Stórt skref frammá við hjá umönnunarstéttum...tannheilsa!

Undirrituð situr í faghópi á vegum embætti Landlæknis um betri tannheilsu þeirra sem aldnir, sjúkir og fatlaðir eru. Vinnan hefur staðið í nær tvö ár. Erlendar rannsóknir sýna að menntun, þekking, hæfni og færni umönnunarstétta er ekki nægileg þegar kemur að munnholi skjólstæðinga þeirra. Léleg tannheilsa þessara hópa leiða til kvilla sem hægt er að komast hjá með betri og meiri þekkingu um munnhol.

Á komandi árum fjölgar þeim sem eru með eigin tennur, plantaðar tennur og alls konar útfærslu tanna í munni. Áhersla undanfarinna ára, að einstaklingur haldi sínum tönnum með þeim ráðum sem tannlæknar hafa, er mikil. Þetta skapar ákveðin vandamál á stofnunum og heimahjúkrun svo dæmi séu tekin. Menntun umönnunarstétta um munnhol tekur ekki mið af þessari þróun.

En alltaf sést til sólar. Nú á vordögum sendi fulltrúi menntamálaráðuneytisins tilmæli til skóla, sem mennta félags-og sjúkraliða, um breytta áherslu í námi. Lagt er til að skólarnir taki upp áfanga sem tekur á fræðslu um munnhol og þá krankleika sem hrjáð getur einstakling, s.s. munnþurrk, bólgið tannhold. Auk þess er kennt að umgangast munnhol og tæki sem hægt er að nota við munnhirðu eins og hér um ræðir.

Kristrún Sigurðardóttir tannfræðingur og brautarstjóri Tanntæknibrautar FÁ lagði fram drög að áfanga sem skólunum er bent á. Hólmfríður Guðmundsdóttir tannlæknir hjá embætti Landlæknis situr í faghópnum og hefur lagt sitthvað á vogaskálarnar. Sjálf er ég menntunarfræðingur, með diplómu í heilbrigðisvísindum og sjúkraliði. Þessi breiða menntun gagnast hópnum vel í markmiðssetningu á náminu.

Þegar við löguðum upp með vinnuna vonuðumst við eftir að fá ,,sérfræðinga" innan stofnanna sem gætum miðlað þekkingu og fræðslu um munnhol. Hugmynd okkar var 2 anna nám með breiða þekkingu um munnhol, tæki og tænki sem nota má við munnhirðu. Sú þekking átti ekki að fara til spillis því hefði viðkomandi áhuga á tanntækninámi gæti sá hinn sami, ef hann er sjúkraliði, byggt brú á tanntæknibrautina. Því miður varð ekki af þessu vegna andstöðu ákveðinna hópa. En dropinn holar steininn og ég hef þá trú að einn góðan veðurdag verður þetta stærri þáttur í námi umönnunarstétta, enda ekki vanþörf á.

Helga Dögg Sverrisdóttir 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband