27.7.2020 | 11:10
Húsenglar
Ég var lánsamur, ólst upp við aðstæður, sem löngu eru horfnar. Mamma starfaði heima. Það gerðu reyndar allar mæður mínar í stigaganginum, átta að tölu; það var þvegið, matreitt úr frumhráefni, skinn voru verkuð, gert var að fiski, saumað, bakað og bjástrað að degi og nóttu. Yfrið nóg að sýsla. Mæðurnar skutust í heimsóknir milli anna og fengu sér tíu. Þær svolgruðu í sig heilu kaffifljótunum, þegar því var að skipta og mikið lá við, t.d. þegar rædd var landsins gagn og nauðsynjar og okkar litlu veröld var stýrt að tjaldabaki. Það efaðist enginn um, hver hefði tögl og haldir. Þar var mörg Ásdísin bak við tjöldin: [F]rú Ásdís Þorgrímsdóttir [móðir Önnu Sigurðardóttur, kvenréttindafrömuðar] var hin styrka stoð heimilisins, prúð, hávaðalaus, en þó stjórnsöm. Húsmóðir í beztu merkingu. Húsfreyjuvaldið hefur alltaf verið öðru valdi ofar í raun og sann. Þessar konur eru stundum kallaðar húsenglar.
Húsengillinn var arfur frá nítjándu öldinni, tillíking við hina hreinu mey, Maríu guðsmóður. Svo segir norður-ameríski kvenfrelsarinn, sálfræðingurinn og sállæknirinn, Shari L Thurer (SLT), í bók sinni: Goðsagnir um móðurgjörninginn. Hvernig menningin endurskapar hina góðu móður (The Myths of Motherhood: How Culture Reinvents the Good Mother. Það var ... um miðja nítjándu öldina að Madonna var alfarið endurtamin til að gegna hlutverki móður Viktoríutímabilsins.
Móðurgjörningurinn varð að göfugri köllun. Það dró úr mikilvægi föðurins á heimilinu, en móðurinnar jókst. ... [Þ]að væri einfeldningslegt að trúa því, að móðir á Viktoríutímanum væri algjörlega áhrifalaus. Hún beitti oft og tíðum því afli, sem fólst í ósjálfstæði og sjálfsfórn til að hvetja karl sinn til góðrar hegðunar. Karlinn er ekki alfarið firrtur samvisku. ... Nokkrar konur af hverri kynslóð hafa verið færar um að beita ókostum undirskipunar sinnar sjálfum sér til framdráttar.
Þetta hafði enginn í stigaganginum mínum hugmynd um. Lífið var leikur. Þegar saman safnast var, krakkar léku saman. Það var oft kátt í koti og höllu. Yfirleitt sýndu mæðurnar barnahópnum umhyggju. Það gerðu reyndar feðurnir einnig, þegar svo bar undir, grunlausir um þá kúgun, sem þeir beittu. Þeir voru þó ekki hvunndagsverur. Feðurnir voru úti að vinna dagvinnu, eftirvinnu, yfirvinnu og helgarvinnu. Stöku mæður unnu stundum úti til að drýgja tekjur heimilisins. SLT lýsir stöðunni svo: Á tuttugustu öldinni var fjarvera feðra frá heimili meiri og meiri. Feður voru nú sem óðast að verða óviðkomandi í hvunndagslífi fjölskyldunnar. ... Í augum barnanna varð hann fremur launaumslag, heldur en faðir. Greind börn og langþjáðar eiginkonur skopuðust að honum, notfærðu sér hann og sýndu yfirlætisgóðvild. En ég rek ekki minni til, að nokkur hafi orðið var við kúgun mæðranna, fyrr en þær birtust, konur á rauðu sokkunum.
Ég hafði brennandi áhuga á þessum rauðu sokkum og mannlífinu. Þegar ég svo komst til vits og ára las ég mér til. Mér til nokkurrar undrunar uppgötvaði ég, að mæðurnar mínar átta sættu umfangsmikilli kúgun og að kúgararnir væru sem sé pabbarnir og við, strákarnir, þ.e. karlkynið. Samviskubitið hefur nagað mig síðan. Hafði ég verið vondur við mæður mínar, ömmur, systur, frænkur, bekkjarsystur og vinkonur?
Ég fór að lesa mig til. Og viti menn! Þennan boðskap fluttu margar klókar konur; Simone de Beauvoir (1908-1986), Elizabeth Gould Davis (EGD) (1910-1974), Shulamith Firestone (1945-2012), Marilyn French (1929-2009), Katherine Murray Millet (1934-2017), Germaine Greer (f. 1939) og Betty Friedan (1921-2006), svo nokkrar séu nefndar til sögu.
Við, strákarnir, dáðum mæður okkar og hefðum vaðið fyrir þær eld og reyk eins og óskrifuð lög frá fornu fari gera ráð fyrir. Við hefðum vafalítið tekið undir með SB, þegar hún sagði: Móðirin er rótin, er greinist djúpt í iðrum alheimsins. [Hún getur] sogað upp safana; hún er uppsprettan. Þaðan gýs hið lifandi vatn, sem einnig er næringarrík mjólk.
Það olli okkur heldur meiri umhugsun, að við værum síðri mannverur, heldur en mæður og systur. Því hélt EGD fram í bók sinni: Úrvalskyninu (The First Sex). Hún sagði m.a. Æxlunarfæri konunnar eru miklu eldri og þróaðri, heldur en [æxlunarfæri] karlsins. ... Sönnun þess, að reðurinn varð til miklu síðar í þróunarsögunni, heldur en sköp kvenna, er rakinn til ummerkja þess efnis, að karlinn sjálfur sé síðkomin stökkbreyting frá hinni upphaflegu kvenveru. Því karlinn er bara ófullkomin kona. ... Fyrstu karlarnir voru stökkbrigði, viðrini, sem urðu til við tjón á erfðavísum. [Þau] orsökuðust hugsanlega vegna sjúkdóms eða heiftarlegrar geislunar frá sólinni. Viðrinin hafa fjölgað sér skart.
EGD sagði, að andlegt líf okkar, karla, ætti meira eða minna rætur í öfund og miðaði að því að kúga konur: Í menningarsamfélögum samtímans ... tekur snípöfund og skautafbrýði á sig óræðar myndir. Óseðjandi þörf karlsins til að til að smána konuna, auðmýkja hana, meina henni um jafnrétti og gera lítið úr afrekum hennar eru tilbrigði við meðfædda afbrýði og ótta hans [gagnvart konunni].
Hins vegar voru hugmyndir hennar um kvenveldið ekki eins framandi: Hugmyndin um kvenvaldið hefur rækilega skotið rótum í mannlegri undirvitund. Þrátt fyrir að hafa um aldir búið við föðurrétt, líta börn sjálfkrafa á móðurina sem hið hæsta yfirvald. Barnið lítur á föður sinn sem jafningja í sömu skör settan og það sjálft. Það verður að kenna börnum að elska föður sinn, heiðra hann og virða. Það verkefni tekur móðirin venjulega að sér.
Karlmenn eru svo sannarlega aumkunarverðar verur. Við, strákarnir, höfðu óneitanlega orðið þess áskynja, að kynfæri okkar væru viðkvæm og háskalega staðsett. Þannig að þessi boðskapur kom ekki verulega á óvart: [K]arlar eru berskjaldaðir. Staðsetning kynfæra þeirra eru háskalegri [og því] er áhættan á áverkum meiri, heldur en á kynfærum kvenna. Konur eru færar um [ýmist] að gera sér upp kynörvun eða leyna henni. Fyðill karls getur orðið leiksoppur óumbeðins holdriss; lafir í þvermóðsku eða lyppast niður, þegar minnst varir ... auðmýkjandi aðstæður. Konan getur fengið fullnægingu margsinnis við samfarir; geta karls [til þess arna] er takmarkaðri. Getuleysi karla hefur m.a. í för með sér vangetu til frjóvgunar. Jafnvel þótt kona sé ekki kynferðislegra örvuð býr hún yfir getu til samræðis, getnaðar og móðurgjörnings. Kynferði karla jafnast engan veginn á við kvenna. Það er ekki að undra, að karlar hafi lifað í eilífum ótta við konur. (ST).
Ég lærði líka, að tímabil hinna átta mæðra í mínu lífi, var kennt við nafnlausa vanda kvennanna eða kvenfrelsaranna öllu heldur. Þeir gengu sem sé í rauðum sokkum andstætt við kynsystur þeirra í Lundúnum heilli öld fyrr, sem þyrsti í fjölþætta menntun og gengu í bláum sokkum, Blásökkurnar svokölluðu. Kúgun húsfreyja og mæðra var nú í brennidepli. Þær skyldi frelsa. Byltingarforkólfarnir í Rússlandi sögðu, að í vinnu fælist frelsun. Það sagði líka þjóðernisjafnaðarmannaforinginn, Adolf Hitler: Vinnan frelsar (Arbeit macht frei) eins og einhverja lesendur rekur vafalaust minni til. Lögð var áhersla á efnahagslegt sjálfstæði kvenna og betra kynlíf. Mæður skyldu menntast betur og losna undan barnaati og heimilisstússi. Gerð var krafa til feðra um að sinna börnum sínum meira. Krafan um vistun yngri barna varð hávær. Margt var af skynsemi sagt á þessum árum.
Samfélagið var statt í annarri bylgju kvenfrelsunar. BF gerði eftirfarandi uppgötvun í bylgjunni miðri.: Engin kona fær [kynferðislega] fullnægingu við það að bóna eldhúsgólfið. Við, strákarnir, höfðum reyndar rætt þetta á málfundum okkar um kynlíf og þess háttar óræð fyrirbæri - og reyndar komist að sömu niðurstöðu. Við höfðum eftir þetta mikið dálæti á BF og gerðum hana einróma að heiðursfélaga í kynfræðafélagi okkar.
Við fylltumst forvitni um kúgun BF, lásum lýsingu hennar sjálfrar: Öll þau ár, sem ég vann að [bókinni], hinni kvenlegu dulúð ([Feminine Mystique], lagði ég glaðlega frá mér vinnu mína, þegar dóttir mín litla kom heim úr skólanum eða drengirnir ... [stunduðu íþróttir] og eins þegar ég veitti karli mínum Martini, að vinnu lokinni. [Sama átti við, þegar fyrir lá að] elda, ræða málin, skreppa í kvikmyndahús, stunda kynlíf, fara með í verslun eða á sveitauppboð á laugardögum, skipuleggja útimáltíð á Eldeyju [Fire Island], skreppa með börnin á vígvelli Gettysburg, fara í útilegu á Hatteras höfða það sem fjölskyldulíf snýst um.
Þrátt fyrir kúgunartalið virtust forkólfar annarrar bylgju þó ennþá tiltölulega sáttir við fjölskyldulífið eins og baráttumenn fyrstu bylgju, ef marka má líferni og móðurgjörning Elizabeth Cady Stanton (1815-1902). Hún segir í bréfi til annars forsprakka hreyfingarinnar, Susan Brownell Anthony (1820-1906): Ég vildi ekki eiga færri en sjö [börn], þrátt fyrir skammirnar, sem yfir mér dundu fyrir slíkt óhóf. SLT segir eitthvað á þess leið: Hinir fyrstu aðgerðasinnar sáu ekki þörf fyrir að beina sjónum að móðurgjörningnum sem kúgunarfjötrum. Þeir mótmæltu ekki móðurskyldum sínum. Það viðhorf átti rætur í stöðu þeirra sem forréttindakvenna á þeim tímum, þegar heimilisfólki gnægtaheimila var þjónað til borðs og sængur. T.d. hafði frú Stanton afbragðsgóða þjónustustúlku, Amy Willard. Móðurhlutverkið taldi hún enga byrði, sem þyrfti að létta af sér.
En viðhorf til fjölskyldulífs, kynlífs og móðurgjörnings áttu eftir að breytast. T.d. segir KM: Karlar og konur búa í raun við sitt hvora menninguna sökum mismunandi félagslegra aðstæðna. Og lífsreynsla þeirra er allsendis ólík. Og hún hélt áfram: Almennt hefur líf kvenna einskorðast við dýrslegt líferni í rás menningarsögunnar, þar eð þær hafa veitt körlum kynferðislega útrás og sinnt því dýrslega verkefni að æxlast og fóstra ungviðið. Ah, ha, sagði mamma, þegar ég bar þessa kennisetningu undir hana.
KM furðaði sig á því, að konur skyldu ekki umsvifalaust gerast kvenfrelsarar upp til hópa. Skýringuna kann hún að hafa fundið í byltingarfræðum, Karl Marx (1816-1883), sem samdi kenningu um falska vitund, eða við lestur bókarinnar, Kúgunar kvenna, sem breski heimspekingurinn, John Stuart Mill (1806-1873), samdi skömmu fyrir þar síðustu aldamót. Að vísu var hann ekki öldungs klár á því, hvort orðin væru hans eða ástkonunnar, kvenfrelsarans og heimspekingsins, Harriet Taylor Mill (1807-1858). En hvernig sem því víkur við, sagði KM: Margar konur líta svo á, að þeim sé ekki mismunað. Það er óræk sönnun þess, hversu gjörsamlega þær hafa verið skilyrtar. Já, einmitt það, sagði mamma, með þykkju í röddinni. Eyðing hefðbundins hjónabands er hið byltingarkennda og draumórakennda (utopian) markmið kvenfrelsunar. Nú varð mútterin dolfallin og átti ekki til orð í eigu sinni.
SF sló á svipaða strengi. Hún sagði m.a.: [U]mgjörð fjölskyldunnar er uppspretta kúgunar í sálarlegum, efnahagslegum og stjórnmálalegum skilningi. ... Það verður ekki gengið milli bols og höfuðs á bandormi þrælkunarinnar, nema byltingin uppræti grundvallarstofnunina, hina náttúrulegu (biological) fjölskyldu, [því] hún getur [auðveldlega] orðið gróðrarstía andlegs valds.
Sheila Cronin, leiðtogi Þjóðarsamtaka kvenna (National Organization of Women) í Bandaríkjum Norður-Ameríku, tók undir orð SF: Þar eð hjónabandið felur í sér þrælahald fyrir konur, ætti það að vera augljóst kvennahreyfingunum að einbeita sér að árás á þessa stofnun. Frelsun kvenna verður ekki að veruleika, nema hjónabandið sé afnumið.
Sjálfri þótti SF ekki nóg að uppæta feðraveldið, karlmenn. Ráðast þyrfti einnig til atlögu við náttúruna sjálfa og þurrka karlkynið endanlega út: [V]ið getum með engu móti lengur réttlætt kynstéttarmismunun með skírskotun til náttúrulegs upphafs þess. ... [K]venfrelsarar verða ekki einasta að brjóta til mergjar vestræna menningu eins og leggur sig, heldur einnig innri skipan hennar og ... jafnvel skipan náttúrunnar [sjálfrar]. ... Lokatakmark kvenfrelsunarbyltingarinnar er ekki einvörðungu uppræting karlforréttinda eins og fyrsta kvenfrelsunarhreyfingin [fyrsta bylgja kvenfrelsunar] barðist fyrir, heldur að þurrka út kynjamun í sjálfum sér. Mismunandi kynfæri fólks ættu ekki lengur að skipta máli í menningarlegu samhengi.
Árin hafa færst yfir. Flest það, sem ofangreindir og fleiri kvenfrelsarar hafa skrifað um mannlífið, hef ég að mestu lesið mér til skemmtunar, gerði ráð fyrir, að skrifin hyrfu á vit gleymskunnar eins og svo mörg önnur mannanna verk. Ég gerði einnig ráð fyrir, að ofstækið myndi dvína. Það rann þó stöðugt skýrar upp fyrir mér, að ég hefði verið tekinn í bólinu. Æsingaskrif, ævintýri og áróður eru orðin að rétttrúnaði og ætlunarverk kvenfrelsaranna langt komið.
Fjölskyldan er meira eða minna í rúst, heimilistekjur eru svipaðar tekjum einnar fyrirvinnu (föðurins) áður, fleiri börn alast upp föðurlaus, drengir eru hornrekur í menntakerfinu, tíðni sjálfvíga meðal drengja og ungra karla er ógnvænleg, konur verða stöðugt vansælli, karlar draga sig í hlé, kynvitundarbrenglun eykst og er orðin að tískufyrirbæri jafnvel, börn og unglingar þjást.
Við stefnum hraðbyri til fyrirheitna landsins; draumríki kvenveldisins, sem öðrum þræði er hvorugkynsparadís einnig. Og ennþá er körlum stjórnað með afli samviskubitsins, vondrar samvisku yfir því að reynast konunum ekki nægilega vel, fullnægja þeim ekki. Sumar eru meira að segja með verulegt óþol líka. Mikil eru völd fórnarlambsins.
Höfundur: Arnar Sverrisson, Birtist á snjáldursíðu hans 25. júlí.