Opið bréf til Skólameistarafélags Íslands - sem þeir hafa ekki svarað

Arnar Sverrisson er uggandi vegna nauðgunarmenningar sem skólameistarar segja ríkja í framhaldsskólum landsins. Hann er ábyggilega ekki einn um það. Beðið er svara við bréfinu.

Virðulegi formaður, Helga Kristín Kolbeins!
 
Í kvöldfréttum RÚV 7. okt. 2022 var tekið viðtal við varaformann Skólameistarafélags Íslands, Sigríði Huld Jónsdóttur. Hún sagði:
”Ef ég hef ekki lögmætar ástæður fyrir því, þá getur nemandinn, ég tala nú ekki um ef hann er yngri en átján ára, að þá fer hann í mál við skólann. Og hann vinnur það mál. Það eru þau mál sem að skólameistarar eru að vísa í núna, því það hefur gerst, að nemendur, sem hafa beitt ofbeldi inn í skóla, hefur verið vísað úr skóla, en annað dómsstig segir svo, ”þér ber að taka við nemandanum aftur.” Þannig að þessi lögfræðilega hlið, það þarf að skýra hana. … Sem samfélag verðum við að fara að koma í veg fyrir það, að þessi nauðgunarmenning sé til staðar, hún er til staðar því miður, henni er viðhaldið því miður. Við viljum í skólunum leggja okkur fram til þess að hætta þessu, nauðgunarmenningu. Og okkur tekst það aldrei því miður. Við erum bara mannkyn, við erum mannleg og vont fólk verður áfram til. En við skulum ekki reyna að búa það til. Það er algjörleg markmið allra skóla að huga að velferð allra nemenda í skólunum.“
 
Í viðtalinu kemur ekkert fram um, hvað í hugtakinu, nauðgunarmenningu, felst, en Sigríður Huld nefndi, að stundum sé ekki fótur fyrir ákærunum. (Hugtakanotkunin er í sjálfu sér athygliverð. Hvernig má það vera, að nauðgun lýsi menningu í framhaldsskólunum?)
Ekki er upplýst, hvernig það sé leitt í ljós, hvort um sé að ræða innri dómstól skólanna eða alvöru dómstóla. Það er hvorki upplýst um fjölda ákæra um nauðganir, né hlutfall saklausra pilta eða stúlkna af heildarfjölda ákærðra.
 
Þessi nauðgunar(ó)menning skapar mér ugg. Á grundvelli upplýsinga frá Sigríði Huld bið ég vinsamlegast um skilgreiningu Skólameistarafélagsins á nauðgunarmenningu; nánari skýringar á því, hvernig skólarnir leiði í ljós sekt eða sakleysi ákærðra; nánari upplýsingar um umfang þessarar menningar, þ.e. heildartölu og kynhlutfall ákærðra á vettvangi skólans, hlutfall ákærðra og kyn þeirra, sem vísað er til lögreglu, og hlutfall dóma sektar og sýknu ákærðra nemenda við dómstóla landsins og kyn hlutaðeigandi.
 
Að lokum falast ég eftir upplýsingum um viðbrögð skólanna við fölskum ákærum. Er þeim, sem setja fram falskar ákærur, vísað úr skóla eða þeir kærðir til lögreglu? Hver eru kynjahlutföll falskra sakarábera, hvernig er nauðgunarmenningu „viðhaldið“ í framhaldskólum landsins og hverjir eru ábyrgir fyrir slíku viðhaldi?

Bloggfærslur 18. nóvember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband