Siðspillingarsinfónían – birtist í Mbl. 15. júlí 2020

Góðu heilli hafa Íslendingar á að skipa úrvals hljómlistarmönnum. Það er sérstakt ánægjuefni, þegar þeir sameina krafa sína í listgjörningi. Kvensnillingar úr þeirra röðum hafa verið áberandi undanfarið, brotist í gegnum „glerþak“ listarinnar, svo notuð sé fréttaskýring RÚV. Einn þeirra, Björk Guðmundsdóttir, hefur nú fengið í lið með sér uppáhalds hljómsveit mína, Sinfóníuhljómsveit Íslands (SÍ), og fleiri afbragðs listamenn. Fyrir skemmstu var fjallað um þennan viðburð í fyrrgreindum ríkisfjölmiðli. Í fyrstu var frá því sagt, að um væri að ræða söfnunartónleika í þágu Kvennaathvarfs. Síðar var útskýrt, að söfnunarátak færi fram samhliða tónleikunum. Þetta staðfestir framkvæmdastjóri SÍ, Lára Sóley Jóhannsdóttir, í ljúfmannlegu svari við fyrirspurn minni. Umsjón og skipulagningu hafa með höndum „Iceland Airwaves“ (sem er dyggilega stutt af Reykjavíkurborg (Rvk) og „Icelandair)“ og Harpa, sem er í eigu ríkisins og Rvk. Bæði Harpa og SÍ er rekin af ríki og sveitarfélögum.
Björk er kvenfrelsari. Í frjálsu samfélagi er henni að sjálfsögðu heimilt að boða trú sína að vild. Hún segir í sambandi við tónleikana: „Mitt innlegg til femínisma verður að monta mig yfir því að langflestar útsetningar eru eftir mig. Þetta er því miður eitthvað sem er of oft horft framhjá hjá konum ... [F]ólki [verður] boðið upp á veitingar ... til styrkar kvennaathvarfinu.“ Vitaskuld er skiljanlegt, að Björk vilji monta sig. Það er verðskuldað. En er slíkt trúboð með fulltingi menntastofnana í almannaeigu réttlætanlegt?

Á vefsíðu Hörpu stendur: „Hlutverk Hörpu er að vera vettvangur fyrir tónlistar- og menningarlíf sem og hvers konar ráðstefnur, fundi og samkomur, innlendar og erlendar. ... Markmið ríkis og Reykjavíkurborgar með byggingu og rekstri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu er að efla íslenskt tónlistar- og menningarlíf, styrkja stöðu Íslands á sviði ráðstefnuhalds og ferðaþjónustu og stuðla að öflugu mannlífi í miðborginni.“

Þátttaka í fjársöfnunum fyrir öfgahópa er nýlunda í rekstri þessa merka húss. Að vísu hefur Harpa átt samstarf við Kvenfrelsunaráróðursstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Women) í tengslum við ljósagönguna svonefndu „á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi.“ (Þ.e. ofbeldi karla gegn konum.) Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra Íslandsdeildar hennar skrifaði: „Við verðum að hætta að rengja trúverðugleika þolenda ...“ Svar var slegið á „Hörpustrengi“: „Harpa verður lýst upp í appelsínugulum lit, sem er táknrænn litur fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis.“

Vonandi styður allt réttlátt fólk baráttu gegn kynferðislegri svívirðingu stúlkna og óskar þeim bjartrar framtíðar. En Stellu láðist að geta þess, að verulegur fjöldi ákæra kvenna (þær kallar RÚV þrotaþola eða þolendur) er falskur. Og hvers eiga piltar og karlmenn að gjalda?

Kvennaathvarf og systursamtök þess, Stígamót, er einnig rekið fyrir opinbert fé að mestu leyti. RÚV, sem sömuleiðis er ríkisfyrirtæki, hefur beitt sér fyrir fjármögnun beggja. Kvenfrelsunarríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er þeim sérstaklega hliðholl. Kvennaathvarf eykur nú markaðshlutdeild sína á norðanverðu landinu. Reynt var að starfrækja athvarf þar um slóðir fyrir um þrem áratugum síðan, en eftirspurn var of rýr. Framkvæmdastýra Kvennaathvarfs, Sigþrúður Guðmundsdóttir, vonast nú til, að árangursríkt markaðsstarf skapi nýju kvennaathvarfi rekstrargrundvöll. Ríkisstjórnin ber fé á nefnd öfgafélög til að styrkja starfssemi þeirra. Véfréttir um auknar barsmíðar karla á konum sínum á drepsóttartímum er notuð til réttlætingar.

Ofangreind samtök starfa á grundvelli öfgakenningarinnar um eitraða karlmennsku. Hún segir í grófum dráttum, að drengir og karlmenn séu undirrót alls ills í samfélaginu og eitri líf kvenna með ofbeldi á öllum sviðum mannlífsins. Kvennaathvarf veitir meðferð konum, sem segjast meiddar af körlum sínum. Þeim er einnig boðið húsnæði – og börnum þeirra (drengjum að gelgjuskeiði). Ósjaldan háttar þannig til, að konurnar hafi með aðstoð lögreglu og barnaverndaryfirvalda yfirgefið heimili sín og hrifið með sér börnin að föður þeirra forspurðum. Í minni sveit hét það barnsrán. Feðrunum er aftur á móti oftsinnis stungið í steininn samkvæmt ákvörðun lögreglu. Börnunum eru meinuð samskipti við feður sína, skólaganga og samskipti við vini eru hindruð. Þetta kalla yfirvöld gott jafnrétti og skynsamlega barnavernd.

Það er umhugsunarvert, að opinberar menningarstofnanir, fjármagnaðar af almenningi samkvæmt ákvörðunum stjórnmálamanna, skuli nú feta í slóð ríkisfjölmiðilsins, Jafnréttisstofu og ríkisfyrirtækja á borð við Íslandsbanka, og beita sér í svokallaðri „jafnréttisbaráttu,“ sem oftar en ekki einkennist af misrétti gegn drengjum og körlum.

Er það ósvinna og siðleysi, þegar opinberir embættismenn beita stofnunum í þágu eigin hugðarefna og fordóma í áróðurshljómkviðu sem þessari?

 

Höfundur: Arnar Sverrisson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband