22.5.2019 | 21:40
Nemendur beita kennara ofbeldi
Greinin birtist í Kjarnanum í dag.
Fyrir rúmu ári kom út skýrsla í Danmörku sem sýnir að fimmti hver grunnskólakennari upplifir ofbeldi og fjórði hver hótun af hálfu nemanda.
Menntamálaráðuneyti Dana útbjó leiðavísi fyrir grunnskóla sem á að hjálpa þeim til að fyrirbyggja og takast á við ofbeldi og hótanir. Ráðherra menntamála í Danaveldi segir fjölda kennara of mikinn sem lendir í þessu.
Danski ráðherrann segir að menning innan skólana þurfi að breytast þannig að unnið verið kerfisbundið með ofbeldið. Í menntageiranum ríkir traust, sem er gott og ætti að vera áfram. Það hefur þó annmarka, stundum getur verið erfitt að taka á málunum þegar alvarlegu ofbeldi er beitt. Okkur hættir til að telja það minna en það í raun er.
Tvo kennara í hvern bekk
Margir komu að gerð leiðavísisins, m.a. fagfélög og stofnanir. Formaður félags grunnskólakennara, í Danmörku, er ánægður með að menn hafi beint sjónum sínum að vandamálinu. Hann telur mikilvægt að hver skóli vinni að málunum heima í héraði og telur það hafa ákveðna stöðu og skuldbindingar að ráðuneyti menntamála gefi út leiðavísinn. Formaðurinn vonast eftir að kastljósið, sem ofbeldið fær, verði til að skapa svigrúm og verkfæri til að taka á vandanum, að fyrirbyggja ofbeldi og hótanir í garð kennara. Hann bendir á að í bekkjum þar sem ofbeldi er beitt eða getur átt sér stað ættu að vera tveir kennara. Leiðavísinum fylgja engir peningar en ráðherrann bendir á að sveitarfélögin geta valið að hafa tvo kennara í bekk, útfærslan er þeirra. Leiðavísirinn er fyrsta skrefið til að taka á vandaum og munu fleiri fylgja í kjölfarið. Búast má við frekari rannsóknum á vandamálinu ofbeldi og hótanir í garð grunnskólakennara í grunnskólanum.
Staðan hér á landi
Því miður hefur þessu vandamáli ekki verið gefinn gaumur hér á landi, þrátt fyrir að margir kennarar hafi upplifað ofbeldi og hótun í starfi. Vinnuumhverfisnefnd KÍ sendi út könnun meðal grunnskólakennara í lok apríl til að fá tilfinningu fyrir vandanum. Könnunin sýnir að við erum í sama vanda og frændur vorir Danir. Alltof margir kennarar upplifðu ofbeldi og hótanir. Sama má segja um Svía, þeir beina kastljósinu að ofbeldis- og hótunarvandanum sem eykst með hverju ári í grunnskólanum.
Stjórnendur og grunnskólakennarar sem beittir eru ofbeldi eiga að tilkynna það til Vinnumálastofnunar en mikill misbrestur er á því. Til að fá yfirsýn yfir málaflokkinn er mikilvægt að virða þá tilkynningarskyldu. Hér á landi, eins og í Danmörku, ríkir mikið traust í grunnskólanum og kann að vera skýring á að ofbeldið sé ekki tilkynnt, því miður. Engum er greiði gerður með að breiða yfir ofbeldi nemanda. Auk þess ber að tilynna barnaverndaryfirvöldum um ofbeldið.
Ofbeldi milli nemanda og kennara á ekki að líða. Minni líkur er á að barn fái viðeigandi aðstoð breiðum við yfir vandann og hvað þá að kennari fái aðstoð. Það er mikið áfall að verða fyrir ofbeldi og hótunum af hálfu nemanda. Enginn kennari á að sætta sig við slíkt.
Skólastjórnendur og yfirvöld menntamála þurfa að opna augun fyrir vandanum. Bjóða þarf kennurum sem verða fyrir ofbeldi viðeigandi aðstoð því það er ekki bara áfall að verða fyrir ofbeldi heldur rofnar traustið á milli kennara og nemandans sem beitir ofbeldi. Óttinn við að lenda aftur í ofbeldi sækir á sál þolanda sem vinna þarf með. Trúnaðarbrestur hefur átt sér stað og mikivægt að byggja hann upp aftur.
Rannsóknir á vandamálinu er ekki til staðar en þörfin er mikil. Sama er hvaðan gott kemur og því má hvetja meistaranema í kennarafræðum, sálfræði, félagsfræði eða hjúkrunarfræði, svo eitthvað sé nefnt, að rannsaka málaflokkinn.
Höfundur er M.Sc., M.Ed., starfar sem grunnskólakennari og er fulltrúi grunnskólakennara í Vinnuumhverfisnefnd KÍ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.