Réttur kennara- kinnhestur

Á dögunum var grunnskólakennara dæmdar nokkrar milljónir í bætur fyrir ólögleg uppsögn. Smámunir miðað við skaðann. Málið fór fyrir dóm og má undrast af hverju aðilar sömdu ekki um málið áður en það fór svo langt. Í fyrirtöku er rætt við aðila málsins sem eru Félag grunnskólakennara fyrir hönd grunnskólakennara og Dalvíkurbyggð. Aðrir koma ekki að málinu.

Í fyrirtöku segir hvor sína sögu. Kennarinn segir frá upplifun sinni af atburði sem hann lenti í. Sveitarfélagið segir frá sinni hlið. Kinnhestur kennarans var aðalmálið og brottrekstrarsökin.

Úrvinnsla málsins var ekki samkvæmt lögum og reglum, hvorki kjarasamningi kennarans né heldur um opinbera starfsmenn. Dómurinn rökstyður það vel.

Foreldrar barnsins stigu fram til að segja sína sögu. Málið er að í þessum málaferlum skiptir saga þeirra engu máli. Barnið er ekki aðili að málinu. Auðvitað hefur barnið aðra sögu að segja. Hins vegar tek ég undir, athugasemdir á samfélagsmiðlum er engum til sóma, frekar en skrif þeirra.

Það sem mér fannst gott að lesa í dómnum voru eftirfarandi:

,,Ágreiningur málsins lýtur að lögmæti uppsagnar stefnanda hinn 7. júlí 2021, en þann dag var henni sagt fyrirvaralaust upp starfi sínu sem leikfimiskennara við […]skóla. Í hnotskurn snýst málið um það hvort kinnhestur sá er stefnandi veitti nemandanum hafi átt að leiða til áminningar eða fyrirvaralausrar brottvikningar úr starfi. Málavextir eru ágreiningslausir og hefur stefnandi ávallt viðurkennt brot sitt.“

Hér er líka atriði sem margir foreldrar ættu að skoða og ekki síður kunna. Nauðsynlegt að brýna fyrir börnum sínum, því samnemendur líða oft fyrir börnin sem geta ekki farið eftir fyrirmælum, fara ekki eftir skólareglum eða sýna almenna kurteisi. Börn sem það kunna virðast oft raddlaus sem og foreldrar þeirra.

,, Dómurinn telur að ekki sé unnt að líta á einangrað á kinnhest þann sem stefnandi gaf nemandanum, svo sem stefndi kýs að gera, heldur verði að líta heildstætt á málið svo að unnt sé að meta hvort um gróft brot sé að ræða af hálfu stefnanda eða ekki. Öll framkoma nemandans fór í bága við 2. mgr. 14. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008, en þar segir að nemendum beri að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks grunnskóla í öllu því sem skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.“

Spyrja má hvort aðrir nemendur eigi ekki að njóta kennslu kennarans þrátt fyrir allt. Dómurinn tekur á því sem betur fer og vonandi öðrum víti til varnaðar.

,, Dómurinn telur viðbrögð stefnanda skiljanleg í ljósi aðstæðna þótt ekki sé hægt að samþykkja þau. Eins og mál þetta liggur fyrir telur dómurinn að atvikið sé ekki gróft brot í starfi þannig að það réttlæti brottrekstur án fyrirvara. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að viðvera stefnanda á vinnustað myndi valda skaða fyrir starfsemi skólans eða nemendur og kennara.“

Að mínu mati er þetta verulega sorglegt, þegar á reynir svíkur vinnuveitandi og stjórnendur skólamála.

,, Þá telur dómurinn að miski stefnanda sé verulegur. Fyrst er það að nefna að ólögmætt var að reka stefnanda fyrirvaralaust. Þá verður ekki litið fram hjá því að stefnandi var starfsmaður stefnda, sem hvorki gætti hagsmuna hennar né sýndi henni stuðning, svo sem stefnda bar að gera sem vinnuveitanda hennar. Þá hafi stefndi ekki leiðbeint stefnanda um að hafa einhvern með sér á fundi, til að draga úr yfirburðastöðu stefnda gagnvart stefnanda, en yfirleitt voru tveir aðilar frá stefnda á fundi með stefnanda. Ekkert virðist hafa verið unnið úr atvikinu af hálfu starfsmanna stefnda og t.d. hafi hvorki verið haldinn sáttafundur með stefnanda og foreldrum nemandans, né annað.“

Væri hægt að tína margt fleira sem dómurinn fjallar um. Svona meðferð af hálfu vinnuveitanda á ekki að líða. Launþegar geta vissulega fagnað, réttindamál sem varðar marga.

Í þessu tilfelli átti skrifleg áminning við ekki brottrekstur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband