Drengjaumræðan, Þorgerður og Þorsteinn

 
Nefndur er Þorstein nokkur Einarsson, kynjafræðingur frá HÍ. Hann hefur fengið styrkveitingu til að kenna Íslendingum kynjafræði, sem er eins konar dulnefni fyrir kvenfrelsunarfræði eða «femíníska kynjafræði.» Hér á hann viðtal við Þorgerði Einarsdóttur, prófessor í kynjafræði við HÍ, fyrrum kennara sinn eins og fram kemur. Þorgerður eys af viskubrunni sínum. Ég hvet fólk til að hlýða á. Hér eru glefsur úr spjalli þeirra um drengi í skóla og kynjafræði:
«Drengjaorðræðan, aumingja drengirnir i skólanum» gerir Þorgerði harla vonlausa, þar sem hún kemur nú upp í þriðja sinn á tuttugu árum, þvi á sínum tíma höfðu þau, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, farið rækilega «í gegnum þetta.» Ingólfur, sem er kvenfrelsunaruppeldisfræðingur, hefur t.d. skrifað bók um jafnréttisuppeldi, sem allir ættu að lesa. Því er m.a. haldið fram, að kyn kennara skipti ekki máli fyrir karlmennskuþroskun.
Varðandi hugmyndir um, að virkja þurfi athafnaþörf drengja (skapa spennu) við nám, segir Þorgerður; ”en út frá öllum okkar pælingum um karlmennsku, þá mundum við eiginlega þurfa þveröfugt, vegna þess að við munum þurfa kannski efni sem hjálpar strákum að klifra niður úr hörkulegum karlmennskuhugmyndum.»
Um eðlishyggju: «Það eru þessar hugmyndir um að við höfum sem sagt litninga, hórmon eða eitthvað slíkt, sem stjórna okkur. Það auðvitað skiptir stelpum og strákum upp í tvo andstæða flokka. En við segjum nú stundum í kynjafræðinni, að … auðvitað sé meðaltalsmunur, ef við tökum karlmenn og konur. Nú erum við auðvitað að tala um miklu fleiri kyn, ekki bara stráka og stelpur, karla og konur, heldur mörg kyn.
 
Ef við tökum barna tvö kyn, karla og konur, þá er alltaf meðaltalsmunur. Karlar eru að meðaltali hávaxnari en konur, og þyngri, en það er fullt af konum, sem eru stærri og þyngri heldur en fullt af körlum. Þá er stundum sagt að breytileikinn innan kyns sé meiri en milli kynja. En við þrýstum þessu niður í tvo flokka. Og það þýðir hérna með því að flokka þetta svona, að stráka vanti þetta og stelpur vanti hitt, þá erum við að gera okkur einsleita mynd af þeim. Það er fullt af strákum, sem þyrftu sömu þjálfun … og stelpur, svona kannski að rækta með þeim – hvað á ég að segja – djörfung og eitthvað. Og það er fullt af stelpum, sem þyrftu þjálfun kannski í tilfinningavinnu. {Þorsteinn stynur; „já einmitt.“] En það er kannski minnihluti. En við erum kannski að steypa þau í tvö mót.“
Um drengjaorðræðuna og „skólann og allt þetta“: „Við sjáum eitthvað mynstur, og það er dálítið áhugavert í þessum könnunum t.d. á námsframmistöðu, þessar Pisa kannanir og þetta, það koma alltaf einhverjar kannanir, sem sýna þetta og þetta, og svo breytast þær aðeins. Mér finnst það mjög lítið sett í samhengi við alls konar utanaðkomandi áhrif, t.d. ef við tökum bara tölvunotkun, tölvuleiki, netið og annað slíkt, eins og ég sagði áðan erum við að beina sjónum að skólakerfinu ; það eru of margir kvenkennarar og slíkt.“
„Klámáhorf íslenskra stráka hefur verið mjög hátt, í norrænum könnunum … mælst hæst á Norðurlöndum.“
„Eðlishyggjan … þessi hugmynd, að þetta sé allt í genunum eða hormónum, að hún verður náttúrulega, þú veist, það verður lítið eftir, þegar við hugsum um öll félagslegu áhrifin. [„Já, já einmitt,“ segir Þorsteinn] Þau hafa náttúrulega gríðarlega mikið að segja. … Við erum alltaf að endurskapa þessar hugmyndir. … Það eru ákveðin valdatengsl í þessu. Við eru að endurskapa kynin. Það er vandamálið. Við erum að endurskapa þessi valdatengsl … í nýjum búningum; gætu verið tölvur, tölvuleikir – ég veit ekki. … Valdið færir sig svolítið til. [Þorteinn stynur armæðulega: „Já, já.“]
„Þetta hafa fræðingar svolítið verið að tala um. Við verðum að horfa á sem sagt valdadýnamíkina, valdatengslin í þessu. Talandi um karlmennsku og kvenleika; það eru undirliggjandi hugmyndir, sem eru vandamálið. Það er kannski ekki bara fótboltinn, heldur hvernig við sköpum kyn og valdatengsl í öllu þessu.[Þorsteinn gefur einkunn: „Þetta var ótrúlega innihaldsríkur inngangur.“)
Þorsteinn spyr, hvað geri kynjafræðina að fræðigrein: „Ég myndi segja, að kynjafræði væri bæði sjálfstætt fræðasvið, sjálfstæð fræðigrein, og sjónarhorn innan annarra fræða. Fyrst var hún bara sjónarhorn innan annarra fræða. Og þá getum við sagt, að það var kannski félagsfræði og bókmenntafræði og alls konar fræðigreinar, sem fara að horfa á kyn. Upp úr 1968 þá voru hérna stéttarrannsóknir mjög vinsælar. Þá fór fólk að horfa á stéttir …. Svo þegar kynjafræðin verður sjálfstæð fræðigrein, þá er það að hluta til stofnanalegs eðlis. Þá hefur hún sérstök námsskeið, ekki bara sjónarhorn innan greina, það verða námslínur, það verða ráðnir kennarar, það verða sérstakar rannsóknir. Rannsóknirnar eru kannski aðal aðalsmerkið. …. Svo getum við sagt líka, að þegar við horfum á inntak fræðanna, þá eru það bæði kenningalegt, fræðilegt, og aðferðafræðilegt.
Og við getum sagt, [að] kenningar í kynjafræði eru oft bara sprottnar úr kenningahefðum innan annarra fræðigreina. … Það verða kenningahefðir, sem horfa á kyn í margvíslegum skilningi , en líka aðferðafræðilegt. Og aðferðafræðilega getur kynjafræðin verið bæði eigindleg eða megindleg, ….
 
Eigindlega aðferðafræðin er kannski algengari í kynjafræði, og það er … eigindleg gögn; það eru viðtöl, það er vettvangsrannsóknir og annað slíkt. En það, sem kynjafræðin hefur lagt af mörkum, … margir sammála því … svona aðferðafræðilega vísindagagnrýni; gengur út að það að hérna, það er ekkert sem heitir vísindaleg aðferð með stórum staf, sem gefur þér hlutlægni, þannig að aðferðin skapi alveg skothelda þekkingu og allir geti komist að sömu niðurstöðu, heldur sé fræðimaðurinn alltaf staðsettur á réttum stað.
Og þetta að gera grein fyrir sjálfum sér, það er bara viðtekið, tökum t.d. bara lyfjafræðirannsóknir, að þú þarft að gera grein fyrir, hver kostaði rannsóknirnar og annað slíkt. … Þess vegna gera kynjafræðingar grein fyrir sér og það byggist á þeirri hugmynd, að það sé í rauninni hæpið að tala um algjörleg hlutlæga eða hlutlaus … vísindi, af því, að vísindamaðurinn er alltaf staðsettur einhvers staðar. … Það voru karlar sem sköpuðu vísindahefðina, ekki bara karlar, það voru hvítir, vestrænir millistéttarkarlar, og það er bara margra alda umræða um það … Þeir sáu heiminn út frá sínum sjónarhóli og það þurfti aðra með jaðarsetningu til að koma auga á það og benda á það. [Þorsteinn stynur: „Já.“] Þetta hefur fylgt kynjafræðinni. … framlag kynjafræða, femínískra fræða til aðferðafræða."
Sögulega fer Þorgerður með rangt mál. Fjallað var um stöðu og áhrif rannsakanda í vísindum í vísindaheimspeki, eðlisfræði og gagnrýnum félagsvísindum, löngu áður en svokölluð kynjafræði (woman studies, feminist studies, gender studies), kvenfrelsunarskrumstæling á kynfræði (sexology), komst á koppinn. Það eina, sem kvenfrelsarar í raun hafa lagt til málanna, er sú sannfæring (eigindleg aðferð), að reynsla einstakrar konu sé prófsteinn á gildi og sannleika kenningar (og sanngirni laga t.d.). Stundum hafa þeir bent á, að konum sé hlíft, t.d. í rannsóknum á (hugsanlega) hættulegum aukaverkunum lyfja. Það er vissulega dæmigerð karlmennska.
 
Það er dæmigerð kvenfrelsunareinföldum að halda, að allir „hvítir millistéttarkarlar“ hugsi eins. Allar konur hugsa heldur ekki eins. Kvenfrelsararnir sitja ævinlega, þegar upp er staðið, fastir í tvískautuninni, sem þeim er svo illa við, t.d. þegar talað er um kyn.
Kyneðli er erfðafræðilegt og sálerfðafræðilegt hugtak, sem lýsir mismuni kynjanna með tilliti til arfgerðar, byggingar og eiginleika að vissu marki. Sálerfðafræðin, sem á rætur í erfðafræði og þróunarsálfræði (evolutionary psychology), lýsir almennum tilhneigingum kynjanna til hugsunar og hátternis.
Þvermenningarleg sálfræði og mannfræði lýsa með hvaða hætti karlmennska og kvenmennska mótast við mismunandi félagslegar aðstæður. Í eðlishyggjuhugtakinu felst að sjálfsögðu, að eiginleikum sé misdreift innan kyns og milli kynja. Í fræðum um kyneðli er hvergi talað um, að hugsun og hátterni skýrist eingöngu af erfðum.
 
Arnar Sverrisson skrifar um grein í Stundinni.

Karlmennskan.is

Það er verulega upplífgandi, að æska Íslands sé nú að leggja orð í belg um skólakerfi, sem er komið að fótum fram á flesta lund. Það er sömuleiðis ánægjulegt, að góðir kennarar séu tilbúnir til að leggja gjörva á plóg til að umbylta jarðveginum. Þessi grein ber vott um, að drengir séu að hrista af sér slenið og andmæla kvenfrelsurunum.
Hér skrifa tveir vaskir piltar og andmæla Þorsteini Einarssyni, aðalkynfræðingi Vinstri-grænna, sem var falið það hlutverk af Jafnréttissjóði að fræða ungviðið um karlmennsku. Sjálfur er hann yfirlýstur kvenfrelsari, enda er trúboð hans: „Karlar og karlmennska í femínísku ljósi.“ Svo segir á heimasíðu hans. Þess má geta, að til Jafnréttissjóðs stofnuðu allir flokkar Alþingis á sínum tíma til að fagna áfanga í kvenfrelsun. Katrín, formaður Þorsteins, og kvenfrelsunarmóðir okkar allra - og forsætisráðherra - taldi stofnun sjóðsins sérstakt samkomulagsafrek flokka á Alþingi. Sjóðsveitingar – án nokkurrar eftirfylgni um árangur – hafa undantekningarlítið fjármagnað hin og þessi verkefni, er lúta að kvenfrelsun, kveneymd og kveneflingu.
 
Þá að greininni. Höfundar bregðast við eftirfarandi texta: „Undanfarnar vikur og mánuði hefur mikið verið rætt um það hvernig drengir koma út í ýmsum samanburðarkönnunum í skólakerfinu. Talað um að þeir kunni ekki að lesa sér til gagns, falli úr námi, jafnvel að skólakerfið sé ekki hannað fyrir þá og að það þurfi fleiri karlkynskennara.
Flest skólafólk brennur fyrir góða menntun fyrir nemendur sína og taka vafalaust undir það að það er ekki gott að drengir finni sig illa í námi. Hins vegar er vont þegar umræðan og orðræðan fellur í hefðbundnar gryfjur drengjaorðræðunnar án samhengis við þann veruleika sem við búum við. Það er vont þegar „hrapað er að niðurstöðum“ eins og Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði benti á.
 
Rannsóknir hafa varpað ljósi á að stelpum líður verr en strákum, strákar fá 75-80% athygli kennara, ekki er orsakatengsl milli kyns kennara og námsárangurs hjá strákum og þegar meirihluti kennara voru karlkyns voru stúlkur samt með hærri einkunnir en strákar. Þetta kom fram í podcastspjalli við Þorgerði Einarsdóttur prófessor í kynjafræði.
Þannig að: Nei, drengirnir hafa ekki gleymst í skólakerfinu. Hins vegar mættum við vinna markvisst gegn þeim félagslegu breytum sem valda strákum, stúlkum og hinsegin nemendum vanda og vanlíðan. Það eru rótgrónar feðraveldis hugmyndir um kyn sem er (ómeðvitað) viðhaldið í skólakerfinu. „Að gera það ekki er óverjandi” sagði Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kennari í viðtali á Hringbraut.
Hverskonar karlmennska er ríkjandi? Hvaða áhrif hafa þær á námshegðun drengja? Hver er ytri og innri hvati drengja til menntunar? Meðan karlmennska byggir á aðgreiningu frá kvenleika, mun það ekki koma mér á óvart að strákar séu almennt verri námsmenn en stúlkur. Þetta er samspil menningar og persónubundinna viðhorfa sem hafa svo áhrif á hegðun.“
Það er í sjálfu sér áhugavert, að „skólafólk brenni fyrir góða menntun.“ Vonandi fuðra þeir ekki upp á bálinu. Það er ekki útskýrt, hverjar eru „hefðbundnar gryfjur drengjaorðræðunnar.“ En ég get mér til um, að átt sé við umræðuna um, að drengir séu drengir, en ekki stúlkur. Og ætli það sé að „hrapa að niðurstöðum,“ að sögn Þorgerðar Einarsdóttur, sem virðist vera kvenfrelsunarmenntagyðja HÍ.
 
Eins og góðum kvenfrelsara sæmir, bendir Þorsteinn á rannsóknaniðurstöður, máli sínu til stuðnings, án þess að tilgreina þær. Vafalítið er um að ræða margtuggnar og brenglaðar niðurstöður kvenfrelsunarrannsókna, ættuðum úr Bandaríkjum Norður-Ameríku, sem fóru eins og logi um akur á sínum tíma. Loginn lifir enn. En hins vegar eru margar rannsóknir aðrar, sem benda til þess, að skólinn sé vondur mörgum, bæði nemendum og kennurum. (Vísa til viðeigandi greina á: arnarsverrisson.is.)
 
Eins og höfundar greinarinnar benda á, sniðgengur Þorsteinn að góðra kvenfrelsara sið að ræða ógrynni rannsókna, sem lýsa bágri og skaðlegri stöðu drengja í kerfinu. Hann kallar til annan kvenfrelsara úr kennarastétt og formann jafnréttisnefndar KÍ, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur, sem reyndar var skipuð til setu í nefnd menntamálaráðherra um kynfræðslu í skólum undir forsæti hálfþrítugs kvenlögfræðinema, áhugamanns um efnið. Þau eru fyrirsjáanlega sammála um að skella við skollaeyrum og kenna feðraveldinu um. Eins og kunnugt er var feðraveldið í öndverðu stofnað af karlmönnum til að klekkja á konum og kúga þær. Því kemur það óneitanlega á óvart, að feðraveldið skuli fara svo illa með drengi eins og raun og rannsóknir bera vitni um.
 
Ætli feðraveldið gangi í þessu efni erinda kvenfrelsaranna, þ.e. að kvengera og kynfirra nemendur? Alla vega er það skólastefna Þorsteins og Hönnu Bjargar að uppræta þær kynjabreytur, sem valda núverandi kynjum „vanda og vanlíðan.“ Samheiti þeirra er vafalaust „eitruð karlmennska.“ Lausn Þorsteins er að afmá skilin milli karl- og kvenmennsku, þ.e. að nemendur verði einhvern veginn hinsegin. (Það eru nú um fimmtíu tilbrigði við kynskiptinga.)
Það er snúið að benda á bein orsakatengsl milli fjölgunar kvenna og versnandi námsárangurs drengja. En hins vegar hefur verið sýnt fram á skýr tengsl kennsluhátta, einkunnagjafar og kyns. Það er hins vegar rétt, einkunnar drengja almennt í barnaskóla voru síðri einkunnum drengja fyrir hálfri öld eða svo. Því skólakerfið hefur ævinlega verið sniðið að þroska stúlkna, en ekki drengja. Það er algengt, að drengir þroskist hægar og öðruvísi en stúlkur.
Það væri rangt, að gera kennara eina ábyrga fyrir vanlíðan barna og slæmum námsárangri. Ábyrgðin er okkar allra sem samfélags. Lífið í skólanum endurspeglar að mörgu leyti lífið utan hans. Það er t.d. samfélagsþróunin, að fyrsta sinni í mannkynssögunni eru drengir að umtalsverðu leyti aldir upp af konum og stúlkum. Fyrirmyndirnar sjá þeir nú í karlmennskuspéspegli mæðra, kvenkennara, töluvleikja og fjölmiðla (og Þorsteins vitaskuld). Nú er einnig í fyrsta sinn rekinn ríkisstyrktur áróður gegn karlmennsku og karlmennskufæð dýrkuð í fjölmiðlum. Sömuleiðis hefur slíkur áróður náð heljartökum innan æðri menntastofnana, í skóla, löggæslu og samfélaginu öllu. Litið er víða á drengi, sem kím „vonda karlsins,“ sem stúlkur og konur óttast svo mjög, að þær eru stöðugt á varðbergi. Í fyrsta sinni í veraldarsögunni hefur verið samin löggjöf beinlínis gegn öðru kynjanna, karlmönnum. Þannig er hugarfóstur vonda drengsins skapað, samþykkt lög gegn því og varúðarráðstafanir gerðar. Drengir eiga við ofurefli að etja.
 
Arnar Sverrisson skrifaði innleggið á snjáldursíðu sína 9. feb. 2021.

Bloggfærslur 10. febrúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband