Kristján Hreinsson skáld fær orðið

en hann er einn þeirra sem vill varðveita íslenska tungu. Oftar en ekki er ég sammála honum. Gef honum orðið á bloggsíðunni í dag. Hann skrifaði þennan góða pistil á snjáldursíðuna.
 
„NJÓTTU DAGSINS!“
 
Þegar ég sé vá fyrir dyrum og þegar ég læt í mér heyra þá er eins og ýmsum hugkvæmist að best sé að láta mig þegja. Ein aðferð er að reka mig úr starfi. Svo er önnur aðferð fólgin í að segja mér frá því að ef ég ekki tilheyri hóp góða fólksins þá geti ég ekki vænst styrkja og listamannalauna. Hótanir góða fólksins virka eflaust vel, þótt þær hafi ekkert með mig að gera. Ég veit það allavega að þeir eru ekki margir rithöfundarnir sem sýna málsvörn minni skilning.
 
Málsvörn mín heldur þó sínu striki og góða fólkið hefur samband og segir mér að óþarfi sé að óttast breytingar íslenskrar tungu. Eins er mér tjáð að ég tilheyri dreggjum samfélagsins, að ég sé fordómafullur og með hatursorðræðu í garð örhópa. Ég er sagður á móti breytingum og ég er sagður vera á móti hinsegin fólki. Góða fólkið hefur meira að segja tjáð mér að ég sé á móti útlendingum, vegna þess að ég vil að við mig sé töluð sé íslenska þegar ég kem að afgreiðsluborði á Íslandi.
 
Góða fólkið vill öllum vel, nema þeim sem benda á veikleika.
Ef við breytum íslenskunni að hætti góða fólksins og lifum í sýnd umburðarlyndis á meðan reyndin er veruleiki sem fólk kýs að líta fram hjá, þá blasir við okkur nýr vandi. Ef við leyfum hjátrú pólitísks rétttrúnaðar að ráða för, ef við bönnum orð, ef við neyðum fólk til að vanda orðræðu og ef við t.d. fækkum karlkynsorðum til þess að þjóna hvorugkyni, þá erum við ekki bara að breyta íslenskunni. Við erum fyrst og fremst að draga úr frelsi. Við erum að skerða málfrelsi og skerða tjáningarfrelsi.
Kennari sem kemur auga á veikleika í duttlungum góða fólksins, bendir nemendum sínum á að rétt sé að nota öll íslensk orð. Hann er kallaður á teppið og honum er sagt að orðræða hans sé ekki boðleg. Þegar kennarinn neitar að taka þátt í aðför góða fólksins að íslenskri tungu, þá missir hann starfið.
 
Góða fólkið segir: „Hafðu góðan dag.“ Við hin þráumst við og segjum: „Njóttu dagsins!“
 
 
 
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband