7.2.2025 | 06:45
Alexandra, Alexandra Briem...að viðhalda lygi sem sannleik
Það var ótrúlega gott að lesa orð norska þingmannsins þegar hún sagði að lög hafi verið búin til um lygi sem sannleik. Eru Norðmenn ekki heppnir að hafa þingmann sem þorir, getur og vill? Að leiða sannleikann fyrir þjóð sína að nýju, kynin eru tvö.
Borgarfulltrúinn
Það er mikill misskilningur hjá Alexöndru Briem að greinarhöfundur neiti tilvist trans-fólks. Ekkert bannar borgarfulltrúanum að hafa þá skoðun eða aðrar skoðanir, en skoðun er ekki sama og sannleikur. Eigin skoðanir er ekkert sem þú getur krafist að aðrir samþykki eða undirgangist.
Hins vegar er nauðsynlegt að vekja athygli á, og spyrna við fótum, þegar börn, stúlkur og konur missa réttindi vegna trans-hugmyndafræðinnar víðs vegar um heiminn. Það flokkast undir staðreynd, ekki skoðun. Áhugavert viðtal þar sem farið er vítt og breytt um málaflokkinn.
Þó sannleikurinn sé sagður er það ekki virðingarleysi gagnvart öðrum hópum
Sá ótrúlegir misskilningur er í gangi að segi maður sannleikann sé tilvist annarra neitað. Meiri þvæla hefur sjaldan verið sögð. Þó þú sért ekki sammála lífsskoðun eða upplifun einhvers afneitar þú honum ekki. Þú ert ekki sammála viðkomandi í einu og öllu og lengra nær það ekki. Margir í samfélaginu viðurkenna ekki trúarbrögð, en neita ekki tilvist þeirra trúuðu. En þegar trúarbrögð, reglur eða lög hafa af öðrum réttindi, er sjálfsagt að spyrna við fæti.
Það gerðu konur, þær höfðu ekki kosningarétt. Það gerðu konur, þær máttu ekki taka þátt í íþróttum. Það gerðu konur með mörg önnur réttindi sem þær hafa náð með baráttu sinni. Konur hafa ekki farið fram á að aðrir hópar missi réttindi sín við að þær auki sín. Það gerði samkynhneigt fólk heldur ekki.
Því miður hafa konur ekki náð réttindum alls staðar í heiminum. Víða er enn barist fyrir að þær njóti t.d. menntunar. Svo er ekki í hinum vestræna heimi. Hins vegar hafa konur búið við það á undanförnum árum að grafið er undan réttindum þeirra víða um heim, t.d. til að njóta einkarýma, eigin félagskapar, kvennaíþrótta o.s.frv. Þingmenn og stjórnmálamenn víða um heim hafa búið til lög, að undirlagi minnihlutahópa, sem hafa réttindi af konum og eru byggð á lygi eins og norski þingmaðurinn sagði.
Konur halda áfram að berjast
Konur eru hörkutól. Kalla ekki allt ömmu sína. Það hafa kvennasamtök í íþróttaheiminum sýnt. Þær hafa sameinast og krafist þess saman að kvennaíþróttir séu fyrir konur. Þær eru ósáttar við, að hundruðum kvennatitlar tilheyri karlmönnum sem skilgreina sig sem konur, að skólastyrkir sem tilheyra konum falli nú öðrum í skaut, og þær vilja breytingu. Trump lofaði þeim bót í málaflokknum. Trump af öllum hugsið ykkur stendur vörð um þessi réttindi kvenna. Held að fæstum hefði dottið það í hug!
Í Ástralíu er heilmikil vakning á þeim mannréttindabrotum sem framin er á konum. Lesbíur, sem eru konur og elska aðra konu, hafa lent í kröppum dansi vegna karlmanna, sem skilgreina sig sem konur, og segjast vera lesbíur. Þeir hafa troðið sér inn á svæði og marga viðburði sem lesbíur halda. Lesbíur fengu að vita á lægsta dómstigi að þær mega ekki banna karlmenn á svæðum sínum. Mannréttindabrot á lesbíum sem vilja ekki vera með karlmönnum. Hugsið ykkur, lesbíur fá ekki að hittast af því karlmenn, sem skilgreina sig sem konu og lesbíu, vilja troða sér á kvennaviðburði þeirra. Af þeirri ástæðu eru lesbíur komnar inn í skápinn aftur og fara huldu höfði segir einn talamaður þeirra í Ástralíu.
Í Danmörku var stofnuð kvennahreyfing, utan við hefðbundnar kvennahreyfingar sem eru heillum horfnar inn í vók-ismann. Kvennahreyfingin berst fyrir karlalausum fótbolta sem dæmi. Ástæða baráttunnar er að Danska knattspyrnusambandið (íslenska KSÍ) taldi sig hafa rétt á að bjóða strákum, sem skilgreina sig sem stelpur, að spila í kvennaflokki, að stelpunum og foreldrum þeirra forspurðum. Enn sem komið er, hefur þessum tillögum verið hafnað, vitundarvakning um málið varð til þess.
Að sjálfsögðu ber fólk, sem berst fyrir að réttindi kvenna verði aftur virt, virðingu fyrir karlmönnum, sem skilgreina sig sem konur og öfugt, en það má jafnhliða segja sannleikann .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)