ÓEÐLI ÍSLENDINGA

Gef skáldinu Kristjáni Hreinsssyni orðið á síðunni í dag.

Margsinnis hef ég ritað um brýn málefni, eitthvað sem ætti að skipta alla landsmenn miklu máli. Það er til dæmis forkastanleg hneisa hvernig auðæfum er misskipt á Íslandi, aðbúnaður öryrkja og aldraðra er fyrir neðan allar hellur, það er til skammar að útgerðin skuli fá marga milljarða gefins á hverju ári, það er til háborinnar skammar að útgerðin geti haldið úti málgagni sem fegrar sorann, það er til skammar að lyddur skuli stjórna klámvæðingu í grunnskólum, það er til skammar hvernig fólk lætur örhópa stýra samfélaginu.
 
Hið stórkostlegasta af öllu er það að ég leyfi mér oft þann munað að lauma inn í pistla mína einu og einu orði sem ég veit að farið getur fyrir brjóstið á þeim sem eru hve færastir í þeim aumingjaleik sem kallast orðhengilsháttur. Þessi háttur er sérgrein Íslendinga. Engin þjóð getur hugsanlega skákað íslenskri alþýðu í þessum hálfvitahætti. Sjái fólk orð eins og: „kynvillingur“, „öfuguggaháttur“, „fávitahæli“ eða eitthvað sambærilegt þá skal ávallt einhver lesandi fá þvag fyrir hjartað og hjóla í orðaval mitt í stað þess að pæla í því sem ég er að rita um. Reyndar er það svo hjá sumum að það er engu líkara en heimurinn sé byggður á misskilningi. Allt verður þessu fólki að hártogun, hráskinnaleik og pissukeppni. Útúrsnúningur er það fyrsta sem í hugann kemur.
 
Ég hef haft þann háttinn á að ég fækka þeim svokölluðu vinum mínum sem eru ávallt með ómálefnalegan sparðatíning og eilífan helvítis tittlingaskít. Ég einfaldlega leyfi þessu fólki ekki að hafa aðgang að mínu efni. Að vísu er ég fjandanum sveigjanlegri í þessum efnum en annað veifið kemur það fyrir að mér er ofboðið – þá rými ég til fyrir nýjum vinum og leyfi orðalöggunum að róa.
 
Úrkynjun málefnalegrar umræðu birtist í ýmsum myndum. Þótt orðalöggur séu oft hið ágætasta fólk þá leynast í hópnum alvarlega sjúkar íhaldssleikjur sem viðhafa fullkomið siðleysi í nafni pólitískrar rétthugsunar. Ofbeldi þeirra birtist í þöggun gagnvart vítaverðum aðgerðum stjórnvalda. En mannvonskan verður að samþykktum kvalalosta hjá fólki sem neitar að láta knýjandi málefni vekja sig af djúpstæðum doða. Að snúa útúr er vörn fyrir þá sem vita ekki hvernig þeir eiga að svara.
 
Viðrinisháttur Íslendinga er oft svo óborganlegur að það nær engu tali. Á meðan glæpaklíkur stjórna landinu og gera flesta landsmenn að þrælum, bókstaflega aumum þrælum – frá vöggu til grafar, þá hefur sumt fólk mestar áhyggjur af því hvort þetta orð sé betra eða verra en hitt orðið. Að leysa vandann er aukaatriði. Aðalatriðið er að þrátta um veður, karpa um keisarans skegg og ýlfra eins og útigangur ef orð eru ekki sögð í réttri röð.
 
Eymdin fer á efsta stig
svo ótrúlega hæpin
hjá þjóð sem dæmir sjálfa sig
en sér þó aldrei glæpinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Snilldar pistill og svo sannur.

Engvu við þetta að bæta.

Sigurður Kristján Hjaltested, 12.12.2023 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband