24.5.2019 | 22:35
Nemendur hafa áskað grunnskólakennara með slæmum afleiðingum
Greinin birtist í Kjarnanum í dag 24. maí 2019.
Í samfélaginu hefur gengið yfir bylgja þar sem mönnum er frjálst að ásaka fólk um ýmsu hluti. Það er gert opinberlega án nokkurra afleiðinga. Stundum er fólk nafngreint og stundum ekki. Samfélagið hefur á vissan hátt samþykkt slíkt framferði. Börn læra það sem fyrir þeim er haft.
Áður en lengra er haldið skal það tekið fram að lang stærsti hluti nemenda eru til fyrirmyndar.
Innan veggja grunnskólanna virðist hið sama gerist og í samfélaginu. Grunnskólakennarar lenda stundum í honum kröppum. Þeir eru ásakaðir um ofbeldi, af hvers konar tagi, missa mannorð sitt að hluta eða öllu leyti. Nemanda sem dettur í hug að ásaka kennara um ofbeldi stendur oft með pálmann í höndunum. Rannsókn innan skólans er hafin, aðrir nemendur spurðir og á þann hátt er mannorð kennara sett á vogaskálarnar. Andleg heilsa kennara er líka undir og margir standa ekki undir upplognum ásökunum.
Grunnskólakennarar hafa upplifað að nemandi sýni áverka, s.s. marbletti og klór, sem enginn veit hvernig er tilkominn nema nemandinn sjálfur, til að ná sér niðri á kennara. Það þarf ekki annað en að kennari setji nemanda mörk. Skólareglur henta ekki öllum og einstaka nemandi telur sig yfir skólareglur hafinn. Stjórnendum er blandað í málin og stundum stoppa málin þar en alls ekki alltaf. Foreldrar taka oft á tíðum upp hanskann fyrir börn sín og verða vart viðræðuhæf um málið. Farið er með barn til læknis og áverkavottorð fengið. Barninu skal trúað hvað sem öðru líður. Á stundum eru barnaverndarnefndir inni í málunum þar sem rætt er við aðila til að fá heildarmyndina. Í einstaka tilfellum blandast lögregla í málið þar sem yfirheyrslur fara fram. Þegar hér er komið við sögu eru hefndnaraðgerðir barns og foreldra þvílíkar að vart verður stoppað. Kennarar hafa mátt ráða sér lögfræðing til að vinna úr máli sem kemur svo á daginn að var allt í plati. Nemandi hefur náð sér í stjórnunartæki. Hvað svo!
Grunnskólakennarar og stjórnendur eru berskjaldaðir þegar kemur að frásögnum barna sem vilja kennara eitthvað illt. Kennarar og stjórnendur hafa varann á ef þeir þurfa að ræða einslega við nemanda, þeir hafa opna hurð eða annan aðila með sér, óttinn um hvað nemandi gæti tekið upp á er alltaf á bak við eyrað. Langt í frá eðileg þróun.
Í Danaveldi hafa karlkennarar verið ásakaðir um kynferðilegt ofbeldi, af stúlkum, sem áttu ekki á við rök að styðjast. Ásakanirnar höfðu afdrifaríkar afleiðingar fyrir kennarana sem hættu störfum, dæmdir af skólasamfélaginu, samfélaginu sem þeir bjuggu í og heilsan farin. Áfallastreituröskun er algengur kvilli í kjölfar slíkra áfalla. Stuðningur stjórnenda og sveitafélagsins við kennarana var enginn. Myndin Jagten sýnir svo ekki verður um villst hver framkoma samfélagsins er þegar slíkar ásakanir líta dagsins ljós.
Því miður eru alltaf skemmd epli inn á milli í nemendahópi og fái kennari að smakka á slíku epli geta afleiðingarnar orðið afdrifaríkar. Umræðuna þarf að opna, gera sér grein fyrir að við þetta búa kennarar. Hlúa þarf að kennara sem hefur mátt þola ásökun af þessu tagi. Traust milli kennara og nemanda er farið. Óttinn við að nemandi endurtaki leikinn er ekki langt undan, viðvarandi ótti getur valdið streitu sem getur leitt til viðameiri kvilla.
Í greininni er eingöngu rætt um grunnskólakennara en aðrir starfsmenn grunnskóla hafa einnig lent í svona aðstæðum.
Höfundur er M.Sc., M.Ed., starfar sem grunnskólakennari og er fulltrúi grunnskólakennara í Vinnuumhverfisnefnd KÍ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.