11.1.2021 | 18:57
Harm- og píslarsaga kvenna er því mjög orðum aukinn hjá Steinunni Helgu
Kynjamyndir í skólastarfi 2: Femínismi og kvennahreyfingar.»
Árið 2005 sameinuðust helstu kvenfrelsunarfræðingar æðri menntastofnana á Íslandi, þ.e. Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, í því sameinaða átaki að skrifa bók um kvenfrelsun og menntun. Um er að ræða ritgerðasafn.
Ritstjórar segja: Bókin Kynjamyndir í skólastarfi er ætluð nemendum og kennurum á ýmsum skólastigum en ætti að nýtast öllum þeim sem áhuga hafa á efninu.
Það er von höfunda að bókin verði skólafólki og öðrum sem áhuga hafa á jafnréttismálum til gagns. Vonandi verður hún jafnframt lóð á vogarskálar jafnréttis í íslensku samfélagi.
Hér verður fjallað um ritgerðina Femínismi og kvennahreyfingar, eftir Steinunni Helgu Lárusdóttur. Höfundur velur að lýsa þróun kvenfrelsunar sem bylgjuhreyfingum sögunnar svipað og þýski spekingurinn, George Wilhelm Friedrich Hegel (1770-1831), sögu mannasandans og landi hans, lögfræðingurinn Karl Heinrich Marx (1818-1883) um sögu mannkyns. Steinunni Helgu láist þó að setja kvenfrelsun i sögulegt samhengi.
Baráttan fyrir borgararéttindum fékk byr undir báða vængi í frönsku byltingunni, sem upphófst árið 1789. Kosningaréttur til lýðræðislegs þings var vitaskuld eitt af mikilvægustu baráttumálunum. Síðar bættist við sjálfstæði kvenna gagnvart lögum, en á þessu árum gátu konur skýlt sér á bak við eiginkarla sína. Karlar börðust ekki síður fyrir þessum réttindum en konur. Kvenfrelsarar háðu reyndar einungis hildi fyrir kosningarétti hvítum konum til handa. Sú baráttan var yfirleitt stutt, tveir til fjórir áratugir.
Svo segir Steinunn: Þrátt fyrir ólíkar áherslur virðist ríkja samstaða um nokkra sameiginlega grundvallarþætti í allri femínískri hugmyndafræði, svo sem að ríkja skuli pólitískur, efnahagslegur og félagslegur jöfnuður kynjanna. Í hugmyndafræði flestra femínista eru einnig ákveðin lykilhugtök, eins og kvennakúgun og karlveldi
Loks eru flestir talsmenn þessara kenninga sammála um að kynferði (e. gender) einstaklinga sé afurð félagslegrar mótunar fremur en meðfætt og eðlislægt
, eða eins og Simone de Beauvoir [franskur heimspekingur 1908-1986] sagði og frægt er orðið þá fæðist engin kona heldur verður það.
Hér ýjar höfundur að mótsagnakenndum baráttumálum, sem ævinlega hafa einkennt kvenfrelsunarhreyfinguna. T.d. eðli kynjanna, sérstaklega móður- og kveneðli, réttur kvenna til ráða lífi sínu, réttur kvenna til atvinnustarfsemi, t.d. kynlífsþjónustu og kláms, barátta fyrir getnaðarvarnarpillu fyrir konur, en gegn sams konar pillum fyrir karla (sumar hafa þó í orði kveðnu verið hlynntar henni). Það er broslegt, en rétt, að hreyfingin segist berjast fyrir jafnrétti karla jafnvel þótt hún vilji fækka þeim eða steypa í kvenmynd - samtímis því, að hún beitir alls konar bolabrögðum til að ota sínum tota sem víðast, afla nýrra forréttinda í löggjöf og samfélagi, og höfðar óspart til eðlislægra tilhneiginga karla til að hlúa og hlynna að konum sínum og börnum.
Jafnréttisbarátta kvenna á sér margra alda sögu en hún er ekki samfelld og mikill hluti kvenna hefur án efa aldrei verið skráður fremur en saga kvenna yfirleitt.
strax á 14. öld hafi franska baráttu konan Christine de Pisan [1364-1430?] verið orðin áberandi talsmaður aukinna réttinda kvenna og hennar barátta hafi smám saman haft áhrif víðar í Evrópu.
Höfundur leggur hér að jöfnu sögu kvenna og kvenfrelsun. Það er stórmerkileg söguskoðun og fjarri öllu lagi. Karlar hafa skráð sögu kvenna frá því, að ritöld hófst og miklu fyrr á ýmis konar minnismerkjum. Kvenfrelsarar reyna eftir megni að teygja sögu hreyfingar sinnar og píslarvættis kvenna aftur um aldur. Það er svonefndur kvenfrelsunaraðdragandi. Hin ítalsk/franska Christine Pizan er nefnd til sögu, en hún skrifaði bókina um borgríki kvenna, sem reyndar er að miklu leyti tekin upp úr kvennasögu ítalska sagnfræðingsins, Giovanni Boccaccio (1313-1372). Hann var einn hinna fyrstu, sem gerði garð kvenna frægan í sagnritun af ýmsu tagi. Ritun sagna af merkiskonum var raunar bókmenntagrein á miðöldum Evrópu.
Lesanda er bent á aðra merkiskonu, Mary Wollstonecraft (1759-1797). Hún er sögð bandarísk. Ekkert er fjarri lagi. Sú gáfaða kona var ensk að þjóðerni úr lægri millistétt. Hún skrifaði bókina, Til varnar réttindum kvenna. Kvenfrelsunarsagnritarar gleyma því iðulega, að María skrifaði einnig bók til varnar réttindum karla.
Harm- og píslarsaga kvenna er því mjög orðum aukinn hjá Steinunni Helgu, sem telur röksemdalaust, að Christine hafa haft mikil áhrif á kvenfrelsun. Ég veit ekki betur, að hún hafi verið dregin fram eins og hver annar sótraftur á síðustu öld úthallanda, þegar gerð var sérstök leit að konum, sem sagan hefði gleymt. Sannleikurinn er hins vegar sá, að kóngur Frakka skynjaði, hvað í konuna var spunnið sem og margir karlar fleiri og hélt henni uppi, ekkjunni.
Allt framundir 1850 voru íslenskar konur nánast réttlausar miðað við karla, höfðu ekki aðgang að menntun, embættum og fjármunum og voru án kosningaréttar og kjörgengis, staðhæfir höfundur. Það tæki mörg orð og mikið pláss að eltast við þessa endemis vitleysu. Læt hér nægja að nefna, að enginn kaus á Íslandi fyrir 1850, íslenskar konur bæði fyrir og eftir kristnitöku höfðu óskorað húsfreyjuvald. Fram eftir Íslandsöldum var heimanmundur greiddur (meðal betri stétta) eins konar fyrirframgreiddur arfur sem var óskoruð eign hlutaðeigandi konu. Hefndarskylda karla náði einnig til eiginkvenna, frilla, systra, mæðra og frænkna.
Haft er eftir Helgu Kress, sem lesið hefur Íslendingasögurnar til hlítar: Kvennamenning er ósýnileg og einskis metin. Samt er það hún sem heldur körlunum og þjóðfélaginu gangandi. Þannig má segja að karlamenningin nærist á kvennamenningunni og geti ekki án hennar verið. Önnur skringileg söguskoðun. Þessi merki kvenfrelsunarfræðingur áttaði sig líka á því, að konur sagnanna beittu körlum fyrir sig til ýmissa verka og ódæða, m.a. hefnda.
Postmodernistar [heimspekingar og (einkum franskir] félagsfræðimenn, sem skrifað hafa á seinni tímum] halda því fram að tilraunir nútíma vísindamanna til þess að leggja fram lögmæta (e. legitimate) þekkingu sé á villigötum og hafna því að rökrænar, vísindalegar rannsóknaraðferðir dugi til þess að öðlast þekkingu á raunveruleikanum. Þetta þýðir með öðrum orðum að aðferðirnar gagnist ekki við að ná beinu sambandi milli þekkingar, reynslu okkar og raunveruleikans.
Svo er vitnað til Þorgerðar Einarsdóttur, forsprakka kvenfrelsaranna í HÍ: Þessi afstaða skiptir miklu máli í femínískri umræðu vegna þess að femínistar hafa haldið því fram að sjónarmið kvenna væru nauðsynleg vísindunum svo að þau mættu greina satt og rétt frá heiminum og tilverunni.
Sjálfur dregur höfundar þá ályktun, að [m]ikilvægt
[sé] að nýta þá fræðilegu þekkingu sem femínistar hafa aflað um stöðu kvenna og annarra minnihlutahópa í þágu jafnréttisstarfs á Íslandi sem erlendis."
Hér er lifandi kominn reynsluheimur kvenna, skemmtilegt vígorð rauðsokkanna. Reynsla einstakrar konu er nú orðin viðmiðun alls, grunnsteinn nýrra kvenfrelsunarvísinda og réttarkerfis. Til andsvars leyfi ég mér að benda áhugasömum á greinar á arnarsverrisson.is sérstaklega: Vísindi í voða, og Hin nýju vísindi vífanna.
Það verður fróðlegt að sjá, hvort kvennahópurinn (og strákarnir tveir), sem Lilja skipaði á síðasta ári til að benda á leiðir til kennslu kynjafræði í skólum, velji þessa ritgerð til að mennta kennara og nemendur.
Arnar Sverrisson skrifaði þennan pistil og birti á snjáldursíðu sinni 11. janúar 2021