16.5.2023 | 08:29
Einelti stjórnenda í grunnskólunum
finnst eins og annað einelti. Allir starfsmenn geta orðið fyrir einelti af hálfu stjórnenda. Hins vegar virðast starfsmenn veigra sér við að tilkynna eineltið. Af hverju, þegar stórt er spurt er fátt um svör.
Starfsmenn sem lagðir eru í einelti af hálfu stjórnenda hverfa frekar af braut en taka á málinu. Ekki ólíkt nemendum sem hverfa frá skóla, færa sig um set.
Þeir sem leggja aðra í einelti gera það af ásettu ráði. Um er að ræða gróft andfélagslegt ofbeldi er birtist sem þrálát árátta knúin af einbeittum vilja. Markmið gerandans er fyrst og fremst að sýna völd sín með því að meiða, lítillækka og brjóta fórnarlömb sín miskunnarlaust á bak aftur.
Einelti í garð starfsmanna grunnskóla er margslungið. Birtingarmyndir ólíkar.
Hvað er einelti- hvernig birtist það?
Ógnun sem beinist gegn faglegri hæfni. Lítilsvirða og auðmýkja. Ásakanir um vanhæfni.
Ógnun við persónu einstaklings. Uppnefna, móðga, lítilsvirða, hæða (t.d. vegna útlits, klæðaburðar, tjáningar, hátternis o.s.frv.) Breiða út illgirnislegar lygar.
Einangra og útiloka- skilja útundan. Hamla tækifærum, einangra félagslega, espa aðra upp gegn viðkomandi, hamla upplýsingastreymi o.s.frv.
Óhóflegt vinnuálag- stuðla að streitu. Óraunhæfar og tilviljunarkenndar kröfur um frammistöðu. ,,Drekkja fólki í verkefnum.
Taka fólk á taugum- gerandinn auðsýnir einbeittan brotavilja t.d. með því að: Stara ógnandi á viðkomandi, kúga með þrúgandi þögn, klifa stöðugt á mistökum/yfirsjónum, öskra og æpa ásakanir í áheyrn annarra, stuðla að ásettu ráði að óförum og mistökum.
Hvað þarf starfsmaður skóla að gera?
Mikilvægt er að starfsmaður skrái niður hegðun og atferli geranda. Vera mjög nákvæmur. Skrá nöfn þeirra sem eru vitni að eineltinu. Biðja vitni að skrá niður (af nákvæmni) það sem bar fyrir augu og eyru. Skráning eineltishegðunar er mikilvæg því yfirleitt neita gerendur eineltinu.
Tilkynna þarf einelti. Yfirmaður stjórnenda, fræðslustjóri eða mannauðsstjóri bæjarfélags tekur á málinu.
Stjórnendur eru af ólíku sauðahúsi rétt eins og starfsmenn skóla. Sumir stjórnendur eru góðir og hafa menntað sig til starfans. Aðrir taka við stjórnendastöðu án þess að hafa menntun eða hæfileika til að vera stjórnendur. Oftast sjá stjórnendur það ekki sjálfir, telja sig góða og verðuga. Rétt eins og aðrir starfsmenn. Svona er mannflóran.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)