Greinin birtist í Kjarnanum 17. júní 2019.
Menntamálaráherra Dana lét sitt ekki eftir liggja þegar í ljós kom, samkvæmt rannsóknum, að nemendur beittu kennarar ofbeldi. Rannsóknirnar gerir danska vinnueftirlitið. Ráðherra kom með leiðavísi sem vinna á eftir þegar ofbeldi á sér stað í grunnskólunum. Ráðherrann sagði ofbeldi í garð kennara of algengt, en það var um 19%. Ofbeldið sem um ræðir, fyrir utan munnlegt, er högg, spörk, hrækt á kennara, bit, hlutum hent í viðkomandi o.fl. Slíkt á ekki að líðast frekar en annað ofbeldi. Ljóst var að bregðast þyrfti við.
Danir fóru í herferð gegn ofbeldinu. Kennarar voru minntir á skráningu ofbeldisatvika því mikilvægt er að hafa þau staðfest. Verði eftirköst á ofbeldinu getur kennari ekki sótt bætur ef um viðvarandi skaða er að ræða, nema tilvikið sé skráð. Að auki, þegar atvik er skráð safnast mikilvæg gögn í málaflokkum sem varpar ljósi á tíðni og tegund ofbeldis í garð kennara. Fræðsla til kennara um ofbeldi og mögulegar aðstæður sem valda ofbeldinu fór í gang. Kennurum var kennt á hvern hátt þeir gætu brugðist við hugsanlegu ofbeldi, hvernig taka eigi á nemanda sem sýnir ofbeldi og hvernig má halda viðkomandi þar til frekari hjálp berst. Kennurum var kennt að skerast í leikinn ef nemandi beitir annan nemanda ofbeldi. Eftir átakið fækkaði skráðum ofbeldisatvikum. Mjög gott framtak sem skilaði góðum árangri.
Þegar sú sorglega staða kemur upp að nemandi beitir kennara ofbeldi og atvikið ekki rannsakað fá hvorki nemandi né kennari viðeigandi aðstoð. Ekki er skoðað ofan í kjölinn hvað veldur að aðstæður sem þessar koma upp, hvað sé til ráða og hvernig bregðast eigi við. Umræðan í Danaveldi er á allt öðru plani en hér á landi, þar viðurkenna menn vandann og leita lausna í stað þess að skjóta sendiboðann.
Þeir kennarar sem ég hef rætt við, sem hafa orðið fyrir ofbeldi, segja traust til nemanda algerlega farið. Vinna af hálfu vinnuveitanda er oftar en ekki engin. Ekki fjarri því að sópa eigi óþægilegum málum undir teppi. Kvíði lætur á sér kræla hjá kennara þar sem nemandi er hafður inni í bekk, jafnvel daginn eftir atvikið. Hræðsla við að taka á agabrotum nemanda sem hefur gerst sekur um ofbeldi verður viðloðandi, ekki bara hjá kennara sem lendir í ofbeldi heldur og hinum, vilja ekki taka áhættuna að verða næstir. Kennarar sem ég hef rætt við hafa lent í misalvarlegu ofbeldi, en munum ofbeldi er ofbeldi, og afleiðingarnar einstaklingsbundnar.
Stjórnendur og stjórnsýslan bregst kennurum á ögurstund sem og Kennarasamband Íslands. Kennarar hanga í lausu lofti og kennarar sem ég hef rætt við segja sumir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við samtökin á undanförnum árum. KÍ hefur hingað til ekki tekið á málaflokknum af festu. Formaður KÍ ritaði pistil á heimasíðu samtakanna og það sem hann skrifar gæti m.a. verið ein af ástæðunum að reynt sé að þagga umræðuna eða afvegaleiða hana ,,Umræða um þessi mál er flókin og mikilvægt er að hún einkennist af fagmennsku, heiðarleika og sanngirni. Við þurfum að forðast alhæfingar og óábyrgar ályktanir. Formaður KÍ boðar betri tíma og vonandi verður málaflokkurinn rannsakaður svo varpa megi ljósi á algengi ofbeldis í garð kennara hér á landi. Tölur frá hinum Norðurlöndunum eru skelfilegar og nokkuð samstíga.
Margir hér á landi efast stórlega um að ofbeldi í garð kennara eigi sér stað og séu undantekningatilfelli ef satt reynist. Deila má um hvað séu mörg og fá tilvik. Stóryrtir kennarar hafa talað um að fólk eigi ekki að vinna með börnum tali það um að börn beiti ofbeldi. Gagnsemi slíkra ummæla dæma sig sjálf og hjálpar engum, hvorki kennara né barni.
Annar málaflokkur af sama sauðahúsi eru ógnandi og hótandi foreldrar. Skólakerfið bregst oftar en ekki þeim kennurum sem verða fyrir því. Að foreldri geti ógnað og hótað kennara án afleiðinga er með ólíkindum. Margir kennara hafa mátt sætta sig við slíkt. Að stjórnsýslan skuli ekki grípa inn í þegar slík tilfelli koma upp er mörgum kennurum óskiljanlegt. Oftar en ekki eru þeir skildir eftir með foreldrar sem hafa niðurlægt og svívirt þá, ógnað og hótað. Það er vondur vinnuveitandi sem stendur ekki við bakið á sínu fólki. Væri dæminu snúið við að kennari gerðist sekur um athæfið væru stjórnendur og stjórnsýslan fljót að bregðast við, sem er gott. Samfélagið má ekki loka augunum fyrir því að misjafn sauður er í mörgu fé og á jafnt um foreldrar sem og aðra hópa samfélagsins.
Á lífsspekidagatali sem höfundur á segir: Þorðu að vera öðruvísi! Þorðu að styðja það sem þú veist að er rétt! Gott að tileinka sér þennan boðskap þegar ofbeldi í garð kennara er annars vegar, þeir verða að finna stuðning frá stéttinni.
Hér má lesa leiðavísinn á heimasíðu Menntamálaráðuneytisins í Danmörku.
Höfundur er M.Sc. M.Ed. og starfar sem grunnskólakennari og situr í vinnuumhverfisnefnd KÍ fyrir hönd grunnskólakennara.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.