Í upphafi skólaárs- grunnskólakennarar hugsið ykkar gang!

Grunnskólar bæjarins eru hafnir. Sumum til gleði, öðrum til leiða. Um það er ekki spurt, við höfum starfsár sem þarf að fara eftir. Grunnskólakennarar eru væntanlega eina stétt bæjarins sem fær ekki greidda yfirvinnu, nema fyrir forfallakennslu að sjálfsögðu, en skilar oft fleiri tímum en þeir eiga að gera.

Vinna grunnskólakennara er víðfeðm og ekki hægt að búa til einfaldan ramma sem passar öllum. Grunnskólakennarar hafa gert sitt besta til að sinna nemendum sínum, foreldrum og bæjarfélaginu. Fyrir nokkrum árum ákváðu fulltrúar bæjarins að grunnskólakennarar notuðu vinnustund. Það er tæki sem mælir vinnuframlag starfsmanna en greiðir ekki samkvæmt því, allavega ekki grunnskólakennurum. Mikil óánægja er með þá ráðstöfun bæjarins. Forsvarsmenn bæjarins virðast hafa tekið einhliða ákvörðun, grunnskólakennurum er ekki greitt aukalega þrátt fyrir aukið vinnuframlag. Forsvarsmenn bæjarins hafa líka tekið þá ákvörðun að ekki skuli greiða aukalega fyrir stigsstjórn eða formennsku í vinnufrekum nefndum, s.s. umhverfisnefnd. Allt á þetta að rúmast innan hefðubundins vinnutíma.

Vinnutími grunnskólakennara er annar en venjulegs launamanns. Grunnskólakennari þarf  að skila tæpum 43 stundum á viku til að vinna upp í haust- jóla- vetrar- og páskafrí. Þeir fá ekkert gefið eins og margir vilja halda fram. Grunnskólakennarar eins og aðrar stéttir vinna fyrir sínum fríum. Hins vegar fá grunnskólakennarar ekki að velja fríin sín, sveitarfélagið ákveður þau. Grunnskólakennari á að sinna endurmenntun, 102-150 stundum eftir orlofsrétti, sem bætist við vinnuframlagið. Grunnskólakennari skilar 1800 vinnustundum á ári.

Grunnskólakennarar eru þeir einu sem geta passað upp á vinnutímann sinn. Geri þeir það ekki gefa þeir bæjarfélaginu vinnu sína. Engin ástæða til þess. Grunnskólakennari sem vinnur mörg ár umfram lögboðins vinnutíma brennur út, því álag er mikið í kennslu. Við þekkjum öll að við fall á loftþrýstingi í flugvél setjum við grímuna fyrst á fullorðna fólkið og svo á börn séu þau með í för. Það er gert til að við séum í ástandi til að aðstoða þau. Sama má segja um kennara, hugsaðu fyrst um þig svo þú getir hugsað um nemendur þína.

Ágæti grunnskólakennari taktu málið í eigin hendur, skerðu niður verkefni, lengdu tíma yfirferða á verkefnum nemenda, settu foreldrum skorður og farðu ekki í vinnupóstinn eftir að vinnu lýkur eða áður en hún byrjar. Svaraðu aldrei á snjáldursíðu utan vinnutíma hafi bekkurinn eina slíka, hvað þá smáskilaboðum eða símtali. Skoðaðu heildarskipulagið og sjáðu hvort ekki megi sleppa eða breyta einhverju þannig að verkefnin falli innan vinnustundarinnar.

Öll vinna grunnskólakennara á að rúmast innan tæpra 43 stunda vinnuviku!

Njótið skólaársins.

Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari og varaformaður BKNE.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband