31.8.2020 | 14:28
VELKOMNIR TIL STARFA GRUNNSKÓLAKENNARAR
Þá hefst skólaveturinn 2020-2021. Um margt var skólaárið 2019-2020 minnissætt. Ber aðallega að nefna frammistöðu grunnskólakennara og annarra starfsmanna sem lyftu Grettistaki og héldu grunnskólanum gangandi í heimsfaraldri. Þar af leiðandi komust flestir bæjarbúar til vinnu. Starfssemi fyrirtækja og sveitarfélagsins raskaðist ekki eins mikið og ella. Börnin höfðu reglu í lífi sínu, allavega á skólatími. Hverju barni er nauðsynlegt að hafa reglu og einhverju að stefna að. Foreldrar eiga að styðja börn sín í því sem þau taka sér fyrir hendur, líka náminu. Misbrestur varð á því síðasta vetur hjá einhverjum og gjalda þau börn nú þegar nýtt skólaár hefst. Nám á að vera forgangsverkefni nemenda og foreldra þeirra.
Síðasti vetur var ekki án kostnaðar fyrir kennara. Margir kviðu covid- tímabilinu og ekki að ástæðulausu. Skipuleggja þurfti starfið upp að nýju. Álag og streita vegna breytinga og nýrra kennsluhátta létu á sér kræla. Vinnutími kennara varð sveigjanlegur, að skipun bæjaryfirvalda. Breyta þurfti stundaskrám kennara sem þeir gerðu án þess að taka aukaþóknun fyrir. Margir vita ekki að þegar kennari kennir í kennsluhléi sínu vinnur hann yfirvinnu. Engum kennara datt í hug að fara fram á aukagreiðslu, enda um heimsfaraldur að ræða. Allt annað en í venjulegu árferði. Grunnskólakennarar töldu það skyldu sína að leggjast á sveifina með sveitarfélaginu til að halda óbreyttum skólatíma hjá yngstu börnunum og raska sem minnst námi hinna. Nú eygja grunnskólakennara von um að slakað verði á viðverukló stjórnenda og fræðsluyfirvalda. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur rétt litla fingur í átt að sveigjanlegum vinnutíma grunnskólakennara.
Margir kennara telja sig ekki tilbúna að koma til starfa, þó þeir hafi byrjað. Ákveðin uggur er í mörgum þeirra og ekki bara íslenskum kennurum heldur og grunnskólakennurum á Norðurlöndunum. Á fundi sem undirrituð sat, með norrænum vinnuumhverfisnefndum kennara, kom það skýrt fram. Kennarar kvíða komandi vetri á margan hátt. Faraldurinn er ekki á förum og hefur sótt í sig veðrið í ákveðnum löndum. Allt samfélagið er breytt. Auknar kröfur um persónulegt hreinlæti eykur álag, þarf að fylgjast vel með að nemendur þvoi sér um hendur og spritti eftir aðstæðum. Mannafli ekki aukinn þrátt fyrir aukið hreinlæti í kennslurými o.s.frv. Kröfur foreldra breytast með breyttu fyrirkomulagi í skólanum sem eykur álag og streitu. Um þetta voru norrænu samstarfsfélagar okkar sammála.
Kjarasamningur grunnskólakennara er laus og hefur verið í rúmt ár. Reyna á að ljúka kjarasamningagerð fyrir 1. október. Áhöld eru innan stéttarinnar um hversu vel stjórn og samninganefnd hafa staðið sig þegar horft er til kjarasamningagerðar. Ekkert segir að samningur sé í höfn þó markmiðið sé fyrir hendi. Lausir kjarasamningar hafa áhrif á starfsumhverfi grunnskólakennara. Því miður virðist okkur ekki bera gæfa til að semja til lengri tíma sem væri æskilegt. Langtímasamningur myndu hafa jákvæð áhrif inn í stéttina.
Ég óska starfsfólki grunnskólanna alls hins besta á komandi skólaári.
,,Poppmaís er lítið, hart og tormelt, það virðist einskis nýtt. En ef þú setur það í pott og hitar það þá breytist það nær samstundis. Stundum getur mikið álag og erfiðleikar haft sömu áhrif á þig.
Farið vel með ykkur,
Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari og trúnaðarmaður.
Greinin birtist í Vikublaðinu 31. ágúst 2020.