29.10.2024 | 07:05
Ljótar lexíur grunnskólakennara!
Svo bregðast krosstré sem önnur, hver hefði trúað því að grunnskólakennarar ætli að kenna börnunum okkar jafn ljótar lífslexíur eins og raun ber vitni.
Þegar þeir taka höndum saman í verkfallsaðgerðum og ákveða að taka fyrir lítinn hóp saklausra barna og nota hann sem vopn í kjarabaráttu sinni spyr maður sig hvort þeim þyki alveg sjálfsagt að velja úr fórnarlömb, að mismuna og beita öllum mögulegum bolabrögðum til að ná fram markmiðum sínum. Allt á kostnað þeirra sem síst skyldi. Kannski er hugmyndin sú að kenna börnunum mikilvægi þess að berjast fyrir sínum eigin sérhagsmunum, jafnvel þótt það þýði að troða á réttindum annarra.
Ég velti líka fyrir mér hvort þetta sé ekki brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að fámennur hópur barna sé sviptur sínu námi, á meðan öll önnur njóta, en hvaða máli skipta landslög þegar kjarabarátta grunnskólakennara er annars vegar. Er ekki bara í góðu lagi að skapa fordæmi sem grefur undan grunngildum samfélagsins?
Sama gildir um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem tryggja á öllum börnum menntun án mismununar. Eru öll börn jöfn þegar ákveðið er að kasta hluta þeirra fyrir ljónin? Helgar tilgangurinn alltaf meðalið? Jafnrétti er greinilega ekki ofarlega í huga kennara sem hafa ákveðið að þessi alþjóðlegu mannréttindi eigi ekki við á okkar litla Íslandi.
Sömu sögu er að segja um siðareglur kennara, sem kveða á um að þeir skuli gæta velferðar nemenda sinna og sýna þeim virðingu, en kannski eru siðareglurnar bara tillögur, frekar en reglur því sum börn eru greinilega jafnari en önnur þegar kennarar ætla að ná fram betri launakjörum en aðrir landsmenn hafa þurft að gera sér að góðu í því árferði sem nú er.
Kannski ættum við bara að þakka kennurum fyrir þessa dýrmætu lexíu. Börnin okkar munu nú skilja hvernig heimurinn virkar í raun og veru. Þau munu sjá að jafnvel þeir sem eiga að vera fyrirmyndir og verndarar þeirra geta brugðist og sett sína sérhagsmuni ofar öllum öðrum. Það er víst í lagi að nota valdastöðu sína til að réttlæta mismunun ef málstaðurinn snýst um peninga!
En í alvöru talað, er þetta sú samfélagsmynd sem grunnskólakennarar vilja skapa? Engum dylst að kjarabarátta er nauðsynleg en það hljóta að vera til leiðir sem virða réttindi allra barna, óháð því hvaða skóla þau sækja. Við skulum krefjast þess að börnin okkar fái þá menntun sem þau eiga rétt á, án þess að vera notuð sem peð í kjarabaráttu kennara.
Höf: Einar Magnús Einarsson, birt með hans leyfi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.