Formaður Félags grunnskólakennara vill verkfall í haust

ef marka má skrif hans til félagsmanna á dögunum. Grunnskólakennarar eru með lausan kjarasamning. Ekkert gerist fyrr en í haust. Mjöll Matthíasdóttir kallaði eftir hjálp kennara á haustdögum í pistli sínum. Getur varla þýtt annað en verkfallsboðun. Fram að þessu hefur Mjöll fetað í fótspor annarra formanna og heldur spilum kjarasamninganna þétt að sér. Kennarar eru ekki vel upplýstir um gang mála.

Bjarni Ben. þáverandi fjármálaráðherra notaði pennastrik til að skerða lífeyristréttindi opinberra starfsmanna. Hét jöfnun milli markaða. Bæturnar áttu að koma á 10 árum og nú eru þau brátt liðin.

Eina kjarabót grunnskólakennara í þessum samningi verður þessi skerðing. Í mínum huga verða kennarar af kjarabót í einum samningum ef það er raunin. Eins og fyrr segir, það heyrist ekkert frá Mjöll Matthíasdóttur formanni sem er þvert á það sem hún boðaði í eigin kosningabaráttu.

Einn vandinn við gerð kjarasamningsins, bætingu, er að grunnskólakennarar þurfa að finna viðmiðunarstétt á almenna markaðnum. Það er þrautin þyngri. Höfum vitað það lengi. Bloggari hefur margspurt forystuna hvaða viðmiðunarstétt grunnskólakennarar beri sig saman við. Enn…takið eftir, enn liggur ekki fyrir í höfuðstöðvum KÍ hver viðmiðunarstéttin er, því þangað hef ég beint fyrirspurnum mínum í nokkur ár. Ágreiningur er  á milli samningsaðila um þetta.

Taka þarf tillit til margra þátta þegar viðmiðunarstéttin er fundin, svipuð ábyrgð og starfssvið.

Kíkjum á starf gunnskólakennara, hvað hann gerir ekki:

  • Ber ekki ábyrgð á peningum
  • Ber ekki ábyrgð á starfsfólki
  • Hefur ekki mannaforráð
  • Ber ekki ábyrgð á árangri nemenda
  • Ber ekki ábyrgð á húsnæði eða munum
  • Ber ekki ábyrgð á gerð námsefnis
  • Engar árangurstengdar mælingar á vinnu kennara
  • Bannað að segja upp þrátt fyrir lélegan árangur
  • Heldur stöðu sinni þar til hann brýtur af sér í starfi (þá áminning, ef brotið er ekki alvarlegt)
  • Ber ekki ábyrgð á mætingu nemenda

Það sem grunnskólakennarinn gerir:

  • Hefur umsjón með börnum, venjulega einum bekk
  • Stuðlar að vellíðan nemenda, eins og sjúkraliði gerir gagnvart skjólstæðingum sínum
  • Sinnir samskiptum milli heimilis og skóla, oft sem vikulegur tölvupóstur
  • Tekur á vægum ágreiningsefnum milli nemenda
  • Vísar flóknum málum, s.s. eineltismálum, skemmdum á eigum skólans til teymis eða stjórnenda
  • Vísar erfiðum samskiptum við foreldra til stjórnenda
  • Skipuleggur nemenda og foreldraviðtöl
  • Sér um að búa nemendur undir árshátíð og aðrar uppákomur í skólanum
  • Situr fundi sem stjórnendur boða, s.s. kennarafundi, stigsfundi, starfsmannafundi, skilafundi með sérfræðingum og foreldrum
  • Situr teymisfundi og með sérkennurum ef á þarf að halda
  • Fyllir út lista fyrir sérfræðinga sem sjá um greiningar á börnum
  • Heldur stofunni sinni í skikkanlegu horfi
  • Kennir margar greinar, s.s. íslensku, stærðfræði, náttúrufræði.
  • Kennir hugmyndafræði, s.s. loftslagsmál, trans hugmyndafræði, ranga íslensku (sumir eru komnir þangað), markmið Sameinuðu þjóðanna, hugmyndir UNESCO svo fátt eitt sé nefnt.
  • Sérgreinakennarar kenna oftast eina grein án umsjónar með nemendum, s.s. íþróttir og smíðar
  • Leggur fyrir kannanir, próf og sér um símat
  • Gengur frá vitnisburði í Mentor skráningarkerfið
  • Skipuleggur ferðir fyrir nemendur t.d. á vordögum
  • Undirbýr þemadaga og tekur þátt í þeim
  • Undirbýr skólabyrjun og gengur frá námsgögnum í lok skólaárs

Listinn er ekki tæmandi. Hversu þungt hver einstaka þáttur vegur þegar meta á laun skal ósagt látið. Eitt er víst það verður forvitnilegt að sjá niðurstöðuna. Ekki síður verður forvitnilegt að sjá hvort Mjöll Matthíasdóttir formaður Félags grunnskólakennara leggi boðun verkfalls í hendur kennara þegar þeir mæta til starfa. Skyldi það vera hjálpin sem hún kallar eftir.

Talandi um skóla, kennara og ábyrgð, hvet fólk til að hlusta á viðtalið við Jón Pétur Zímsen hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband