4.10.2020 | 14:16
Óþol kennara- vilja láta loka skólum
Óþol er farið að gæta innan kennarastéttarinnar vegna aukinna smita í samfélaginu. Telja sér fórnað fyrir samfélagið. Margir vilja láta loka skólunum. Hve lengi hefur hvergi komið fram. Hver á að borga slíka lokun, kemur heldur ekki fram? Efast um að sveitarfélögin standa straum af slíkri lokun í langan tíma. Kannski þarf að grípa til orlofsréttinda! Grein um málið má lesa á vísi.is
Við höfum heyrt af skólum sem loka vegna smitsóttkvíar og í langflestum tilfellum vegna starfsmanns. Oftar en ekki í skamman tíma, innan við viku. Sóttvarnayfirvöld hafa lengi sagt að minna sé um að börn smiti fullorðna. Gott og vel.
Loki skólar skapast mikill vandi í samfélaginu. Ég sá frétt um daginn þar sem móðir ákvað að vera með börnum sínum í smitrakningarsóttkví. Sá einstaklingur er krabbameinslæknir, einn af fáum, sem þýðir að á meðan hún er í sóttkví með börnunum sinnir hún ekki krabbameinssjúkum sjúklingum. Krabbameinssjúklingar settir í biðstöðu.
Sé foreldrið starfsmaður á öldrunarheimili mætir viðkomandi ekki til starfa til að sinna gamla fólkinu. Ímyndið ykkur ef 5 starfsmenn á einni deild séu sóttkví vegna lokunar skóla í langan tíma. Get ímyndað mér ástandið.
Heimilislæknar eiga líka börn, loki skóli þar sem enginn smit hafa greinst þarf að vera heima. Sjúklingarnir bíða o.s.frv. Síðan verður lýðurinn brjálaður yfir því að ná ekki á lækni. Munar um hvern þann sem dettur út.
Sálfræðingar eru sem betur fer ekki barnlausir, þeir þyrftu að aflýsa mörgum viðtölum við fólk sem er jafnvel illa haldið af sálsýki vegna lokunar leik- eða grunnskóla. Myndi ekki hjálpa nokkrum, nema kannski róa nokkra kennara.
Afgreiðslufólkið í búðum eiga líka börn og loki skólar komast þau ekki til vinnu. Starfsfólkið sem eftir er þarf að leggja á sig mikla vinnu til að allt gangi upp. Öll vitum við að vanti 2 af 6 eða 1 af þremur eykst álag á þá sem fyrir er.
Sjúkraliðar í heimahjúkrun eiga börn. Loki skólar verða þeir að vera heima með barni sínu. Hvaða afleiðingar hefur það, annað tveggja að skjólstæðingar fá minni þjónustu, jafnvel enga eða álag eykst á hina sjúkraliðana með skertri þjónustu til allra.
Skil mjög vel þau rök að loka ekki leik- og grunnskólum. Komi upp smit þá þarf auðvitað að loka en þá er það í skemmri tíma. Séu foreldrar tveir má skipta verunni heima, sumir eru heppnir að geta unnið að heiman en hjá mörgum stéttum er það ekki hægt.
Fer ekki í grafgötur með mína skoðun. Skólar eiga að vera opnir eins lengi og kostur er. Sem kennari passa ég mig utan skólans, fer ekki á staði þar sem fjölmenni er. Ég fer í búð þegar fáir eru og þannig sníð ég mér stakk eftir vexti. Ekkert óþarfa búðarráð! Mæti með andlitsmaska þar sem þarf o.s.frv. Held að þetta sé eina ráðið, hver og einn verður að passa sig.
Ég er líka þeirrar skoðunar að hafi kennari undirliggjandi sjúkdóm, og vera hans í skólanum eykur áhyggjur hans vegna þess og álag, á hann að taka veikindaleyfi í samráði við lækni. Kennarar hafa góðan veikindarétt og sjálfsagt að nýta hann í svona aðstæðum.