10.4.2024 | 08:05
Könnun Kennarasambandsins og ráðstefnan í Hörpu
Ljóst er að ráðstefnan var ekki fyrir hinn almenna kennara því hún fór fram á virkum degi, þriðjudegi frá kl. 09:00-16:00. Sárafáir kennarar fá heimild til að fara heilan dag frá vinnu og ef hópur kennara vill fara úr sama skóla vandast málið fyrir skólastjórann. Svo ekki sé talað um kennara á landsbyggðinni sem eru háðir flugi og komast ekki samdægurs, þeir gætu þurft tveggja daga frí.
Það er merkilegt að grunnskólakennarar sem bera KÍ uppi í gegnum Félag grunnskólakennara hafa litla möguleika á að sækja svona ráðstefnu sem KÍ stendur fyrir. Þeir komast ekki frá vinnu. Ef þeir komast þurfa margir að skila vinnu, nema beinni kennslu, á öðrum tíma.
Ekki það, eftir að hafa hlustað á fyrri hluta dagskrárinnar í streymi kom ekkert nýtt fram. Enn er verið að tyggja sömu tugguna og gert hefur verið undanfarin áratug hið minnsta. Að því leyti skilur KÍ sig ekki frá viðsemjendum, tala og tala, ekkert gerist eins og Haraldur sagði í pallborðsumræðunum. Margir félagsmenn líta á KÍ sem stofnun.
Könnunin
Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins kynnti niðurstöður úr könnun sambandsins. Kennarar allra skólastiga höfðu kost á að svara spurningunum, en um 50% félagsmanna svörðu. Farið var yfir svörin á ráðstefnunni.
Magnús sagði í upphafi að alltaf væri verið að leita að kynhlutlausu orði yfir formann KÍ og það væri kannski kúasmali en kynnir á ráðstefnunni sagði Magnús hafa verið kúasmali hér á árum áður. Hér setur formaður Kennarasamtaka íslenskuna niður.
Mjög margir grunnskólakennarar völdu að svara ekki, aðeins um 38% grunnskólakennara svöruðu. Hvað segir það okkur?
Félag grunnskólakennara er langstærsta félag innan sambandsins og ber það uppi fjárhagslega. Svörun grunnskólakennara átti að vera miklu meiri, en vissulega gefur lítil svörun ákveðin skilaboð til KÍ.
Mörg neikvæð lýsingaorð voru viðhöfð um Kennarasambandið. Félagsmönnum finnst sambandið ekki lausnamiðað. Félagsmönnum finnst KÍ of stofnanalegt. Grunnskólakennurum finnst KÍ er ekki góður málsvari.
Stjórnendur skera sig úr vegna þátttöku í fræðslufundum. Magnús fagnaði því en gleymir að minnast á að þeir eiga auðveldara með að fara úr vinnu en grunnskólakennarar. KÍ leggur sig heldur ekki fram um að vera með fræðsludaga eða ráðstefnur á þeim dögum sem kennara komast, eða nota síðdegi þegar auðveldara er fyrir kennara að mæta eða fylgjast með streymi.
Námsgögn
Mjöll Matthíasdóttir formaður Félags grunnskólakennara ræddi í pósti til félagsmanna, vegna lélegrar útkomu í PISA, að kennurum vanti námsgögn, það m.a. valdi lélegri útkomu úr PISA. Í könnuninni segja aðeins 28% skort á námsgögnum vera álagsþátt í starfi, sem er ekki í takt við það sem formaður Fg heldur fram. Væri skortur á námsgögnum raunverulegur væru fleiri kennara sem teldu slíkt álagsþátt í starfi.
Í pallborðsumræðum sagði Mjöll að það vanti aðallega námsgögn fyrir útlenda nemendur. Hvað nákvæmlega hún á við er ekki vitað, er það íslenskan, náttúrufræði,stærðfræði eða hvað!
Í starfi
Um 53% grunnskólakennara sjá sig ekki í starfi eftir 5 ár. Aðeins 20% svara því játandi að þeir sjái sig í starfi eftir 5 ár, frekar líklegt 32% og síðan hallar undir færi. Kemur ekki á óvart miðað við þróun skólastarfs undanfarin ár. Vissulega skiljanlegt þar sem grunnskólakennarar kvarta líka undan litlum stuðningi í bekk. En þetta er ekki nýtt af nálinni, þetta hefur verið vitað í áratugi.
Séu hins vegar allar kennarasstéttirnar skoðaðar eru það 27%.
Í reynd kemur þessi niðurstaða ekki á óvart. Mikið álag, aukið ofbeldi, munnlegt og líkamlegt nemenda í garð kennara, léleg laun og oft á tíðum léleg stjórnun veldur að kennarar hugsa sér til hreyfings. Afstaða grunnskólakennara hefur ekkert breyst undanfarna áratugi. Þeir sem hafa kost á vinnu sem gefur svipuð laun eða hærri fara. Yfirgefa völlinn. Ekkert skrýtið við það. Vandi sem hefur blasað við í nærri tvo áratugi.
Alls konar stefnur, straumar og hugmyndafræði er tekið inn í skólakerfið án þess að grunnskólakennarar fái tíma til að undirbúa sig. Þeir hafa heldur ekki val um að taka þessar stefnur og strauma inn, það er á valdi stjórnenda (sem eru líka í KÍ) og þeirra ákvörðun íþyngir mörgum kennaranum og veldur álagi.
Kennarar vilja samkeppnishæf laun. Þeir vilja hæfilegt vinnuálag og öruggar vinnuaðstæður. Þetta þrennt stendur upp úr þegar spurt er um það sem skiptir mestu máli fyrir kennarastarfið.
Öruggt starfsumhverfi hafa grunnskólakennarar rætt í nokkur ár. Fyrir liggur samþykkt frá þingi KÍ um að gera rannsókn á ofbeldi sem kennarar verða fyrir. Forysta KÍ virðist ekki hafa áhuga á þessari rannsókn því samkvæmt svörum formanns KÍ liggur ákvörðunin enn á borði Vinnuumhverfisnefndar. Léleg frammistaða. Rannsóknin á að vera forgangsverkefni KÍ.
KÍ og álit félagsmanna
Sami söngurinn er sunginn innan KÍ en fátt gerist. Sambandið er stofnun sem virðist ná illa til félagsmanna.
Margir félagsmenn nota styrki sem launagreiðandi borgar inn til KÍ, s.s. starfsþróun, sjúkrasjóð.
Á ráðstefnunni var boðið upp á að setja inn orðsendingar. Hér má sjá nokkrar:
Athyglisvert.- Stofnanalegt, fjarlægt. Ekki lausnarmiðað, tæplega helmingur félagsmanna í Fg telur KÍ góðan málsvara. Er það ekki í samræmi við að telja KÍ stofnanalegt og fjarlægt?
Kemur ekki á óvart að félagsmönnum Fg finnist KÍ ekki vera góður málsvari. Eigum ekki samleið með skólastjórum.
Leitt hversu há prósenta vill hvorki taka þátt í félagsstarfi sem kjörinn fulltrúi eða trúnaðarmaður. Hvernig getum við breytt þeim viðhorfum félagsmanna?
Ef erfitt er að fá fólk til trúnaðarstarfa þarf forystan að vera sýnileg.
Athugasemdir
Sæl, eru það 25% sem sjá sig ekki í starfi eftir 5 ár? Hvaðan færðu töluna 53%?
Birgir Loftsson, 10.4.2024 kl. 12:03
Sæll.
Samkvæmt könnuninni voru það 53% grunnskólakennara sem sjá sig ekki í starfi. Sé hins vegar litið til allra kennara þá fellur talan niður í 27%.
Það skýrir töluna.
Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 10.4.2024 kl. 13:09
Takk fyrir þetta Helga. Athyglisvert.
Birgir Loftsson, 10.4.2024 kl. 14:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.