Móðir dæmd fyrir heimilisofbeldi- handvömm lögreglu gegn kærendum

Einu sinni á ævi minni hef ég farið í skýrslutöku hjá lögreglu. Tilefnið var ekki gott. Barnsmóðir sonar míns hafði ruðst inn á heimilið og ætlaði að ná í barn sitt sem var hjá föður þess. Hún var beðin að bíða, hann myndi koma með barnið niður. Áður hafði hún kallað á starfsmann Barnaverndar Reykjavíkur sem var í íbúðinni. Hún beið ekki heldur ruddist inn í íbúðina. 

Til að gera langa sögu stutta þá gekk barnsmóðir sonar míns fram með offorsi, barði hann, dóttur mína sem var með barnið í fanginu og engu mátti muna að höggin lentu á höfði þess. Þau komu sér í skjól á klósettinu og læstu. Þar var sungið og talað til að leiða hugann frá látunum frammi. 

Höggin féllu. Húsgögnum og tölvuskjá velt og hlutum kastað. Lögregla kölluð til og barnsmóðirin færð út af tveimur lögreglumönnum. Heimilisofbeldi um það deilir enginn. Starfsmaður barnaverndar vitni af öllu saman. 

Nú tók við skrautlegur kafli í lífi okkar. Sem eigandi íbúðarinnar kærði ég fyrir eignaspjöll. Sonur minn og dóttir kærðu fyrir ofbeldi. Barnabarn mitt gat ekki kært þar sem ofbeldismaðurinn fór með forsjánna og enginn sem gat kært fyrir það. Litla skinnið mátti sitja uppi með andlegan skaða af framferði móðurinnar. 

Þegar á lögreglustöðina kom mætti okkur rannsóknarlögreglumaður. Við mæðgur vorum saman og reifuðum málið. Hakan datt niður á bringuna. Hann dró úr okkur að kæra. Rannsóknarlögreglumaðurinn reyndi að færa rök fyrir því að málið tengdist forsjárdeilu og það hefði lítið upp á sig að kæra, og hana nú. Hann skaust frá og á meðan spurði ég dóttur mína hvort hún hefði sömu tilfinningu og ég, að við ættum ekki að kæra þetta ofbeldi. Sú var raunin. 

Lögreglufulltrúinn snéri aftur og þá spurði ég hann hreint út hvort hann tæki málstað móðurinnar, ofbeldismannsins. Það kom fát á hann og sagði ekki svo vera. Yfirheyrslurnar í þessu máli voru allar með ólíkindum og hefði ég ekki sjálf verið í hringiðunni hefði ég ekki trúað þessu. Móðurinni var gert málið auðvelt á meðan við þrjú máttum berjast fyrir rétti okkar hjá lögreglunni. Málinu vísað frá. Ég var ekki sátt, eins og gefur að skilja.  

Þá hófst ferli að kæra niðurstöðu lögreglunnar til ríkissaksóknara. Sem betur fer sá hann ástæðu til að taka málið upp að nýju og nú átti að kalla til vitni, starfsmann barnaverndar og hlusta á  hringingar sonar míns til 112. Á upptökunni mátti greina högg dynja á meðan samtalið stóð yfir. Lögreglan hafði ekki kallað vitni til skýrslutöku því þeir vildu fella málið niður. Hjarta lögreglunnar sló með ofbeldismanninum, móðurinni. 

Yfirmenn rannsóknarlögreglumannsins sáu ekki ástæðu til að skoða málið frekar þegar ég kvartaði undan vinnubrögðum hans og það sýnir meðvirknina sem ríkir innan lögreglunnar. Vonandi hefur þetta breyst. 

Málið fór fyrir dómstóla og móðirin kærð fyrir heimilisofbeldi. Dómurinn hljóðaði upp á tvö ár skilorðisbundinn, sek í öllum atriðum. Hún hefur afplánað dóminn.  

Lögrelgan stóð sig afar illa í þessu máli sem gaf mér aðra sýn á starf þeirra. Að menn í opinberu starfi skuli voga sér að taka afstöðu eins og lögreglan gerði í þessu máli er hreint með ólíkindum. Mín reynsla ýtir undir umræðuna í samfélaginu að ekki er sama hvort þú ert kona eða karl þegar kemur að ofbeldi, á líka við um dóma.  Eftir lestur nokkurra dóma er tilhneigingin að konur komi alltaf betur út úr dómskerfinu. Jafnréttinu virðist ekki náð á þessum vígstöðvum. 

Lögreglan virðist hafa þá skoðun þegar heimilisofbeldi er annars vegar að karlmaðurinn sé sá seki. Rannsókn sem sagt var frá í sjónvarpinu, þættinum Horft til framtíðar, sýnir það sama. Hugsunarvilla hjá lögreglumönnum. Hér má sjá brot úr þættinum sem fjallar nákvæmlega um þetta, https://drive.google.com/file/d/1hdwHosV1n5dv7SPRCfJLK-WjNN3YzTzU/view  

Jafnvel þó karlmenn séu með áverka skal konunni trúað. Slíka hugsanavillu þarf að uppræta innan lögreglunnar og taka þarf á málunum eins og þau koma fyrir ekki eins og lögreglan telur að þau séu eða þeir sannfærðir um af hálfu konunnar. Hvað þarf til það er spurning! Ég skora á lögreglu og dómstóla að skoða af hverju konur fá sérmeðferð þegar kemur að ofbeldismálum, einhver skýring hlýtur að liggja þar að baki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband