Nei takk ekki fæðingardeildir um allt land...

Ég er algerlega ósammála því að þjóðin haldi úti fæðingarstöðum um allt land. Þessi viðburður gerist að jafnaði tvívegis hjá einni konu. Að halda úti fæðingardeild er ekki alveg ókeypis fyrir þjóðina og því geta konur komið sér á væntanlega fæðingarstaði áður en til fæðingar kemur. Svo oft gerist það nú ekki að kona fæði í bíl, það er gert fréttnæmt til að koma ákveðnum stöðum í sviðsljósið. Umrædd kona á Sauðárkróki segir þetta ekki boðlegt, jú mér finnst það. Hvað gera konur í Grímsey, Siglufriði, Þórshöfn o.f.l stöðum það sem ekki er fæðingaraðstaða. 

Þar sem við eigum ekki nóg af peningum í sameiginlegum sjóði verðum við að vega og meta í hvað peningarnir fara, fæðingardeildir víðs vegar um land er ekki eitt af því.  Hér verður að forgangsraða og þetta er langt frá því að vera efst á lista. Heilbrigðar konur sem fæða barn, engin vorkun.

 

Kveðja, Helga Dögg 


mbl.is Ferðast um langan veg til að fæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er sorglegt að lesa svona þvætting. Það að þú vitnir í meðaltöl varðandi fæðingar segir mér hversu illa þú ert að þér varðandi málefnið.

,,að meðaltali" getur þýtt að engin kona á landsbyggðinni eignist barn, eða að flest börn á hverja konu fæðist þar. Dreifing barnsfæðinga og fjöldi barna á pr. konu yfir landið kemur þar hvergi fram

Ég er landsbyggðarkona sem hef 4 sinnum fætt barn, einu sinni í Rvk en í hin skiptin ekið frá Þórshöfn til Akureyrar mörgum dögum fyrir settan dag til að bíða komu væntanlegs barns. Ekki var í boði að fæða á Húsavík þar sem deildin þar stendur okkur ekki til boða og því var Akureyri næsti viðkomustaður. Það er u.þ.b 240 km frá heimili okkar. Í þessi 3 skipti þurftum við að redda húsnæði sem oftast var sumarbústaður í Kjarnaskógi, sem kostar allavega 20.000 kall á viku og oft þurftum við að skipta og flytja yfir í íbúð ef fæðing dróst og við ekki lengur með bústaðinn að láni. Við þurftum að taka börn með í öll 3 skiptin því ekki gátum við skilið þau eftir heima, og maðurinn minn tók launalaust frí til að við gætum verið saman. Á meðan greiddum við ennþá af húsnæði okkar heima þannig að greiðslubyrði á þessum tíma var ansi há, auk þeirra útgjalda sem fylgja svona löngum ,,ferðalögum".  Ég hvíldist lítið því ég þurfti að hugsa um að hafa ofan af fyrir hinum börnunum í bústaðnum og því var ég þreytt og orkulaus þegar að fæðingunni kom, og áhyggjufull yfir því hvar börnin ættu að vera á meðan við værum á fæðingardeildinni.

Þessi mál leystust, en þó var erfitt að eiga við það þegar yngsta barnið fæddist en þá fór það á vökudeild og því lengdist dvöl okkar í bænum. Brugðum við á það ráð að fá foreldra mannsins til að keyra frá Þistilfirði til að sækja börnin til Akureyrar svo við gætum einbeitt okkur að því nýfædda.

Stressið og áhyggjurnar hafa alltaf verið miklar í kringum fæðingar. Þetta er mikill aukakostnaður sem leggst á fjölskyldur, og hvað þá ef fæðing á sér stað á vetrartíma þegar ófærð og veður hamla samgöngum. Þess vegna heyrum við æ oftar af börnum sem fæðast í flugvélum, sjúkrabílum eða á heimilum fjarri sjúkrahúsum. Guði sé lof að það er sjaldgæft að þessi börn þurfi hitakassa strax við fæðingu, eða bráðaaðgerð!!

Að koma með svona andskotans þvælu eins og þú skrifar hér að ofan veldur mér hugarangri. Að kona skuli mæla með niðurskurði fæðingardeilda á landsbyggðinni er sorglegt. Að skera niður varðandi þann hlut sem fylgt hefur mannkyninu, þ.e. fæðingar og umönnun kvenna og nýbura, er að mínu mati heimskulegt og ber vott um fáfræði, skilningsleysi og skort á  skynsemi.  

Kristín Heimisdóttir (IP-tala skráð) 18.6.2013 kl. 14:25

2 identicon

Athyglivert að sjá þetta viðhorf frá sjúkraliða á landsbyggðinni.

Það hefði verið gaman að sjá smá röksemdafærslu með þessu. Til dæmis hvað heilbrigðisstarfsmanninum þætti viðeigandi vegalengd (í mínútum) frá næstu fæðingardeild og örlitla útlistun á því hvernig væri hægt að útfæra það að flytja barnshafandi konu á fæðingardeild með góðum fyrirvara. Ég vona að hún sé ekki að leggja það til að barnshafandi konur verði taldar sjúklingar og því beri að leggja þær inn á sjúkrahús, en hvað veit ég?

Ef allt væri tekið með í reikninginn er ég ekki viss um að lokun fæðingadeilda á Sauðárkróki og fleiri stöðum spari raunverulega fyrir ríkið þegar öllu er á botninn hvolft. Tölurnar fyrir einstaka stofnanir skána kanski örlítið, en ef kostnaðurinn sem velt er yfir á foreldrana væri tekinn með, eða tap samfélagsins af vinnustoppi einstaklinganna, er sennilegt að samfélagið í heild sinni tapi á samdrætti í heilbrigðisþjónustu.

Þér virðist þykja það í fínu lagi, Helga, að verðandi foreldrar á landsbyggðinni þurfi að kosta meira til en þeir sem búa skammt frá fæðingardeildum. Það er svo sem þekkt viðhorf að segja einfaldlega "þú valdir að búa þarna" en mér finnst persónulega að það séu frekar döpur rök og finnst þessi hugsunarháttur ekki eiga heima í því samfélagi sem ég vil búa í.

Þorsteinn T. Broddason (IP-tala skráð) 18.6.2013 kl. 16:29

3 identicon

Væri þá ekki ráð að byrja á að loka þessum fæðingardeildum í RVK...flestar fæðingar=mesti kostnaðurinn. Hlýtur þá að vera hægt að spara mest þar.

Ingvar (IP-tala skráð) 18.6.2013 kl. 23:46

4 identicon

Ertu alveg að tapa þér Helga mín,hvernig getur svona lagað komið frá yfirleitt fremur skynsamri konu??Eigum við að horfa í kostnaðinn eingöngu og taka hann jafnvel fram yfir líf og limi  kvenna sem eru í fjölgunarhugleiðingum??Hvað heldur þú að kosti að kalla til sjúkraflug í tíma og ótíma til að koma þeim öllum á einn eða tvo staði til að fæða,fyrir utan eitt sem þú að mínu mati horfir alveg framhjá,eigum við alltaf að verðleggja mannslífin??Ef það er hugmyndafræðin að baki þessu,þá er eins hægt að krefjast þess að allir Íslendingar búi á sama frímerkinu,er það eitthvað sem hugnast þér kannski??Nú varð ég virkilega fyrir vonbrigðum,það hefur verið gaman að þrasa við þig oft á tíðum,en þetta er einfaldlega ekki í boði vona ég,sama hvaða apar eru við völd.

Elín Anna Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 19.6.2013 kl. 11:07

5 identicon

Ég vildi óska að við ættum það mikla peninga að við getum opnað fæðingardeildar og vökudeildir á öllum stöðum...óskastaða. Eins væri óskastaða að opna krabbameinsmeðferðir á öllu stöðum þar sem sjúkrahús eru. Ég vildi óska að við gætum opnað bæklunardeildir á öllum stöðum þar sem skurðstofur eru. Ég vildi óska að við hefðum svæfingarlækni á hverju strái þannig að við séum viðbúin öllu sem upp kann að koma í íslensku samfélagi. En óskalistinn minn verður aldrei uppfylltur. Ég er alls ekki á móti því að hafa sem besta heilbrigðisþjónustu en í víðu samhengi þá kostar hún peninga. Við verðum að mínu mati að forgangsraða.

Að búa á landsbyggðinni eða í RVK er valkostur hvers og eins með þeim göllum og kostum sem því fylgja, hvort sem þú fæðir barn, ert krabbameinssjúkur, fótbrotinn, þarft fagfólk til að sinna þér o.s.frv. Veit vel að ég kem við kauninn á mörgum og verður svo að vera. Sem betur fer eru ekki allir á einu máli um hvernig skuli forgangsraða, þá væri lífið einfalt. Heilbrigðisstarfsmönnum er nefnilega heimilt að hafa þá skoðun að kerfið megi vera öðruvísi en það er í dag.

Vissulega getum við nefnt dæmi, bæði góð og slæm, en stundum er fórnarkostnaður og við það verðum við að búa.

Kristín, hvað meðaltal varðar sést þetta hjá Visindavefnum, þannig að 2005 voru rétt rúmar 2 fæðingar á konu;

,,Tafla 1. Fjöldi fæðinga, fæðingartala og heildarfæðingartíðni á Íslandi.

2005 4280 - 2,052

2004 4234 14,5 2,033

2003 4143 14,3 1,990

2002 4049 14,1 1,932

2001 4091 14,4 1,948

2000 4315 15,3 2,076

1999 4100 14,8 1,994

1998 4178 15,3 2,048

1997 4151 15,3 2,040

1996 4329 16,1 2,119

1995 4280 16,0 2,080

1994 4442 16,7 2,143

1993 4623 17,5 2,222

...

1983 4371 17,8* 2,243

...

1960 4916 28,1* 4,265

...

1858 2586* 38,7* 5,687

Sé litið til síðustu 10 ára hefur ekki dregið úr árlegum heildarfjölda fæðinga. Á Íslandi hefur fjöldi fæðinga á ævi hverrar konu samt aldrei verið minni en síðasta áratuginn, en á þessu tímabili eignuðust konur að meðaltali um 1,9-2,1 barn á lífsleiðinni."

Fæðingarnar dreifast á þá staði sem halda úti fæðingardeildum, flest að sjálfsögðu í RVK, þar sem sérhæfðasta aðstoðin er.

Allavega þetta er mín skoðun hvað varðar fæðingardeildir og hef ég prófað ólíkar deildir og ekið mislangt á þær til að eiga mín 4 börn.

Kveðja, Helga Dögg

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 19.6.2013 kl. 11:17

6 identicon

Á vef Landlæknis má lesa skýrslu um fæðingar. Hér set ég inn brot úr þeirri skýrslu en slík skýrsla er gefin út árlega.

,,

Umræða:

Fæðingastaðir á Íslandi árið 2011 eru einum færri en undanfarin ár og var enn hærra

hlutfall fæðinga á Kvennadeild LSH eða 73,3% en var 70,7% allra fæðinga árið áður. Á

Kvennadeild FSA fæddu 8,8% kvenna á landinu, sem er fækkun frá fyrra ári (10,7%).

Auk þessara staða dreifast rúmlega 15% fæðinga á 8 heilbrigðisstofnanir auk

heimafæðinga. Á Akranesi, Keflavík og Selfossi voru samtals 12% fæðinga landsins á

árinu 2011 sem er lítilsháttar fækkun frá árinu 2010 (13%). Fæðingum fækkaði heldur á

Akranesi, úr 7,4 í 6,8%, og í Keflavík í 3,1% úr 3,6 % en jukust aðeins á Selfossi í 2,1%

úr 2,0% fæðinga árið 2010. Á öðrum sjúkrastofnunum á landinu fæddu samtals 163

konur, sem er 3,7% allra fæðinga á landinu sem er lítilsháttar fækkun frá árinu áður

(3,9%). Fæðingum fjölgaði á Ísafirði milli áranna 2010 og 2011 (úr 55 fæðingum í 59) en

fækkaði verulega á Neskaupstað (úr 87 í 63). Svipaður fjöldi kvenna fæddi í

Vestmannaeyjum (úr 37 í 36). Fæðingar á Sauðárkróki voru fáar eða tvær en höfðu

verið fjórar árið 2010. Þrjár konur fæddu á Fæðingaheimilinu Höfn í Hornafirði en fjórar

árið 2010. Engin kona fæddi á Egilsstöðum, í Ólafsvík, á Húsavík, Blönduósi eða

Siglufirði, enda fara konur frá síðastnefndu þremur stöðum nú til Akureyrar til þess að

fæða. Fleiri konur fæddu utan sjúkrastofnana en árið áður eða 95 (86 árið 2010), þar af

ein á leið á fæðingarstað. Heimafæðingar eru 2,1% allra fæðinga á landinu, en voru

1,8% árið 2010. Flestar heimafæðinganna (69 eða 73%) voru á höfuðborgarsvæðinu

(tafla 3).

Landlæknisembættið hefur gefið út leiðbeiningar um val á fæðingarstað 2, þar sem

fæðingarstaðir eru flokkaðir miðað við aðstöðu og viðbúnaðarstig og leiðbeiningar

gefnar um æskilegan flokk fæðingarstaðar miðað við áhættuþætti kvenna."

Kveðja, Helga Dögg

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 19.6.2013 kl. 11:28

7 identicon

Hér má sjá betra yfirlit,svo og hve löng keyrsla er fyrir konur sem þurfa að fæða barn sitt http://www.althingi.is/altext/140/s/0379.html.

Það merkilega er að ekki er nægur gjöldi lækna til að halda úti þeirri þjónustu sem flestir vilja hana heima í héraði. Hverju ætli það sæti? Vek athygli á að fæðingum hefur fækkað töluvert á Akranesi og Akureyri miðað við tölur 2010.

Ekki er að finna tölur um hve langt krabbameinssjúklingur þarf að fara, dvelja lengi að heiman o.s.frv. þegar meðhöndlun á sér stað.

Ekki er heldur hægt að sjá hve margir þurfa að færa sig um set, eða fara um langan veg vegna geðheilbrigðisþjónustunnar, svo fátt eitt sé nefnt.

Keðja, Helga Dögg

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 19.6.2013 kl. 12:54

8 identicon

Smá gagnrýni á textann sem er í athugasemd nr. 6

Það að hlutfall fæðinga á FSA sé lægra árið 2011 en árið 2010 þarf ekki að þýða að fæðingum þar hafi fækkað milli ára. Ef heildar fjöldi fæðinga er meiri árið 2011 en árið 2010, gæti raunveruleikinn verið sá að fæðingum hafi fjölgað á FSA á milli ára, þó að þær séu lægra hlutfall af heildarfjöldanum. Það er reyndar ekki hægt að sjá það á þessum texta hvort það séu fleiri eða færri fæðingar á hverjum stað fyrr en fjallað er um Ísafjörð, Neskaupsstað, Sauðárkrók og Höfn.

Hvað varðar óskalistann þinn í athugasemd 5, þá ættir þú að lesa aftur athugasemdina mína ofar á síðunni. Það hefur aldrei verið sýnt fram á að þetta fyrirkomulag sé hagstæðara fyrir samfélagið í heild og þess vegna er ekki hægt að halda þeim rökum uppi að ekki sé hægt að sinna heilbrigðisþjónustu á fleiri stöðum.

Hvað varðar krabbamein, þá er þar um að ræða skelfilegan sjúkdóm sem kemur niður á fjárhag fjölskyldna svo um munar, jafnvel þó ekki þurfi að ferðast um langan veg til að sækja meðferð. Það sama gildir fyrir marga geðsjúkdóma. Þarna er um að ræða langvinna sjúkdóma sem þurfa sérhæfða meðferð.

Meðganga og fæðing er hinsvegar ekki sjúkdómur. Það skýtur því dálítið skökku við að nota þetta til samanburðar. Sér í lagi þar sem meðganga getur verið örlítið óútreiknanleg, það er stundum liggur börnunum þessi lifandis ósköp á að koma í heimin, á meðan önnur dvelja jafnvel lengur en góðu hófi gegnir í móðurkviði.

Þorsteinn T. Broddason (IP-tala skráð) 19.6.2013 kl. 16:52

9 identicon

Það er nú þannig Þorsteinn, þakka þér annars góð og málefnaleg rök, að krafist er lágmarksþjónustu til að halda úti fæðingardeild, sjá á síðu Landlæknis. Þar á meðal er læknir og svæfingarlæknir og því er ekki fyrir að fara víða um land. Að halda úti slíkri þjónustu vegna fárra fæðinga finnst mér ekki réttlætanlegt, þar sem um heilbrigða einstaklinga og ferðafæra er um að ræða. Mér finnst líka spurning, af hverju konur vilja fæða á fámennu sjúkrahúsi ef gæta á öryggis, þar sem viðeigandi þjónusta er ekki til staðar komi eitthvað upp á í fæðingunni. En vissulega eru skiptar skoðanir á málinu og er það vel.

Hvað varðar athugasemdir þín um 6. lið þá eru þetta gögn frá hinum opinbera. Öllum er ljós að fæðingum fækkar og ekki langt síðan að ég las frétt um enn færri fæðingar á FSA. Samkvæmt skjalinu þá fæða fleiri konur utan stofnanna en áður. Margar ástæður geta legið þar að baki.

Rétt ábending samlíkingin er ekki sambærileg en greiðslan er úr sama sjóði og því þurfum við alltaf að velja og hafna.

Kveðja, Helga Dögg

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 20.6.2013 kl. 13:09

10 identicon

Svona líta fæðingartölur á Íslandi út frá 2002-2011 og ljóst er að þeim fer fækkandi á milli ára þar til 2012, frá Hagstofu Íslands: Árið 2012 fæddust 4.533 börn á Ísland.

2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010 2011

Fjöldi fæðinga 3977 4080 4187 4241 4344 4498 4783 4939 4834 4421

Kveðja, Helga Dögg

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 20.6.2013 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband