Er eitthvað í karmenn spunnið?

Kynin og kvenfrelsun samkvæmt Roy Baumeister
Norður-ameríski sálfræðingurinn, Roy F. Baumeister (f. 1953), er menntaður við stjörnuháskólana Princton og Duke. Hann kenndi lengi við Florida State University, en fluttist síðar vestur um haf til Ástralíu. Hann er nú prófessor við háskólann í Queensland. Félags- og þróunarsálfræði (evolutionary psychology) hafa einkum verið viðfangsefni hans. Roy er virtur fræðimaður, sem hefur gefið út margar fræðibækur. Hér er lítillega fjallað um eina þeirra, sem kom út fyrir réttum áratugi síðan.
„Er eitthvað í karlmenn spunnið? Hvernig menningin þrífst á misnotkun karla“ (Is there anything good about men? How culture flourish by exploiting men).
Í formála bókarinnar getur höfundur þess, að honum hafi verið ráðið frá því að birta hana. En góðu heilli varð svo ekki. Hér verða kynntar nokkrar glefsur um kyn og kvenfrelsun lysthafendum til fróðleiks. (Blaðsíðutölur í sviga.)
„[R]áðandi kenningar um kynin hafa komið úr ranni glórulausra kvenfrelsara, sem gerðu sér líf karla í hugarlund af eigin fórnarlambssjónarhóli.“ (201)
„Föðurveldið – það hugarfóstur, að menning sé samsæri karla til að kúga konur – er haldbesta skýringin, þegar karl skýtur konu ref fyrir rass.“ (31)
Það er almannarómur orðinn, að útskýra ójafnrétti kynjanna á grundvelli þeirrar hugmyndar, „að karlar hafi tekið sig saman til að misnota og kúga konur. Einhvern tíma í fyrndinni, þegar ímyndað kynjajafnrétti átti að hafa ríkt, spunnu karlar samsæri til að hrifsa til sín völdin og undiroka konur. Kjarni málsins er sá, að hvergi er til að dreifa vísbendingum um slíkt samsæri eða þáttaskil í sögunni. … Tilurð menningar á vettvangi karla var meginorsök kynjamisréttis.“ … “Ójöfn umbun er forsenda menningarframfara. Menning, sem ekki beitir umbun með þessum hætti, stendur í stað.“
„Vissulega er það svo, að ójafnrétti sé hvorki gott né hagstætt í sjálfu sér. Fremur ber að líta svo á, að ójafnrétti sé til þess fallið að örva sköpunarmátt, uppgötvun, samkeppni og annað það, sem horfir til framfara og ávinnings.“ … „Alla jafnan verður ávinningur menningarinnar mestur, þegar hæfileikaríkustu karlarnir róa ástríðuþrungið að því öllum árum að auðga hana.“
„Þrá karla til að klífa tinda í hæstu hæðum á sér trúlega rætur í djúpt í iðrum sálarinnar. Þökk sé úrvali þróunarinnar.“ … Ástæða þess, að karlar rembast eins og rjúpan við staurinn „er að finna í eðlislægri samkeppni um að skara fram úr, því í fyrndinni voru það einungis þeir karlar, sem fengu á broddinn – og karlar eru sjúkir í kynlíf.“ … „Karlar vinna þrekvirki öðrum þræði í ljósi tálvonarinnar um gnægð kynlífs.“ (136, 139, 185, 186,201,204, 210)
„Karlar öðluðust yfirburðastöðu vegna þess, að auður, þekking og vald, skapaðist á vettvangi karla. Fylkingar á vettvangi karla ruddu smám saman leiðina (oft og tíðum við miklar þjáningar) til framfara á fjölmörgum sviðum. Karlar sköpuðu listir og bókmenntir, trúarbrögð, heimspeki, vísindi, her, viðskipti … tækni, stjórnmálakerfi og stjórnarfar og þar fram eftir götunum. Almennt séð þrífast slík fyrirbæri í stærri hópum, þar sem félagsleg tenging er veikburða. Þau eru ekki starfrækt þannig, að náin tengsl milli tveggja skipti máli að nokkru ráði. …Það var við mótun umsvifamikilla félagsstofnana, að munur milli karla og kvenna varð umtalsverður og áhrifamikill.“ … En „[f]lest menningarsamfélög veraldar hafa reitt sig á karla [þegar láta þarf] blóði og [útvega] fé.“… „Áhættusækni og fórnarlund eru snarir þættir í karlmennskunni.“ (139, 140, 182, 183)
„Jafnréttisbyltingin:“ Kvenfrelsararnir „kröfðust þess, að þeir félagslegu innviðir, sem karlar höfðu skapað, yrðu lagfærðir til að henta konum betur. Konur kröfðust kvennakvóta og hlunninda (affirmative action), sérstakra [kvenna]miðstöðva og stuðningshópa, ásamt breyttum leikreglum, sniðnar að þeirra þörfum. Þessar kröfur glymja enn þann dag í dag og það bendir allt til, að svo verði um alla framtíð, þar sem konur gera kröfur um að settar verði á stofn sérstakar eftirlitsstofnanir, skrifstofur og rými, svo sinna megi sérlegum þörfum þeirra, tilfinningum og heimtingum. Konur hafa fært sér í nyt eðlislæga ást karla á konum og verndarþörf og [þannig] misnotað umhyggju karla og talið þeim trú um að snúa upp og niður á hlutunum í þágu kvenna.“
Í kvennafræðunum virðist alltaf mega finna kúgun kvenna: Það er kúgun, þegar elskendur haldast í hendur, því hann er að jafnaðri stærri heldur en hún. Og það veldur henni óþægindum. (152)
Það er kúgun, að karlar láti þvagi standandi. Því er það jafnréttismál að fjarlægja hlandskálar. (153)
„Kúgunarhugmyndina er ókleift að leggja mat á, nema með opnum huga og aga við gagnagreiningu. Það snúast góð vísindi um.“ (154)
 
 
Arnar Sverrisson skrifaði pistilinn og birti á snjáldursíðu sinni 3. des.
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband