18.1.2021 | 18:13
Víða gætir kúgunar á konum. Þetta er greinileg æxlunaráreitni gegn þeim.
Kynjamyndir í skólastarfi 5: Skóli, kvenlægni og feðraveldi
Árið 2005 sameinuðust helstu kvenfrelsunarfræðingar æðri menntastofnana á Íslandi, þ.e. Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, í því sameinaða átaki að skrifa bók um kvenfrelsun og menntun. Um er að ræða ritgerðasafn.
Ritstjórar segja: Bókin Kynjamyndir í skólastarfi er ætluð nemendum og kennurum á ýmsum skólastigum en ætti að nýtast öllum þeim sem áhuga hafa á efninu.
Það er von höfunda að bókin verði skólafólki og öðrum sem áhuga hafa á jafnréttismálum til gagns. Vonandi verður hún jafnframt lóð á vogarskálar jafnréttis í íslensku samfélagi.
Hér verður fjallað um ritgerðirnar: Þau kunna mannganginn, eftir Sólveigu Karvelsdóttur, Kynjamunur á starfsáhuga raunverulegur eða skekkja í áhugakönnunum, eftir Sif Einarsdóttur, Fagþróun leikskólakennara, eftir Örnu H. Jónsdóttur og Er grunnskólinn kvenlæg stofnun, eftir Berglindi Rós Magnúsdóttur.
Órökstuddar fullyrðingar og véfréttir eru algengar í ritum kvenfrelsaranna. T.d. fullyrðir Sólveig: Í mörgum menningarsamfélögum, svo sem þeim vestrænu þar sem körlum er gert hærra undir höfði, er meiri þrýstingur á drengi en stúlkur að hegða sér samkvæmt sínu kyni.
Sif: Í kynjuðu samfélagi er mikilvægt að kynjafræðingar og jafnréttissinnar haldi áfram að opna augu fólks fyrir ólíkum áhrifum kyns á líf karla og kvenna.
Hér hljóma enn kunnugleg stef um undirskipun kvenna og nauðsyn þess, að kennarar og nemendur meðtaki kvenfrelsunarboðskapinn, því rétta vitund vanti og ljúka þurfi upp augum þeirra fyrir sannleikanum. Sólveig virðist gera ráð fyrir, að kyn séu til, öndvert við marga fræðimenn af hennar sauðahúsi.
Arna er við svipað heygarðshorn. Hún hefur eftir Þorgerði Einarsdóttur (sem virðist vera eins konar kvenfrelsunarforingi í HÍ), að brotið hafi verið í blað árið 1992 þegar breski félagsfræðingurinn Anne Witz [1952-2006] gerði metnaðarfulla tilraun í bók sinni Professions and Patriarchy [Sérmenntunarstéttirnar og feðraveldið] til að nálgast kynjavíddina á heildstæðan hátt
setur fagþróun í samhengi við víðtæk samfélagsleg yfirráð karla og undirskipan kvenna og að kynferði gerenda hafi áhrifa á fagþróun, baráttuaðferðir og árangur. (Bókina er ekki að finna í heimildaskrá.)
Berglind Rós: Grunnskólanám hefur lengst af undirbúið börn fyrst og fremst undir hið opinbera líf og það litla sem tilheyrði einkalífi og kvenlægum menningararfi virðist ekki hafa mikinn virðingarsess eða vægi, hvorki nú á dögum né áður fyrr.
Allt fram til 1911 voru skólar á Íslandi, fyrir utan hefðbundna kvennaskóla (eftir 1870) og héraðsskóla (uppúr 1905), lokaðir stúlkum og hlutverk kvennaskóla var ekki að efla þær á opinberum vettvangi
. Það er ekki fyrr en 1911 sem konur fá jafnan rétt til náms og styrkja og opinberra embætta. Barnafræðslan sem fram fór á heimilum allt þar til fræðslulögin 1907 voru samþykkt var skylda fyrir bæði kyn
Barnafræðslan var þó grunnur að skólagöngu í skólum sem eingöngu voru opnir drengjum. Þetta er afar sérstæð sýn á sögu skóla og menntunar. Var barnafræðslan síður til þess fallin, að undirbúa stúlkur fyrir framhaldsnám í húsmæðraskólum, kvennaskólanum og síðar lærða skólanum - en drengi í lærða skólanum (menntaskólanum)?
Stofnun kvennaskóla og húsmæðraskóla var sérstakt baráttumál kvenréttindahreyfinga svokallaðra. Kvenfrelsarar töldu rétt að mennta mæður í ljósi þeirrar opinberunar, að illa menntuð móðir væri slæm móðir. Körlum var meinaður aðgangur í þessa kvenlægu skóla, meðan stúlkur voru boðnar velkomnar í embættismannaskólana (sem fáar þáðu reyndar framan af).
Menntun var á Íslandi eins og annars staðar í Evrópu talin góð leið efnuðum sonum broddborgara inn í embættismannastjórn drottninga og konunga, enda var hún að miklu leyti sniðin eftir því hlutverki og tók mið af hefðbundinni hlutverkaskiptingu kynjanna, rétt eins og stofnun húsmæðraskóla.
En löngu áður en embættisháskólarnir voru opnaðir konum, þ.e. á miðöldum, sáu feður, bræður og unnendur af karlkyni til þess, að áhugasamar konur (betri stétta venjulega) fengju bóklega, æðri menntun. Slík viðleitni varð banamein franska heimspekingsins og stærðfræðingsins, René Decartes (1596-1650), sem gerði það fyrir atbeina Kristínar drottningar að koma til Stokkhólms og kenna sér. Kuldinn dró hann líklega til dauða. En þessi snillingur hafði þá náð að leiðbeina fleiri konum um refilstigu heimspeki og stærðfræði.
Ingunn Arnórsdóttir, latínusnillingur á Hólum á tólftu öld, naut að vísu aldrei leiðsagnar René Decartes, heldur Jóns Ögmundssonar (1052-1121), biskups: Í sögu hans greinir svo frá: Þar var og í fræðinæmi hreinferðug jungfrú, er Ingunn hét. Öngum þessum var hún lægri í sögðum bóklistum, kenndi hún mörgum grammaticam og fræddi hvern er nema vildi; urðu því margir vel menntir undir hennar hendi. Hún rétti mjög latínubækur, svo að hún lét lesa fyrir sér, en hún sjálf saumaði, tefldi, eða vann aðrar hannyrðir með heilagra manna sögum, kynnandi mönnum guðs dýrð eigi aðeins með orðum munnnáms, heldr og með verkum handanna. Ingunn var snillingur til huga og handar, heimildarmaður fræðimanna, milli þess, að hún sett þá skák-mát við taflborðið. Þessi stórkostlega kona hefur um aldir verið í heiðrum höfð (nema helst af kvenpíslarvættisfræðingum eins og Berglindi Rós). (Aðferð Ingunnar minnir óneitanlega á bandprjónsaðferðina svokölluðu; þ.e. mömmur og ömmur, sem kenndu lestur börnum og barnabörnum (líka hnátunum), meðan þær sátu við prjónaskap. Þeim féll ekki verk úr hendi.)
Enn mætti lengi segja frá menntuðum kvensnillingum innan og utan háskólanna, t.d. bréfaháskólana, prófessorsdætrunum í Göttingen, menntunarstofunum og blásokkuskólanum. En það yrði of langt mál. Og enn er líka ótalinn sá nunnuskari, sem menntaðist við klausturskólana. Sumar nunnanna urðu merkir fræðimenn, rithöfundar og kennarar. Menntunarpíslarsaga kvenna er því stórlega orðum aukin.
Alvarlegasta málsgreinin er eftirfarandi: Í nær öllum íslenskum kennslubókum um frjóvgunarferlið er ekki minnst á virkni eggsins en mikið gert úr atgangi og krafti sáðfrumunnar, í takt við þá staðalmynd að karlar séu árásargjarnir og kröftugir, hetjur sem bjargi prinsessunni (óvirka egginu) úr álögum. Víða gætir kúgunar á konum. Þetta er greinileg æxlunaráreitni gegn þeim. Vonandi bendir starfshópur Lilju ráðherra á þessa ósvinnu og lætur semja kvenvænni lýsingu á frjóvguninni.
Svo þyrfti endilega að rétta hlut útivinnandi mæðra úr rannsókn Gyðu Margrétar Pétursdóttur, svo þær geti t.d. gerst kennarar: Þar voru konur sem upplifðu sig sem fórnarlömb sem ættu engra annarra kosta völ en að fórna sér fyrir börn, eiginmann og heimili á meðan eiginmenn væru meginfyrirvinnur.
Arnar Sverrisson skrifaði pistilinn á snjáldursíðu sína 18. janúar 2021.