24.8.2019 | 16:46
Nafnabreyting starfsstétta
Ein vitleysan enn. Nafnabreytingar starfsstétta. Þetta er með því vitlausara sem ég hef séð, læknaritari breytist í heilbrigðisgagnafræðingur.
Margir halda að starf öðlist meiri virðingu ef fræðingur er fyrir aftan forskeyti sem er að mínu mati mesta vitleysa. Man þegar umræðan um sjúkraliðanafnið fór fram, þá var því haldið fram að sjúkraliðar öðluðust meiri virðingu ef nafninu væri breytt...og hefði fræðingur í nafninu.
Röntgentæknir- geislafræðingur. Meinatæknir-lífeindafræðingur og nú læknaritari-heilbrigðisgagnafræðingur. Hvað verður það næsta? Kannski eigum við eftir að sjá lögregla verður lögreglufræðingur...
Athugasemdir
Væri ekki slæmt að vera "bloggfræðingur"!!
Sigurður I B Guðmundsson, 24.8.2019 kl. 17:28
Ekki datt mér það orð í hug. Hafi fólk sérhæft sig í bloggi má nota heitið fræðingur á eftir sbr. orðabók ,,seinni liður samsetninga sem merkir þann sem hefur sérhæft sig í e-u."
Helga D Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 24.8.2019 kl. 17:40
Þegar menntunarkröfur breytast og hlutverkin þá verða margir sem fastir eru í gömlum viðmiðum undrandi að nöfnin skuli breytast. Finnst til dæmis undarlegt að röntgentæknar, sem flestir eru hættir að nota röntgentæki og þurfa nú að kunna á fjölda tækja, skuli ekki vilja halda sínu úrelta nafni. Furða sig á því að hjúkrunarfræðingar, sem hafa menntun á háskólastigi, vilji ekki bera sama starfsheiti og heilbrigðisstarfsfólk án háskólagráðu ber. Og þegar kennarar yngstu barnanna vilja ekki vera kallaðar fóstrur eða barnapíur dettur af þeim andlitið.
Með sama áframhaldi verða þeir sem mestu menntunina hafa innan skólanna kallaðir menntafræðingar, minni menntun kennarar og engin menntun í kennslufræðum leiðbeinendur. Og lögreglumaður sem hlotið hefur menntun í fræðunum og kann eitthvað meira en skrifa sektarmiða gæti viljað aðgreina sig frá þeim sem ekkert kunna en klæðast sama búningi.
Já, það er mörgum flókið og erfitt að henda reiður á breytingum starfsstétta síðust hálfu öldina og dreymir um gamla daga þegar allt var einfaldara. Þegar starfsheiti voru eins og gælunöfn og sögðu ekkert um menntun og hæfi viðkomandi...Og einhver hefði freistast til að láta Doktor Gunna taka úr sér botnlangan.
Vagn (IP-tala skráð) 24.8.2019 kl. 19:38
Með því að breyta lýsingu á störfum í fræðinga er hægt að
krefjast hærri launa. Fræðingar fá hærri laun.
Svo einfallt er það.
Sigurður Kristján Hjaltested, 25.8.2019 kl. 06:57
Móttökustjóri, sölustjóri, verkefnastjóri. Málfræðilegur flottræfilsháttur sem er jafn gagnslaus og dæmin sem ég nota. Ekki verður þetta samt til að læknaritarinn fái betri kjör.
DSJ (IP-tala skráð) 25.8.2019 kl. 13:33
Sigurður Kristján Hjaltested. Passar ekki. Lífeindafræðingar og geislafræðingar hækkuðu ekki í launum þrátt fyrir nafnabreytingu. Þegar fólk hefur lokið M.Ed. heitir það menntunarfræðingur, ekki kennari, hefur ekki leitt til hærri launa. Kannski er það forskeytið sem skiptir mestu, lögfræðingur, viðskiptafræðingur, tölvunarfræðingur og markaðsfræðingur svo fátt eitt sé neft.
Helga D Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 25.8.2019 kl. 20:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.