Sigrún Sif Jóelsdóttir, hjúkrunarfræðingur, hefur meistarapróf í sálfræði frá HÍ, er verkefnisstjóri við Menntavísindastofnun HÍ. Hún er annar tveggja höfunda greinarinnar. Sigrún Sif er í fararbroddi hóps mæðra, Lífs án ofbeldis, sem berst fyrir rétti mæðra til sjálfar að ákvarða, hvort feður barna þeirra megi sinna föðurhlutverki sínu hafi ég rétt skilið. Hún hefur skrifað fjölda annarra greina um efnið í Stundina, m.a. Faraldur ofbeldis gegn konum og börnum í COVID heimsfaraldri. Grant Wyeth hefur meistaragráðu í alþjóðatengslum frá háskólanum í Melbourne, Ástralíu. Hann hefur vonandi gagn af skrifum Stundarinnar. Líklega er hann skrauthöfundur.
Sigrún nefnir svonefnda Norrænu þverstæðu, þ.e. að frjálsar konur Norðurlanda skuli oftar misþyrmt á heimilum sínum, en víðast annars staðar. Ég hef ekki séð gögn, þar sem þetta er sannreynt. Vísað er m.a. til upplýsinga frá SÞ, sem oft eru áróður, fremur en vandaðar vísindarannsóknir. Það þarf að skoða betur. Allavega eru þar endurteknar gamlar, þreyttar lummur, ættaðar frá kvenfrelsunarfræðimönnum. Það, sem höfundum ekki hugkvæmist til skýringar, er, að þeim mun frjálsari sem konur verða og þeim mun öflugri sem áróðurinn fyrir karlillskunni er, þeim mun líklegra er að þær beiti fölskum ásökunum til drottnunar. Í þessum orðum felst þó ekki afsökun fyrir ofbeldi af neinu tagi.
Sigrún fetar í kunnuglegt fótspor annarra kvenfrelsunarfræðimanna og leitast við að auka trúverðugleika hugleiðinga sinna með tilvísun í rannsóknir skoðanasystra. Vísað er til rannsóknar Drífu Jónsdóttur, Þordísar Þorsteinsdóttur og Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur í Scandinavian Journal of Public Health (https://journals.sagepub.com/doi/full/10.1177/1403494820916093). Hér er um að ræða tvo lækna og hagfræðing frá HÍ.
Úr sama ranni kemur einnig hin aðferðafræðigallaða rannsókn; Áfallasaga kvenna, sem mikið var auglýst fyrir ekki alls löngu (læknarnir Unnur Valdimarsdóttir og Arna Hauksdóttir). Þar var brennidepill sá sami algengur við kvenfrelsunarrannsóknir að beina einhliða sjónum að konum. Kunnuglegur háttur var hafður á skilgreiningu þýðisins, þ.e. þess hóps, er rannsaka skyldi; konur, sem sjálfum þótti sér misboðið. Í nefndri rannsókn þrenningarinnar á konum, átján ára og eldri, sem sögðu sér misþyrmt af ástmanni, höfðu langflestar sloppið með smávægilega áverka á skrokknum. Og gott er það. Tuggurnar frá Kvenfrelsunaráróðursdeild SÞ eru svo endurteknar, þ.e. að ofbeldi gegn konum frekar en körlum sé alheimsvandi og brot á mannréttindum þeirra. Og vissulega er það rétt. Ofbeldi er alheims- og eilífðarvandi mannkyns. Einnig ofbeldi gegn drengjum og körlum.
Sigrún tiltekur eins og ríkislögreglustjóri, tvö andlát kvenna á Íslandi, meðan á heimssóttkvínni stóð. Bent er á morð karla gegn konum. Vissulega er það rétt, að karlar drepa oftar en konur. Þó kynbræður miklu oftar en kynsystur. Kynsysturnar drepa nær einvörðungu karla. Það nefnir Sigrún ekki og sver sig enn í fræðimennskuætt kvenfrelsara. Hún sér heldur ekki ástæðu til að nefna, að sé konum yfirleitt hegnt fyrir morð á körlum, fá þær almennt miklu vægari dóma, en títt er um karlmorðingja.
Og viti menn! Sigrún vísar til fyrrgreindar rannsóknar, Áfallasögu kvenna, til að ljá trúverðugleika fullyrðingum um misþyrmingar á íslenskum konum. Það kemur varla á óvart, að um fjörtíu af hundraði þess valda skara telur sig hafa orðið fyrir framhjáhaldi, höfnun, bolabrögðum og sálrænu einelti um ævina. (Hvað ætli karlar og drengir hefðu sagt?) Kórónan á þessu hluta greinarinnar er tilvísun til Stígamóta, sem telja íslenskt réttarkerfi fara illa með konur. Því lætur mikill meirihluti kvenna hjá líða að kæra ofbeldi í þeirra garð. Það er ekki bitið úr nálinni með kvenfjandsamlegt réttarkerfi. Það trúir sjaldan frásögnum mæðra um ofbeldi feðra gegn þeim og dæmir börnunum venjulega forsjá beggja foreldra sinna.
Rúsínan í pylsuendanum er tilvísun til greinar í Stundinni (https://stundin.is/grein/6784/ ). Þar skrifar rannsóknarblaðamaðurinn, Jóhann Páll Jóhannsson, grein með titlinum: Börn þvinguð til umgengni við ofbeldismenn. (Þetta er reyndar sérstakt hugarefi annars greinarhöfunda.) Þar er vitnað til tveggja lögfræðinga, Söru Pálsdóttur og Elísabetar Gísladóttur. Sú síðarnefnda hefur skrifað meistaraprófsritgerð um áhrif heimilisofbeldis (væntanlega í merkingunni, ofbeldi karla gegn konum).
Mæður eru látnar gjalda fyrir að greina frá ofbeldi ef það leiðir ekki til ákæru og stúlka var þvinguð til að umgangast föður sem var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn henni, segir Jóhann. Vafalaust eru barnaverndaryfirvöld og réttarkerfi mistæk í þessu efni sem öðrum. En það er næstum spaugilegt, að þannig er venjulega röksemdafærsla dómstóla, þegar barn er dæmt til samvista við móður, sem ýmist misþyrmir eða drepur jafnvel. Það nefnir ekki Sigrún og vinur hennar í Melbourne.
Sigrúnu er umfram um að sannfæra lesendur um, að foreldrafirring eigi sér ekki stað, m.a. með tilvísun til orða fyrrnefndrar Söru, sem samkvæmt Stundargreininni segir: Að mínu mati er ljóst að sýslumaður hefur að einhverju leyti byggt á þessari hugmyndafræði [foreldrafirringu] þegar teknar eru ákvarðanir um umgengni við börn eða í málum sem varða álagningu dagsekta. Mér finnst sýslumaður oft ganga langt, t.d. fara ýmsar krókaleiðir, í þeirri viðleitni að komast að einhverri fyrirframgefinni niðurstöðu sem samræmist kenningunni um foreldrafirringu. Ég veit að þetta hljómar einkennilega, en þetta er einfaldlega það sem ég hef kynnst í mínum störfum. Svona lítur þetta út, því miður. Það er sem sé skynvilla eða hugsunar, að foreldri beiti börnum sínum í stríðinu við hvort annað. Það er mér að sönnu léttir að vita. Ég vildi svo sannarlega, að hin spámannlega vaxa Sara hefði komið miklu fyrr fram á sjónarsviðið. Hún hefði getað afstýrt miklu kvölum allra þátttakenda í slíkum harmleikjum. Töfrastaf Söru vildi ég gjarnan eiga, svo ekki sé minnst á rannsóknarhæfileika Stundarmanna.
Sigrún fer hamförum í sannfæringarviðleitni sinni að þessu leyti. Vísað er til nokkurra greina í fræðitímaritum einnig. Í grein William ODonnahue og fleiri í Journal of Child Custody árið 2016 er á það bent, að hugtakið sé ekki vísindalegs eðlis. Það er hárrétt. En það er heldur ekki öll geðsjúkdómaskráin eins og leggur sig. En það segir ekki alla sögu um skýringarmátt hugtaksins langt í frá.
Næst er vísað til einhvers, sem kallað er The Leadership Council, sem að eigin sögn berst fyrir að beita sálvísindum til hjálpar lítilmagnanum. Ég fæ ekki í fljótu bragði séð, hvað almenn umfjöllun um norður-ameríska barnageðlækninn, Richard A. Gardner (1931-2003) hefur með umfjöllun greinarhöfunda að gera, að öðru leyti en því, að hann gaf fyrstur nafn þeirri ósvinnu, sem foreldri beita börn sín í hatursviðureignum sínum við skilnað.
Næsta tilvísun er til greinarstubbs Norður-ameríska sálfræðingafélagsins, þar sem á það er bent, að ekki liggi fyrir nógsamleg vísindaleg gögn til að réttlæta foreldrafirringu sem sjúkdómsgreiningu. En eins og fyrr segir á það við um allar geðgreiningar. En hvergi sé ég þess stað, að umrætt félag afneiti tilvist fyrirbærisins, sem orðið vísar til.
Næsta grein er skrifuð af Joan S. Meir. Um er að ræða raunvísindalega (empirical) nálgun, en í úrdrætti greinarinnar eru hún ekki útskýrð frekar. Rannsóknin tók til tíu ára tímabils. Í niðurstöðu kemur m.a. fram að líkur minnki á að móður sé dæmd forsjá barna sinna, álasi hún föður um líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi. Ennþá frekar minnka líkurnar, bendi faðir á, að móðir hafi espað barnið gegn sér. Í niðurstöðum er þess ekki getið, að ranglega sé dæmt.
Því næst er gripið niður á Íslandi. Stundin er heimild greinarhöfunda enn á ný. Að þessu sinni grein eftir rannsóknarblaðamanninn, Frey Rögnvaldsson. Upphafsorð greinarinnar lýsa kjarna máls: Föður, sem sakaður var um að hafa brotið kynferðislega gegn barni sínu, hefur verið dæmd forsjá yfir því sama barni í Héraðsdómi Reykjavíkur. Maðurinn hefur sjálfur viðkennt að hafa brotið kynferðislega gegn hálfsystur sinni þegar hún var fimm ára og hann rétt að verða fjórtán ára.
Síðasta greinin, sem vitnað er til, er skrifuð af Michelle Sieff í Foreign Affairs 2017. Michelle er ráðgjafi um ofbeldi gegn konum fyrir Alþjóðabankann (World Bank) og fleiri samtök. Þar er bent á, að sjálfur Donald Trump hafi undirritað löggjöf árið 2017 baráttumál kvenfrelsara sem ber heitið Konur, friður og öryggi (Women, Peace, and Security Act). Það er ein af þulum kvenfrelsaranna, að konur séu í eðli sínu friðsamari, heldur en karlar, og því beri að beita friðsemdareðli þeirra til að bæta heiminn. Vonandi koma allar konur veraldar að því verkefni.
Ég á í erfiðleikum með að finna eitthvað vísindalega bitastætt í grein þessari, sem grafa ætti undir virðingarheitinu, Ísland sem kvenfrelsunarparadís. Ég sé ekki þá almennu karlfólsku, sem Sigrún og vinurinn í Ástralíu vilja sýna okkur fram á. En það er nánast sjálfgefið, að karlfólska sé til, engu síður en kvenfólska.
Krækja að greininni:https://foreignpolicy.com/2020/07/15/the-misogynist-violence-of-icelands-feminist-paradise/?fbclid=IwAR2rlOYj72uOGh5aj6pFURgfaYMvKk5IekvRzt34MB55d6BG9V0RzaFUd9A
Arnar Sverrisson er höfundur þessa pistils og birtist hann á snáldursíðu hans.