18.2.2022 | 15:23
Ófaglærðir snyrtifræðingar- gerum við ekki meiri kröfur?
Um jólin fékk ég gjafabréf, dekur. Yndislegt. Hlakkaði til. Stofan er á Nýbýlavegi í Kópavogi og heitir 101 Spa. Pantaði tíma strax eftir jólin í lúxus fót- og handsnyrtingu sem átti að taka tvo tíma. Sjaldgæft að ég nýti þjónustu snyrtifræðinga. Veit þó hvað dekur felur í sér. Þekki handbragð snyrtifræðinga.
Mæti á ópersónulega stofu
Þegar ég kem inn á stofuna mætir mér afar ópersónulegt umhverfi og þjónusta. Stúlka í síma sem leggur hann niður þegar ég kem að afgreiðsluborðinu. Stúlkan, sem talaði þokkalega íslensku, bendir mér á sófa til að bíða í. Geri það. Eftir stutta stund býður hún mér eitthvað að drekka. Þáði kaffibolla- sem kom reyndar aldrei. Þar sem dekrinu fylgdi lökkun á neglur þurfti ég að velja lit á naglalakkinu. Afgreiðslustúlkan kom með körfu, rétti mér hana og sagði mér að velja. Sem ég og gerði. Sjálf átti ég að passa upp á lakkið.
Byrjað á handsnyrtingu
Eftir smá stund kemur um stúlka og ljóst hún er ekki af íslenskum uppruna. Hún talaði við mig í boðhætti, komdu, sestu. Ég var enn í úlpunni og spurði hvar ég gæti hengt hana upp. Þarna var svarið og mér bent á fatastand. Þegar ég sest í stólinn og rétti fram hendur tek ég eftir að síminn hennar liggur á borðinu við hlið hennar. Handsnyrtingin byrjar. Stúlkan segir svo ,,klippa og reiknaði ég út að hún væri að spyrja um neglurnar. Sagði henni að hún væri sérfræðingurinn og ætti að ráða því. Neglurnar pússaðar og þegar hún ýtti naglaböndunum upp án þess að mýkja þau var það vont. Á einni nöglinni kom, æi, hjá mér. Nú átti ég að þvo hendur, stúlkan sagði ,,þvo og benti mér á vask hjá afgreiðslunni. Ég hlýddi og þegar ég snéri til baka var hún í símanum, skoða hvað hefði gerst í hinni víðu veröld!
Stúlkan tók upp brúsa las utan á hann og setti á aðra höndina og nuddaði. Þegar kom að hinni höndinni tók hún kremtúbu, las utan á hana og setti á hina höndina. Sitt hvort efnið á sitt hvor höndina. Þá var mig farið að gruna að hér væri ekki um sérfræðing að ræða heldur ófaglærðan einstakling. Þessu lauk svo með orðunum, komdu! Fékk indælan kaffibolla á meðan ég beið eftir að lakkið þornaði.
Fótsnyrting í köldum sal
Passa neglur voru orðin sem stúlkan sagði þegar við komum inn í salinn. Ég var klár á því, nýlökkuð. En þarna stóð ég eins og illa gerður hlutur, átti að passa neglur en var í skóm og sokkum á leið í fótabað. Nú voru góð ráð dýr. Nota öllu jöfnu ekki naglalakk svo ég var í stökustu vandræðum hvernig beita á fingrum í svona aðstæðum. Var lengi að koma mér úr skóm og sokkum. Að sjálfsögðu tókst mér að rífa smá lakk upp af einum fingri. Þegar ég var um það bil að klára, að taka seinni sokkinn af, kom stúlkan mér til hjálpar. Meðan ég brasaði þetta fór hún fram á meðan ég meðan. Gef mér að hún hafi þurft að fylgjast með heimsmálunum því síminn var í annarri höndinni þegar hún kom.
Stólinn beið mín og nú þurfti ég að brjóta upp á buxnaskálmarnar svo þær færu ekki í vatnið. Sami vandi með nýlakkaðar neglur. Tókst þetta án teljandi vandræða. Þegar setið er í svona dekri myndast biðtími. Bíða, er sagt við mig. Í eitt skiptið sem ég átti að bíða tók stúlkan upp símann áður en hún lét sig hverfa og var horfin ofan í skjáinn.
Í salnum fór að kólna. Stúlkan sá að mér var kalt og spurði ,,úlpa og skildi ég svo að ég ætti að sitja í úlpunni í dekrinu. Nei mér fannst það óviðeigandi. Ákvað að harka af mér. Allt gekk þetta áfallalaust fyrir sig þó handbragðið hafi ekki verið eins og hjá fagfólki. Þegar þessu öllu lauk sagði stúlkan ,,búið. Þá vantaði um 25 mínútur upp á meðferðartímann.
Þá var að koma sér í sokka og skó, sem tókst með ágætum, ekki frekari skemmdir á lakkinu.
Enginn í afgreiðslu þegar ég fór
Venja er á snyrtistofum að í afgreiðslunni sé fólk sem fylgir viðskiptavinum úr hlaði. Spyr gjarnan hvort viðskiptavinurinn sé sáttur. Þakka fyrir komuna. Bjóða hann velkominn að nýju o.s.frv. eins og góðum þjónustuaðila sæmir. Því var ekki að heilsa á 101 Spa á Nýbýlavegi. Á bak við tjald mátti heyra tvær stúlkur á tali. Ég hunskaðist út.
Ég leitaði mér upplýsinga um hvað lúxushandsnyrting inniheldur og varð ljóst að ég fékk ekki það sem auglýst og keypt var. Fyrir utan hvað húsnæðið og þjónustan var fráhrindandi.
Ferð á snyrtistofu kostar sitt, hér er ekki um ódýra þjónustu að ræða. Sama með þessa ferð. Kvartaði á netfangi stofunnar. Sett var ofan í við mig á bjagaðri íslensku. Eftir tvo pósta, frá forsvarsmönnum 101 Spa, var ég spurð hvaða tillögu ég væri með. Ég vildi endurgreiðslu enda ekki fagaðili sem veitti þjónustuna og hún var ekki samkvæmt lýsingu á Hópkaup og væntingum. Tek fram að ég hef farið í svona meðhöndlun og vissi nokkurn veginn hvers var að vænta. Endurgreiðsla kom í byrjun janúar, sem er vel.
Þar sem gjafabréfið var keypt á Hópkaup hafði ég samband við þá. Þeir brugðust vel við og afsökuðu að þjónusta í gegnum þá uppfyllti ekki kröfur. Óskuðu eftir að heyra frekar um málið, varð við því.
Faglærður snyrtifræðingur
Lögin eru skýr. Til að veita svona meðferðir, eins og ég hef fjallað um, þarftu að vera löggiltur iðnaðarmaður. Í þessu tilfelli snyrtifræðingur. Ég spurði forsvarsmann stofunnar hvort stúlkan sem þjónustaði mig væri snyrtifræðingur- því hefur enn ekki verið svarað. Þegar snyrtistofa notar ófaglært fólk er það ólöglegt. Ráða á fólk með réttindin, varan er seld eins og fólk með réttindi veiti hana. Ekki hagnast neytandinn, sama verð fyrir þjónustuna. Hvet þá sem eiga gjafabréf á þjónustu 101 Spa að fara fram á faglærðan einstakling til að sinna meðferðinni.
Eru landsmenn sáttir við slíka þjónustu, spyr sá sem ekki veit? Hvet þá sem nota þjónustu snyrti- og nuddstofa að kanna hvort þjónustuaðilinn sé menntaður til verksins. Góð regla væri að hengja upp leyfisbréf þeirra sem starfa á stofunni, þannig getur viðskiptavinur séð og gengið út frá að starfsmenn hafi viðhlítandi menntun. Eða koma upplýsingunum á framfæri á heimasíðu.
Á meðan landsmenn skera ekki upp herör gegn ólöglegri starfssemi þrífst hún. Enginn getur breytt slöku siðferði eigenda gagnvart neytendum nema neytendur sjálfir.
Símanotkun starfsmanna í vinnutíma
Hér er málefni sem kallar á önnur skrif. Hrein hörmung að starfsmenn, sér í lagi í þjónustugeiranum, vogi sér að vera með síma sér við hlið í vinnunni og jafnvel í honum á vinnutíma. Hef orðið vör við þetta á öldrunarstofnuninni sem faðir minn býr á. Þar veigra starfsmenn sér ekki að vera með síma í tíma og ótíma. Kalla það stjórnendavanda að geta ekki bannað síma á vinnutíma. Flestir ef ekki allir vinnustaðir hafa síma þar sem hægt er að ná í starfsmann komi eitthvað upp á.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.