtök og femínistar. Af hverju láta þeir svona þvinganir gegn konum, ekki körlum, viðgangast af hálfu vinnuveitanda?
Drífa Snædal, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Flugfreyjufélagsins hvar eru þið? Hví þegið þið yfir þessari mismunun?
Hér á landi ættu að vera miklar, gagnlegar og fróðlegar umræður um umrædda kynjamismunun í starfinu. Svo ég tali nú ekki um nafn stéttarfélagsins!
Greinin birtist í Kvennablaðinu 13. maí 2020. Eigandi síðurnnar sem er jafnréttissinni í leik og starfi skrifði greinina.