23.7.2024 | 10:50
Nei samræmd próf eru ekki tímaskekkja- spurning um formið
Bloggari undrar sig á orðum Magnúsar Þórs Jónssonar formanns KÍ, Mjallar Matthíasdóttur formanns Félags grunnskólakennara og Helga Grímssonar fræðslustjóra Í Reykjavík um samræmd próf.
Þegar skýrsla um stöðu drengja er skoðuð kemur skýrt fram að mæling er nauðsynleg. Kennarar kalla eftir samræmi í mælingum. Heimanám sem margir skólar hafa afnumið er líka nauðsynlegt fyrir námsárangur, minna fjallað um það.
Brot úr skýrslunni
Kafli eftir Huldu Skogland, sérfræðing á greiningarsviði Menntamálastofnunar, er að finna í skýrslunni. Þar segir m.a.
,,Drengir eyða marktækt minni tíma í heimanám en stúlkur en samkvæmt niðurstöðum rannsókna á vegum OECD er marktæk fylgni milli heimanáms og námsárangurs, sérstaklega í þeim ríkjum sem leggja áherslu á heimanám í sínu skyldunámi.
,,Athygli vekur einnig að í löndum sem leggja fyrir próf á landsvísu (e. national tests) er hlutfall nemenda sem skortir grunnfærni í meðferð talna lægri borið saman við þau ríki sem ekki fylgjast með námsárangri með samanburðarhæfum hætti enda fyrr hægt að grípa inn í með stuðningi og leiðrétta skekkjur sem tengjast einkunnagjöf sem kennarar eða skólar gefa samkvæmt öðru mati.
Það einkunnarkerfi sem boðið er upp á í dag er ekki skilvirkt. Kennarar hafa áhrif með huglægu mati, hvað og hvernig námsstaða barns er könnuð. Í skýrslunni um stöðu drengja segir: ,,Árangursmælingar, markmið og námsmat er skýrt ferli þar sem árangur mismunandi kennsluaðferða er mældur. Áfram segir ,, Það þarf fleiri mælingar á færni sem fylgt er eftir með persónumiðuðum stuðningi. Ætli menn að hverfa frá opinberum mælingum er skólinn gjaldfelldur.
Þegar niðurstöður samræmdra prófa, bloggari talar með reynslu foreldris þriggja barna, lá fyrir var gott að sjá hvar skóinn kreppti hjá barninu í 4. bekk. Með því að leggja áherslu á þau atriði fram að 7. bekk þegar næsta próf var tekið batt foreldrið von við að sá þáttur myndi lagast. Sama með útkomuna í 7. bekk, eitthvað sem þurfti að leggja sérstaka áherslu á fram að prófi í 10. bekk. Leiðin var vörðuð með skólaprófum í millitíðinni. Kosturinn við samræmd próf var líka að foreldrið sá hvar stóð miðað við önnur börn á landinu.
Eins og segir í skýrslunni ,,Setjum upp námsmat þar sem nemendur geta borið sjálfan sig saman á skilvirkari hátt við eigin fyrri stöðu. Að því leyti voru samræmdu prófin góð, hægt að bera saman fyrri niðurstöður.
Samhljómur við kennara
Margir, mjög margir kennara, foreldrar og nemendur hafa kvartað undan núverandi námsmatskerfi sem í senn er ruglingslegt og óskiljanlegt. Í skýrslunni segir; ,, Endurtekin gagnrýni kom fram á fyrirkomulag hæfnimiðaðs námsmats í samræmi við ákvæði aðalnámskrár. Það kom fram hjá öllum hópum að notendur ættu í erfiðleikum með að átta sig á eðli hæfnieinkunna, að fyrirkomulagið væri óaðgengilegt, ógagnsætt og illskiljanlegt. Bent var á að hæfniviðmiðin væru svo opin og í mörgum tilvikum svo huglæg að þau vörðuðu illa leið nemenda í námi og veittu litla endurgjöf varðandi stöðu hverju sinni. Á bloggara virkar það sem forsvarsmenn skólamála í Reykjavík og Kennarasambandi Íslands hafi ekki puttann á púlsinum miðað við það sem fram kom í umræddri skýrslu.
,, Það var áberandi í öllum viðtölum við foreldra og meirihluta viðtala við kennara að matskerfi menntunar er ruglandi og ekki líklegt til að stuðla að árangri. Ein algengasta setningin sem fram kom var: Ég skil ekki hvað á góðri leið þýðir. Bloggari tekur undir það, spurði barnabarn sem hafði fengið þessa einkunn í dönsku, hvað þetta þýddi. Ummm sagði barnabarnið, yppti öxlum og sagði ,,það veit ég ekki.
Fram kemur í skýrslunni að ,,íslenskir kennarar kvarta undan því að hafa óskýran árangurs- og matsramma. Skal nokkurn undra. Hef heyrt kennara segja að ekki sé gefið D í sumum skólum og ekki A sem er framúrskarandi einkunn. Það hefur ekki einn kennari hælt þessum matsramma sem notaður er í skólum í dag, enginn! Menn vinna með matsviðmiðin af því það er skylda frá yfirvöldum. Síðan reyna kennarar sitt besta til að endurspegla getu nemenda. Oft huglægt mat. Horft til þátta sem skipta ekki máli. Þá myndast einkunnarverðbólga sem framhaldsskólakennarar finna fyrir.
Kennarar kalla eftir samræmdum prófum um allt land
Áhugavert að lesa ,,Skýr ósk kom fram um að kennarar hafi aðgang að einhvers konar prófabanka (verkfærakistu) þangað sem þeir geta sótt próf í íslensku og stærðfræði (og mögulega fleiri námsgreinum) til að leggja fyrir nemendur sína á tímapunktum sem þeim hentar. Ekki er hægt að leggja annan skilning í orð kennara en að samræmdur prófabanki séu próf sem leggja á fyrir nemendur um allt land. Það væri skref í rétta átt þá væri matsviðmið eins um allt land. Sama próf lagt fyrir alla, samræmd próf.
Hreyfing í grunnskólanum
Það sem kemur fram í skýrslunni um stöðu drengja um hreyfingu kemur engum á óvart. Samt sem áður hafa skólar kennslustundir sínar frá 60-100 mínútur. Þetta er sennilega gert til að þjappa deginum sama og nemendur komist fyrr heim, eða!
Talið er að börnin þurfi hreyfingu sem svarar 10-15 mín á hverja klukkustund. Væri þá ekki eðlilegt að hafa kennslustundina í 45 mínútur og frímínútur eftir það. ,, Allir drengir sem rætt var við í djúpviðtölum nefndu að fjölga ætti tækifærum til meiri hreyfingar aðspurðir um hverju þeir myndu helst vilja breyta í skólakerfinu. Þetta var eina breytan, sem allir drengirnir nefndu.
Margar unglingadeildir leyfa unglingunum að vera inni í frímínútum í stað þess að senda börnin út. Í sumum skólum hefur íþróttahúsið verið opnað í löngu frímínútunum sem eru 20-25 mínútur fyrir þá nemendur sem vilja hreyfa sig. Oft kemur í ljós að það eru drengirnir sem nýta sér þá aðstöðu.
Samræmd próf í Danaveldi
Nemendur í grunnskólum í veldi Friðriks X fara í samræmd próf í nokkrum fögum. Í sumum prófum eru hjálpargögn leyfð. Nemendur fara líka í munnlegt próf. Hér má sjá prófatöflu ríkisins frá síðasta vori.
Hér má lesa skýrsluna um stöðu drengja í skólakerfinu.
Athugasemdir
Svo öllu kjaftæði sé sleppt þá er skólakerfið uppblásið af einhverri innihaldslausri ítroðslu sem er ættlað að móta en ekki mennta. Mín reynsla af grunnskóla á Íslandi er að ekki var það bara tilgangslaust heldur líka drepleyðinlegt, líkara fangelsi heldur en menntastofnun. Er einhver þarna úti sem getur haldið því fram að viðkomandi hafi lært eitthvað annað en að lesa, skrifa og reikna í þessari fangavist?
Það er gefið að stelpum gengur betur en strákum því þær eru meðfærilegri og ganga frekar upp í því að geðjast öðrum. Það hefur hinsvegar ekki breytt þvi að karlmenn, varla læsir segja kannanir, eru stofnendur 90% nýsköpunarfyrirtækja.
Grunnskólinn á að vera tveir tímar á dag í tvo mánuði á ári í tvö ár þar sem kennd er lestur, skrift og reikningur. Allt umfram það er tímasóun kennara og barna auk þess að vera óþarfa kostnaður fyrir skattgreiðendur.
Bjarni (IP-tala skráð) 23.7.2024 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.