6.1.2020 | 13:36
Ný menntastefna Reykjavíkurborgar og Akureyrar, KFR fær pening!
Heyrði á dögunum að kynna ætti nýja menntastefnu á Akureyri. Grunnskólakennarar bíða í ofvæni eftir henni enda hafa þeir ekki verið með í smíðum hennar.
Reykjavíkurborg samdi við Kennarafélag Reykjavíkur (KFR) um margvísleg verkefni í tengslum við nýja menntastefnu borgarinnar. Sjá samning hér. Metnaðarfullt svo ekki sé meira sagt og vissulega öðrum sveitarfélögum til eftirbreytni. Samkvæmt samningnum á starfsáætlun að liggja fyrir og mættu kennarar í Reykjavík flagga góðu plaggi.
Aldrei þessu vant fylgja peningar samstarfinu. KFR fær 3 milljónir árlega, níu milljónir á þremur árum. Vel gert. Töluvert hægt að gera fyrir þá fjárhæð í þágu grunnskólakennara. Ekki á vísan að róa þegar grunnskólinn er annars vegar hvort peningar fylgi verkefnum. Þegar menntastefna Akureyrarbæjar liggur fyrir verður forvitnilegt að sjá hvort sami metnaður verður lagður í að framfylgja henni og hjá borginni.
Fyrir peningana, 3 milljónir árlega, er hægt er að kaupa ráðgjöf frá ólíkum fagstéttum til að fræða kennara og fylgja málum eftir, halda fyrirlestra, námskeið og fleira. Auðveldar KFR að fá fagfólk inn í skólana með fræðslu og annað sem kennarar þurfa á að halda.
Því miður hafa grunnskólakennarar eða trúnaðarmenn ekki haldið þessu góða starfi á lofti og því væntir höfundur mikils af þeirri skýrslu sem fylgja á verkefninu, árlega samkvæmt samningi, þannig að önnur landsfélög geti haft starfið sem viðmið við eigið starf. Beri starf KFR árangur þurfa ekki allir að finna upp hjólið. Að auki skarast margt í samningnum við starf Vinnuumhverfisnefndar KÍ og því fróðlegt að bera saman bækur um þau málefni. Reykjanesbær ætlar í svipaða vinnu í leikskólum sveitarfélagsins og því tilvalið að horfa til vinnu KFR þegar starfsáætlun er gerð þar í bæ. Eins og segir á vef KÍ ,,Fræðsluráð Reykjanesbæjar ætlar að grípa til aðgerða er varðar starfsumhverfi í leikskólum bæjarins.
Hér verða nefnd nokkur áhugaverð verkefni samkvæmt 4.gr. samningsins, en þar segir:
- Stuðla að aukinni vellíðan og sjálfseflingu grunnskólakennara í starfi.
- Vinna að jákvæðri ímynd kennarastarfs í grunnskólum Reykjavíkur.
- Annast fræðslu og upplýsingagjöf til kennara í því skyni að auka þátttöku þeirra í starfsþróun og símenntun. Einnig að skapa grunnskólakennurum starfsvettvang þar sem miðlað er reynslu og þekkingu.
- Taka þátt í einstöku verkefnum á vegum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Það verður að fróðlegt heyra um á hvern hátt KFR hefur stuðlað að vellíðan og sjálfseflingu grunnskólakennara í starfi því vitað er að langtímaveikindi kennara eru mikil, bæði í borginni og öðrum sveitafélögum. Eða ætlar sér að gera, öðrum til eftirbreytni.
Til hamingju KFR að ná svona flottum samningi við borgina, við á landsbyggðinni horfum til framkvæmdarinnar og árangursins með eftirvæntingu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.