24.9.2018 | 21:02
Áfram um móttöku útlenskra barna
Hér að neðan er svar við grein fræðslustjóra Akureyrarbæjar við fyrstu grein minni en fræðslustjóri telur vel á móti börnunum tekið. https://www.vikudagur.is/is/frettir/akureyrarbaer-tekur-vel-a-moti-erlendum-bornum
Svo rætist hver draumur sem hann er ráðinn. Ekki laust við að mér hafi dottið þetta orðatiltæki í hug eftir að hafa lesið svar fræðslustjóra við grein minni um móttöku útlenskra nemenda. Með sanni má segja að grein mín vakti athylgi, áhuga og umræður. Það er gott. Við lögum ekki það sem við ræðum ekki og vitum ekki um.
Tölfræði og veruleikinn
Þeir sem aðhyllast tölfræði glöddust yfir svari fræðslustjóra og fínt að hann bætti við mína grein. Tölurnar sem birtust í greininni dreg ég ekki í efa, en ekki er það einum bót þó annar sé verri. Hins vegar má geta að fámennir skólar eins og Finnbogastaðaskóli, skólarnir í Hrísey og Grímsey, og fleiri fámennir skólar, skekkja meðaltal nemenda á hvern kennara hér á landi. Betra er að einbeita sér að hinum einfaldari hliðum málsins og ræða fjölda nemenda á umsjónarkennara á Akureyri. Grunnskólakennarar telja það gefa skýrari mynd af stöðu mála hér í bæ.
Tvítyngi
,,Þegar börn læra fleiri en eitt tungumál verða þau tvítyngd. Sum börn eiga eitt móðurmál sem þau læra hjá foreldrum í heimaranni og bæta síðan öðru tungumáli við, tungumáli samfélagsins. Önnur tileinka sér tvö tungumál samhliða og eiga því tvö móðurmál, oftast vegna þess að foreldrar eru af sitt hvoru þjóðerni. Svo eru börn sem eiga tvö móðurmál og tungumál samfélagsins sem þriðja mál. En oft eru skil á milli tungumála í lífi barna ekki svo skýr (Sigríður Ólafsdóttir og Freyja Birgisdóttir, e.d.).
Samkvæmt tölum Akureyrarbæjar, Akureyri í tölum- október 2015, eru tvítyngdir nemendur í leikskólum bæjarins á árunum 2006-2014, 667 samtals. Af þessum börnum eru 521 komin inn í grunnskólann. Fjöldi tvítyngra barna er nánast sami fjöldi nemenda og voru í Glerárskóla og Oddeyraskóla á þessum tíma. Þróunin er í takt við tilfinningu og upplifun grunnskólakennara að útlenskum nemendum sem hafa ekki góð eða engin tök á íslensku, mæltu og rituðu máli, fjölgi í grunnskólanum með tilheyrandi erfiðleikum.
Skoðum tölfræðina
Fræðslustjóri upplýsir að 4,4 stöðugildi séu eingöngu vegna útlenskra barna sem er vel, svo langt sem það nær. ,, Í heildina eru því um 4,4 stöðugildi sem eingöngu er ætlað að koma til móts við þarfir erlendra barna. Hins vegar væri áhugavert að sjá hvernig þessi stöðugildi skiptist á milli grunnskólakennara og stuðningsfulltrúa. Það kom ekki fram. Í ljósi orða fræðslustjóra um fjölda stöðugildi skulum við skoða málið.
Notum tölur sem eru ekki fjarri lagi. Á sjö skóla gera 4.4 stöðugildi um 60% stöðugildi í hvern skóla. Sé um stöðugildi grunnskólakennara að ræða er það fimmtán og hálf kennslustund á viku auk undirbúnings fyrir hverja kennslustund. Gefum okkur að meðalfjöldi útlenskra nemenda sem þarf viðbótar íslenskukennslu sé 15 í hverjum skóla. Út frá gefnum forsendum er ein kennslustund á nemanda í hverri viku. Mörgum kann að þykja vel að verki staðið, öðrum ekki.
Sé um stöður stuðningsfulltrúa að ræða þá er vinnuframlag þeirra í 60% starfi um 24 klst. Rétt rúmar tvær klst. fara í undirbúning sem þeir eiga samkvæmt kjarasamningi (eiga rétt á 4 klst. á viku í 100% starfi). Sé þessum tæpu 22 klst. deilt niður á 15 nemendur er um 1.5 klst. á hvern nemanda hverja einustu viku. Þess má geta að stuðningsfulltrúar eiga ekki að sinna kennslu samkvæmt kjarasamningi þeirra, þeir eru grunnskólakennurum til stuðnings. Feli skólastjórnendur stuðningsfulltrúa íslenskukennslu, eða aðra kennslu, er um brot á kjarasamningi að ræða. Vel í lagt, um það eru menn ekki sammála, sem er í góðu lagi. Þessum 4.4 stöðugildum er ætlað að koma á móts við allar þarfir útlenskra nemenda samkvæmt fræðslustjóra.
Kennslustundir sem bærinn úthlutar
Fræðslustjóri segir í grein sinni, ,,...eru 89 kennslustundir á hverri einustu viku ætlaðar til kennslu erlendra barna í grunnskólum bæjarins... Eins og í fyrra dæminu gefum við okkur að 15 nemendur séu í hverjum skóla sem þurfa á viðbótar íslenskukennslu að halda. Hver skóli fær rétt rúmar 12 og hálf kennslustund sem deilist á nemendur innan skólans, sem hafa mismikla þörf fyrir íslenskukennslu en allir einhverja. Samkvæmt þessum tölum og skiptingu er tæp kennslustund á nemanda hverja einustu viku. Einhverjum kann að þykja vel í gefið, öðrum ekki.
Ef ég gerist svo djörf að skoða tölur bæjarins í samhengi við fjölda tvítyngdra nemenda á leikskólunum 2015 (521 barn) í tengslum við 89 kennslustundirnar sem ætlaðar eru á hverri einustu viku þá sýnist mér syrta enn frekar í álinn fyrir útlenska nemendur, gefi ég mér að þau þurfi öll einhvern stuðning í íslensku.
Stend við orð kennara
Fullyrðing kennara, að bæjarfulltrúar vilji ekki gera betur, er sett fram eftir samtal við grunnskólakennara sem hafa fengið þau svör að ekki sé hægt að bæta við t.d. íslenskukennslu eða stuðningi í bekk þar sem ekki fást fleiri tímar. Þar sem kjörnir fulltrúar deila út peningum bæjarins er ekki flókið að sjá hver stjórnar og tekur ákvörðun. Hvort formleg beiðni hafi borist til kjörinna fulltrúa um aukið fjármagn skal ósagt látið en það er í höndum stjórnenda. Kannski hefur sú beiðni ekki litið dagsins ljós.
Ekki er hægt og það á ekki að draga einhvern einn til ábyrgðar í svo viðamiklum málaflokki. Við sem störfum í skólakerfinu eigum öll okkar þátt í að málaflokkurinn sé ekki í betri farvegi en raun ber vitni samkvæmt grunnskólakennurum. Eftir höfðinu dansa limirnir og við grunnskólakennarar þurfum að kryfja okkar þátt.
Skólafólk fagnar að stjórnendur bæjarins úthluti stuðningstímum til þeirra sem hafa ekki greiningu, eins og fram kom í grein fræðslustjóra, því vissulega þarf einhver hluti nemenda stuðning þó greining liggi ekki fyrir. Og ekki er hægt að fá greiningu á allt. En, það er ekki þar með sagt að það sé nóg, enda kemur hvergi fram hve tímafjöldinn er á þá 10 skóla sem bærinn rekur. Það er trú mín að við náum árangri með því að brjóta efnið til mergjar frá öllum sjónarhornum. Útlenskum nemendum hefur fjölgað á Akureyri og margir grunnskólakennarar eru þeirrar skoðunar að skólakerfið hafi ekki mætt fjölguninni nægilega vel. Sérgreinakennarar fá mjög sjaldan stuðning í kennslu vegna nemenda, hvað þá útlenskra enda sýna tölur fræðslustjóra að ekkert svigrúm er til þess eigi að nota tímana í íslenskukennslu.
Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku, sérstaklega tungumál af öðrum stofni, þurfa nokkuð mörg ár til að ná þeirri færni í íslensku sem skólakerfið krefur þau um. Hvergi má slá slöku við í íslenskukennslu og stuðningi við þessa nemendur á meðan skólaganga þeirra stendur yfir, hvort sem það er eitt ár eða tíu. Víða erlendis eru sérmenntaðir kennarar ráðnir til að sjá um kennslu barna sem eiga annað móðurmál en er talað í landinu sem þau búa.
Ég tel að góður stjórnandi og yfirmenn menntamála ættu að fagna þegar skoðunum er komið á framfæri um það sem betur má fara í grunnskólum. Góður stjórnandi, að mínu mati, myndi setjast niður með starfsmönnum sínum og spyrja út í hvar skóinn kreppir, hvað þarf til að bæta vinnuumhverfið í kringum málaflokkinn og svo framvegis. Stór þáttur í vellíðan á vinnustað ásamt sveigjanleika. Mér skilst á fræðunum að til séu margir stjórnunarhættir og því vinnum við undir ólíkri stjórnun.
Að lokum. Ég fagna lokaorðum fræðslustjóra um að betur megi gera í málaflokknum og því hvet ég forsvarsmenn bæjarins að kryfja málið til mergjar og hafa grunnskólakennara með í þeirri krufningu.
Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari og varaformaður BKNE
Heimild:
Akureyri í tölum. 3. tölublað. Sótt 18. sept. 2018 af https://www.akureyri.is/static/research/files/sept2015pdf
Sigríður Ólafsdóttir og Freyja Birgisdóttir (e.d.). Tvítyngi og læsi. Sótt 18. sept. 2018 af http://lesvefurinn.hi.is/node/147
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.