3.11.2016 | 19:55
Tímaskortur fer með kennara...að lokum!
Tæknin, kennari og vinnuveitandi.
Í síðustu viku sat ég á ráðstefnuna ,, Hagnýt notkun upplýsingatækni í skólum í Háskólanum á Akureyri sem var í samvinnu við Þekkingu. Ráðstefnan var auglýst með þessu móti. ,,Í samvinnu við Þekkingu er þér boðið til ráðstefnu um hagnýta notkun upplýsingatækni í skólastarfi þar sem meðal annars verður farið um Office 365, OneNote for Classroom, Minecraft, Microsoft Innovative Educator verkefnið, Microsoft Classroom og margt, margt fleira. Þá munum við fá að heyra reynslusögur frá skólum sem þegar nota Office 365. Allt hljómar þetta vel og ekki síður spennandi að fá innsýn í hagnýta notkun upplýsingatækninnar og áfram heldur auglýsingin. ,,Upplýsingatækni vegur sífellt þyngra í skólastarfi og er nú sem aldrei fyrr mikilvægt fyrir skólastjórnendur og kennara að vera með puttann á púlsinum og fylgjast með því hvernig tæknin getur hjálpað til við að gera skólastarfið bæði skemmtilegra og léttara." Áhugavert í alla staði og ég sé ekki eftir að hafa setið þarna í rúma tvo og hálfa tíma.
Það sem hins vegar situr eftir er hvernig ég, sem grunnskólakennari, á að bjóða nemendum kennslu þar sem tæknin hjálpar mér að gera skólastarfið skemmtilegra. Í þeim skóla sem ég kenni eru 14 spjaldtölvur í boði fyrir 400 nemendur. Það eru tvö tölvuver sem kennarar panta til að geta kennt upplýsingatækni og afgangstíma geta aðrir kennarar notað til að nota tæknina í kennslu. Svo er ekki á vísan að róa að stofan sé laus þegar kennari er í kennslu. Ég neita því ekki tæknina hef ég notað. Þegar nemendur fá spjaldtölvurnar verða þeir að vera tveir með eina því líklegra er að ég geti notað þær en tölvuverin. Galli á gjöf Njarðar, nemendur hafa oftar en ekki þurft að fara úr kennslustofunni fram á gang, inn á aðra ganga og dreifa sér um skólann til að halda tölvunum nettengdum með tilheyrandi óþægindum og tímaeyðslu. Það er þó betra en engin nettenging.
Kennslu er víða ábótavant í upplýsingatækni og í sumum skólum er enginn upplýsingatæknikennari að störfum. Sumum finnst engin þörf á að ráða slíkan kennara heldur telja að þessari kennslu sé vel varið í höndum umsjónarkennara hvort sem þeir hafa getu til að kenna upplýsingatækni eður ei. Oft leiðir það af sér að enga samfellu er að finna í upplýsingatæknikennslunni og enginn ber ábyrgð á henni sem fagi. Afgangsstærð eins einkennilega og það hljómar 2016 (bráðum 2017) og í ljósi þess sem Þekking t.d. auglýsti.
Ég sem grunnskólakennari hef ekki fengið tæki í hendur sem ég get notað í skólastarfinu, hvorki til að gera námið léttara eða skemmtilegra. Borðtölvan býður ekki upp á mikla möguleika en kannski er það bara fyrirsláttur í mér. Margir myndu eflaust sjá möguleikana við að varpa upp á skjá alls konar námsefni. En hvað með nemandann sem á að vinna á tölvu samhliða námsefninu? Jú einstaka nemandi getur það ef hann á snjallsíma eða eigin spjaldtölvu og er tilbúinn að nota tækin í skólanum. Kannski mála ég skrattann á vegginn og þarf bara að opna hug minn og hjarta gagnvart tækninni.
Þegar ég sit svona ráðstefnur, sem sýna alla þá möguleika sem eru í boði, þyngist brúnin. Ég er komin af léttasta skeiðinu og vinna við tölvur lærðist seint og vistun í skýjum eitthvað sem þarf að venja sig við. Ekki að ég sé svo vitlaust að ég geti ekki lært það, sei, sei, nei. Hins vegar þarf að gefa mér tíma til að læra og þreifa mig áfram því ég fæ ekki námskeið til að læra þetta frá vinnuveitanda mínum. Nýjasta dæmið er Office 365 sem var til kynningar á ráðstefnunni. Bæjarfélagið sem ég vinn hjá ákvað að taka það í þjónustu sína og ekki svo mikið sem ein kennslustund hefur farið í að kenna okkur að nota verkfærið. Mér þykir ekki passa að ég eyði frítíma mínum í uppgötvunarnám til að læra á verkfæri sem ég á að nota í vinnunni, því finnst mér vinnuveitandinn ekki hafa staðið sig sem skyldi. Það myndi enginn bankagjaldkeri sitja heima og læra á nýja tækni eða hugbúnað sem bankinn innleiddi til að geta notað það í vinnunni. Nei þeir læra þetta á vinnutíma.
K-3 er nýjasta útgáfan í Mentor sem grunnskólakennarar í mörgum skólum eiga að vinna með. Sama saga þar, breytingar frá fyrri útgáfu og uppgötvunarnámið er í fyrirrúmi. Hef ekkert á móti uppgötvunarnámi og tengingu við reynslu, ég er ósátt við að enginn tími er reiknaður fyrir slíkt nám fyrir kennara.
Endurmenntun grunnskólakennara er í höndum sveitarfélaganna. Samt sem áður hefur vinnuveitandi minn ekki sýnt snefil af áhuga að halda úti áhugaverðum og hagnýtum námskeiðum til að uppfylla kjarasaminginn. Og hafi kennari áhuga á að sækja námskeið þá greiðir sveitarfélagið ekki fyrir það og alls ekki ferðakostnað sé námskeið utan sveitarfélagsins. Því er framboðið mjög takmarkað.
Vinnuveitandi minn hefur fengið aðra grunnskólakennara til að sjá um hluta endurmenntunarinnar og kallar það jafningjafræðslu. Kennarar hoppa á þetta og, að mínu mati, gefa vinnuveitanda vinnuna. Kennari hefur heimild til að skrá tíma fræðslunnar sem endurmenntun og fjórfalda hann. Það er ljóst að sveitarfélögin spara mikla fjármuni á jafningjafræðslunni sem er góð svo langt sem hún nær.
Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari.
Skólakerfinu að blæða út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.