10.6.2023 | 08:37
Má setja staðreyndavillur í námsbækur grunnskólabarna?
Hef velt þessu fyrir mér. Líka hver ábyrgð foreldra sé í tengslum við rangfærslur í skólabókum barna, svo ég tali nú ekki um kennara. Ef kennari kennir barni að Noregur og Pólland eigi sameiginleg landamæri myndi foreldri bregðast við? Ef kennari segði nemendum að höfuðborg Noregs heiti Þórshöfn, eða Finnlands Osló, myndu þeir bregðast við? Eða að enginn maður hafi stigið á tunglið, hvað þá?
Kynfræðsla í grunnskólanum
Menntamálastofunum hefur á undanförnum árum gefið út nýtt fræðsluefni um kynfræðslu fyrir börn á öllum stigum skóla. Margt gott, en að mínu mati eru ákveðnar rangfærslur eða villandi upplýsingar í námsefninu. Bókin ,,Ég og sjálfsmyndin er ætlað börnum á miðstigi (10-12 ára), áhugaverð lesning.
Á bls. 26 stendur ,,Skólinn hefur mikil áhrif á líf okkar allra... Algerlega rétt og því skiptir máli að kennsla og kennsluefni eigi við rök og staðreyndir að styðjast.
Í bókinni þarf ekki að fara langt áður en merkileg fræðsla byrjar. Á bls. 5 er persónufornöfnum trans-hreyfingarinnar komið inn sem er langt í frá að vera almenn málvenja hér á landi og ef víðar er leitað. Mönnum ber ekki skylda til að taka sér þau orð í munn. Valkvætt. Samt er það í skólabók fyrir miðstig. Hins vegar ber að virða það ef einhver óskar eftir að nota fornöfn trans-hreyfingarinnar.
Kynin eru tvö, vísindin eru sammála um það
Á bls. 70 er talað um ,,öðrum kynjum. Rangfærsla. Hvar og hver hefur sannað að líffræðilegu kynin séu fleiri en tvö? Vissulega er það til í trans-hugmyndafræðinni, ekki staðreynd. Höfundur bókarinnar setur þetta fram eins og um vísindalega staðhæfingu sé að ræða. Það er ekki viðtekin venja í samfélaginu að samþykkja trans-hugmyndafræðina og því er óviðunandi að slíkt sé sett fram í kennslubók grunnskólabarna. Formaður Trans-hreyfingarinnar á Íslandi segir transhugmyndafræðina félagslega, ekki líffræðilega. Þannig að transfólk tekur undir að kynin séu tvö, og það margir.
Á bls. 71 segir skýrt og skorinort: ,,Trans er regnhlífarheiti yfir fólk sem er með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Þegar við fæðumst er horft á líkama okkar og þá talað um að okkur sé úthlutað kyni; hér er fæddur lítill drengur eða stúlka. Fólk sem er sátt við sitt úthlutað kyn er sís.
Talað er um úthlutun kyns. Hér er að mínu mati rangfærsla í bókinni. Engum er úthlutað kyni, við fæðumst annað tveggja, strákur eða stelpa. Ég spyr, láta foreldrar og heilbrigðisstarfsfólk smætta sig, vísindin og fræðin með þessum hætti í námsbók fyrir grunnskólanemendur?
Hvar hafa höfundar fræðsluefnisins það staðfest að foreldrar og fagfólk geti sér um kyn barns þegar það fæðist eins og sagt er í námsefninu? Að sjálfsögðu er það hvergi staðfest því foreldrar sjá í sónar, eða í það minnsta þegar barnið fæðist, hvort kynið barnið er. Strax í móðurkviði ákvarðast kynið og allar frumur líkamans taka mið af því, XX eða XY litningum. Kynfærin segja líka til um kynið. Ekki hugur foreldranna eða fagfólks. Hugarheimur trans-hreyfingarinnar skín hér í gegn í kennslubók.
Uppnefni á gagnkynhneigðu fólki
Í bókinni er gagnkynhneigt fólk uppnefnt ,,sis eins og það sé staðreynd lífsins. Svo er ekki. Gagnkynhneigt fólk hefur ekki óskað eftir slíku uppnefni. Að setja fornafn transhreyfingarinnar framan við konu eða karl til ,,eyrnamerkja eða ,,uppnefna eftir hugmyndafræði þeirra er óboðlegt. Bæði fyrir börn og fullorðna. Hvað þá í námsefni ætlað börnum á miðstigi grunnskóla.
Kyneinkenni
Á bls. 71 er talað um að ekki fæðist allir með sömu kyneinkenni. Sennilega átt við intersex hér sem er mjög sjaldgæfur kvilli. Samt sem áður en í flestum tilfellum hægt að greina hvort kynið sé ríkjandi. Hvergi er talað um að sú prósentutala sé svo lág miðað við mannfjölda að það heyri til undantekninga. Umhugsunarvert!
Margt á bls. 71 þarf að athuga að mínu mati og er Menntamálastofnun til skammar að leggja námsefnið fram fyrir börn á miðstigi. Verra ef kennarar nota þetta efni.
Á bls. 73 er í fyrsta skipti talað um gagnkynhneigt fólk og það í tengslum við hinsegin hugtakið. Verulega einkennileg framsetning. Fjöldi gagnkynhneigðra er í miklum meirihluta, sennilega 97%- 99% þjóðarinnar.
Verkefni í bókinni
Á bls. 76 undir liðnum verkefni eiga nemendur að kynna sér síðu Samtaka 78, kynna sér hinsegin félagsmiðstöð o.s.frv. Nemendur eiga að lýsa í stuttu máli hvaða málefnum samtökin vinna að. Verkefnið stingur í stúf. Hvergi í verkefnunum á nemandi að kynna sér félagsmiðstöðina sem er í nágrenni við skólann og ætlað öllum. Ljóst að trans-hugmyndafræðin hefur náð yfirtökum í námsbókum barna.
Hvergi eiga nemendur að fara inn á heimasíður hagsmuna- eða mannréttindasamtaka í verkefnavinnunni. Meira að segja þegar er talað um andleg veikindi er nemendum ekki bent á um heimasíðu Geðverndar eða kynna sér starfsemi þeirra. Ekki er börnum bent á samtökin ,,Okkar heimur sem er fyrir börn sem eiga foreldra sem glíma við geðræn vandmál. Samt líða fleiri börn andlega vegna geðsjúkdóma foreldra en ónot við eigið kyn.
Þessi ofuráhersla á Samtökin 78 er að mínu mati ekkert nema áróður á grunnskólabörn. Það ber að fjarlægja.
Annað sem er mjög eftirtektarvert í námsefninu er að orðið stelpa og strákur koma einu sinni fyrir. Það er gert að yfirlögðu ráði, því transhreyfingin vill þau orð út úr orðaforða barna og fullorðinni. Slæm þróun svo ekki sé dýpra í árina tekið.
Námsefni í skólum landsins
Ég hefði haldið að Menntasmálastofnunni héldi sig við staðreyndir, eins og líffræðina, þegar námsefni er gefið út. Við vitum að á tímum falsfrétta má ljúga í fjölmiðlum. Má það líka í skólabókum? Hefði haldið ekki. Ég undrast mest andvaraleysi kennarastéttarinnar gagnvart þessum rangfærslum. Eru menn tilbúnir að fara með staðlausa stafi í kennslu án þess að nokkur vísindaleg vitneskja og þekking liggi að baki. Við viljum gagnreyndar aðferðir í læsi, tungumálakennslu, stærðfræði o.fl. fögum. Við viljum gagnreyndar aðferðir og staðreyndir í kennslu. Þegar kemur að ákveðnum hluta kynfræðslu má hugurinn leiða kennara, og fræðsluaðila sem sveitarfélögin ráða, um víðan völl og hann flutt falsfréttir í kennslustofunni.
Hinsegin fræðsla
Hinsegin fræðsla er hugmyndafræði. Þegar maður þrífst ekki í eigin líkama er það af því hugurinn segir svo, ekki líkaminn. Sama ef maður vill ekki vera stelpa en strákur og öfugt. Líkamann segir fólki þetta ekki. Ónot gagnvart eigin kyni myndast í heilanum, hugurinn fer á flakk. Það er líka í góðu lagi. Því ber ekki að rugla við líffræðina og enn síður að búa til kyn sem eru ekki til.
Þegar hugurinn fer á flakk er gott að tala við einhvern um málið. Foreldrar ættu að vera þeir fyrstu, síðan sálfræðingur. Hlutlaus aðili, ekki aðgerðarsinni. Hugarflakkið er nauðsynlegt að skilja, af hverju og hvað sé hægt að gera til að stilla til friðar í heilanum. Mikilvægt er að börn sem svo er komið fyrir sættist við sig og hugsanir sínar með aðstoð sálfræðinga.
Bókin, Ég og sjálfsmyndin, eins og margar aðrar um kynfræðslu er búin til og lesin yfir af þeim sem aðhyllast trans-hugmyndafræðina. Við bjóðum hættunni heim og menntamálayfirvöldum ber að stoppa framleiðslu á efninu þar sem hugmyndafræðin, sem fáir aðhyllast, litar allt námsefnið.
Varla þarf að nefna veggspjöldin, fánana og transorðin sem prýða veggi margra skóla og eru vafasöm frá mörgum hliðum séð. Margir myndu kalla slíkt áróður.
Kennarar í Noregi deila áhyggjum mínum og hafa skrifað greinar um málið í fjölmiðlum þar í landi. Hér virðist um heimsfaraldur að ræða og enginn ætlar sér að stoppa. Er ekki til þríeyki í málaflokknum sem vinnur gegn þessum faraldri?
Athugasemdir
Sæmundur G. Halldórsson , 10.6.2023 kl. 13:43
Nei Sæmundur það er ekki misskilngur. Hef svarað þér annars staðar. Ef transfólk vil skilgreina sig trans er það í góðu lagi. Leyfið okkur hinum, sem viljum ekki uppnefni Samtaka 78 á okkur, að vera í friði. Við erum konur eða karlar...ekkert annað. Óviðeigandi að kenna börnum þetta því gagnkynhneigðir eru um 98% af íbúum landsins ef ekki meir.
Burt með þessi uppnefni á öðru fólki.
Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 10.6.2023 kl. 15:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.