15.8.2019 | 20:59
Svívirðingar á netinu- við borgum fyrir þig!
Færst hefur í vöxt að fólk svívirði hvort annað á netinu. Mörgum finnst í lagi að ásaka og ljúga upp á mann og annan til að vinna eigin málstað lið og ljúga um sjálft sig. Heilu hóparnir veitast oft að einstaklingum í sömu erindagjörðum. Mannorðsmorð framin, oft án þess að nokkur hreyfi legg né lið. Er þetta þróun sem við viljum sjá hér á landi?
Til að stoppa rógburð þarf að lögsækja fólk. Þegar logið er upp á einstakling og meiðyrði notuð til að ná fram hefnd, hóta, sverta mannorð eða jafnvel skemma atvinnumöguleika verður að setja punktinn yfir i-ið! Þegar níðskrif og lygar er markvisst notað gegn einstaklingi er nóg komið. Árið 2019 þýðir ekki lengur að vísa rógburði til föðurhúsanna, samfélagmiðlar og einstaka fjölmiðill sjá til þess.
Í tengslum við forsjárdeilur virðast níðskrif og mannorðsmorð nokkuð algeng, sérstaklega í ,,lokuðum hópum“ á snjáldursíðum. Einstaklingar sækja sér samúð hjá samskonar sauðum sem virðast hikstalaust ljúga til að fá meðaumkun og samúð þeirra sem í hópunum eru sem bera svo lygarnar áfram, í athugasemdarkerfi blaðanna og á aðra staði. Satt eða logið, virðist aukaatriði.
Er möguleiki að stoppa netníðið sem viðhaft er á netinu, spyr sá sem ekki veit. Eflaust, en mikið þarf til. Fjölmiðlar þurfa fyrst af öllu að stoppa einhliða umræður af málaflokkum og kynjum. Fjölmiðlar þurfa að rannsaka betur þau mál sem þeir hyggjast segja frá að beiðni fólks. Það skaðar engan. Frásögn verður áreiðanlegri en kannski ekki eins söluvæn. Fjölmiðlar þurfa að loka fyrir athugasemdarkerfi við frétt, eða bera ábyrgð á því sem þar kemur fram, í viðkvæmum og persónulegum málum.
Margir grunnskólakennarar reyna að leiðbeina nemendum um góð og slæm skrif á netið. Nemendur eru varaðir við illmælgi, fantaskap, dónaskap og niðrandi ummælum sem geta fallið um þá. Segja má að grunnskólakennarar berjist við vindmyllur þegar nemendur lesa svo ummæli fullorðna fólksins í athugasemdarkerfi blaðanna og snjáldursíðum. Oft á tíðum skilja þeir ekki ,,tuð“ kennara í tengslum við netskrifin. Fullorðna fólkið skrifar svona...og hvað! Af hverju þau, ekki við!
Enga fyrirmynd er að finna í fullorðnu fólki sem hagar sér illa á netsíðum. Allir sem hafa hag barna að leiðarljósi hafa eitt í huga, draga úr netníð þeirra gagnvart hvort öðru. Oft heyrist, rafrænt einelti er ólíðandi og skólarnir eiga að grípa inn í. Gott og blessað, en foreldrar eru betur í stakk búnir til að leiðbeina börnum sínum. Allir siðir koma að heiman í gegnum uppeldið, slæmir og góðir. Samvinna skóla og foreldra er sennilega besta leiðbeiningin. Hver á að grípa inn í þegar fullorðnir einstaklingar viðhafa svívirðingar og meiðyrði á opinberum miðlum. Lögsókn!
Nú bregður svo við að hópur kvenna réttlætir svívirðingar og meiðyrði á netinu, í nafni þolenda ofbeldis. Hópurinn stofnaði sjóð til að borga fyrir netníð annarra kvenna séu þær lögsóttar og dæmdar til bótagreiðslna. Hneisa svo ekki sé meira sagt. Slæmar fyrirmyndir þessar konur. Að þolandi ofbeldis, eins og þær segja marga netníðingana vera, hafi leyfi til að beita rafrænu ofbeldi til að fá útrás fyrir eigin sársauka er skrýtin aðferðafræði. Góð skilaboð til komandi kynslóða! Skynsamlegra væri að hvetja konur, og reyndar alla, til að breyta hegðun sinni á netinu.
Ekki þarf að koma með dæmi um netníð og meiðyrði fullorðinna því landinn áttar sig á hvað greinarhöfundur á við. Spörum stóru orðin, rangfærslur og meiðyrðin. Vöndum til verka.
Ljóð eftir Pál J. Árdal lýsir þessu vel en hér má lesa tvö fyrstu erindin. Ljóðið má lesa í heild sinni hér, https://formannslif.blog.is/blog/formannslif/entry/2237746/
Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.
En biðji þig einhver að sanna þá sök,
þá segðu að til séu nægileg rök,
en náungans bresti þú helst viljir hylja,
það hljóti hver sannkristinn maður að skilja.
Athugasemdir
Ef safnanir og sjóðir eru að gera netníð refsilaust þarf að breyta lögum. Ef sektir virka ekki þarf að dæma í fangelsi. Ómanneskjuleg hegðun fólks á netinu er vandamál sem fer vaxandi og taka þarf alvarlega. En meðan lögreglan heldur Nígeríusvindl einu glæpina sem framdir eru á netinu og dómstólum er meira umhugað um umtal á netinu en að refsa fyrir lögbrot fær ósóminn að grassera. Refsilaust getur fólk eyðilagt líf og rústað fjölskyldum á netinu en fær sekt ef það reykspólar á bílaplani.
Hegðun fólks á netinu sýnir vel að sama hvað við teljum okkur hafa þróast og batnað þá er grunnt á dýrseðlið.
Vagn (IP-tala skráð) 16.8.2019 kl. 01:41
Tek undir með ykkur báðum, Helga Dögg og Vagn, tímabær orð.
Jón Valur Jensson, 16.8.2019 kl. 05:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.