Hvað á ég sameiginlegt með sæðisgjafa?

Greinin birtist í Kvennablaðinu í dag 19. apríl. https://kvennabladid.is/2020/04/19/hvad-a-eg-sameiginlegt-med-saedisgjafa/

 

Fyrir nokkru var ég spurð þessarar spurningar. Ég var spurð af ungum manni sem sagðist vera pabbi. Eftir hamingjusókir sagði hann það enga hamingju. Því átti ég erfitt með að trúa. Það er stórum hluta þjóðarinnar hamingjuefni að verða foreldri.

Þá kom spurningin; Hvað á ég sameiginlegt með sæðisgjafa?

Ég er eiginlega sæðisgjafi sagði ungi maðurinn. Við vorum saman í nokkra mánuði og hún varð ólétt, sparkaði mér og sagðist ætla að ala barnið upp ein, hún ætti það. Eftir mótmæli af minni hálfu sagði hún mig ekkert geta gert. Konur hefðu meiri völd þegar kæmi að börnum. Kerfið hugsaði kvenlægt þegar mæður væru annars vegar.

Stúlkan hefur rétt fyrir sér. Réttarstaða föðurs er í engum takti við nútíma samfélag.

Konur sem vilja eiga börn einar kaupa sæði frá útlöndum og láta setja það upp. Engin krafa er á sæðisgjafann eða frá honum og eftir því sem ég best veit greiðir ríkissjóður meðlag með þessum börnum. Konur velja þessa leið í auknu mæli í hinum vestræna heimi. Í Danmörku kallast þær sólómæður.

Ungi maðurinn sagðist vera afar óánægður. Það þýddi ekkert að neita fyrir að hann væri pabbinn því með DNA-prufu væri hægt að sanna að hann ætti barnið. Hann væri skyldugur að borga meðlag með barninu sem hann fær hvorki að hitta né tala við. Hann fær ekki einu sinni fréttir af barninu. Til að  gera kröfu um þáttöku í lífi barnsins þarf hann að leita til sýslumanns. Biðin þar er hátt í ár. Þegar málið kemst á dagskrá er hægt að draga málið um annað eins. Móðirin gæti flutt með barnið landshluta á milli og þá þyrfti að hefja nýtt mál hjá nýjum sýslumannsembættum. Það er ekkert landskerfi sem nær yfir öll mál af þesum toga á landinu. Færi ég í dómsmál, sagði ungi maðurinn, myndi dómari segja, það er barninu fyrir bestu að vera hjá móðurinni þar sem þú hefur ekki verið þátttakandi í lífi barnsins. Af hverju skyldi það vera? Er það sjálfviljugur kostur?

Við eigum langt í land þegar horft er til Barnasáttmálans. Við viðurkenndum hann en uppfyllum hann ekki. Brotið er á börnum sem lenda í klóm mæðra sinni með þessum hætti. Barnsfaðir þarf, vilji hann ná fram rétti barnsins að umgangast báða foreldra, að fara í dómsmál með gífurlegum kostnaði. Ungi maðurinn hefur ekki þær tekjur að hann geti farið í dómsmál en þó ekki það lágar að fá gjafsókn. Hann er milli steins og sleggju. Sennilega ekki sá eini. 

Ungi maðurinn kvaddi mig með þeim orðum að hann búi til myndir af barni sínu í huganum. Hann ímyndar sér hvernig barnið lítur út. Ætlið hárið sé dökkt eða ljóst, lítið eða mikið. Hvenær ætli fyrstu tennurnar hafi komið. Fyrstu skrefin og þar fram eftir götunum. Allt í huganum því í raunveruleikanum fær hann ekki að hitta eigið barn. Hann er minntur á barnið hvern mánuð, á hverjum launaseðli. Meðlag.

Ungi maðurinn er gjaldskyldur sæðisgjafi í 18 ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband