28.11.2020 | 17:57
Lög á verkfall flugvirkja
Ég er ekki hlynnt lagasetningu á verkföll. Samt geri ég undanþágu á skoðun minni. Þegar líf og limir eru undir. Ég geri líka undanþágu þegar endurtekið verkfall er hjá ákveðnum stéttum. Þær stéttir sem nota verkfall sem samningstæki, stöðu sinnar vegna, ekki neyðarúrræði hafa ekki samúð mína. Mér þykir skömm að þeim þingmönnum sem gera verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni að pólitísku þrætuepli. Píratar eru þar í sér flokki að mínu mati.
Í viðtali við forstöðumann gæslunnar kom fram að almenningur þyrfti að reiða sig á lögreglu og björgunarsveitir landsins á meðan verkfall varir. Já ég heyrði rétt björgunarsveitir landsins sem vinna sjálfboðið starf. Á meðan þokkalega vel launuð stétt hamlar björgun mannslífa á almenningur að reiða sig á sjálfboðið starf björgunarsveita. Mér þykir heldur langt gengið þegar svo er komið. Hafi flugvirkjar léleg laun, sjálfsagt að semja um betri kjör. Samkvæmt upplýsingum frá Gæslunni virðast flugvirkjar ekki hanga á horreiminni. Þeir höfnuðu samningi til eins árs sem gaf þeim sama og öðrum launamönnum. Grunnlaun þeirra eru ekki af verri endanum og heildarlaun, með bakvaktarálagi, álagi og útköllum, mjög góð.
Flugvirkjar sem starfa við öryggisgæslu eiga ekki að hafa verkfallsrétt frekar en aðrir sem sinna slíkum störfum. Sýnir sig nú.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.