19.9.2018 | 17:29
TEKUR AKUREYRARBÆR VEL Á MÓTI ÚTLENSKUM GRUNNSKÓLABÖRNUM?
Í spjalli sem ég átti við Leif Hauksson í þættinum Samfélagið í nærmynd vakti ég athygli á stöðu útlenskra grunnskólabarna. Vegna ummælanna hef ég verið spurð hvað ég hafi átt við. Það er auðvelt að útskýra.
Ég vel að taka tilbúið dæmi um nemanda sem flytur frá Úkraínu til Akureyrar. Hann ásamt fjölskyldu á lögheimili í bænum og fer í hverfisskólann, gef mér að hann fari í 5. bekk og tali ekki ensku. Hafi nemandi ekki greiningu á hann ekki rétt á stuðningi. Honum ber því að sitja sömu kennslustundir og íslensku nemendurnir. Hann fær nokkra tíma aukalega í íslensku á viku og er þá tekinn út úr bekknum, oftar en ekki einn. Það er gert á meðan þjónusta bæjarins er í boði. Alla hina tímana situr nemandinn með bekknum þar sem íslenska er töluð og hann skilur ekki það sem fer fram. Sveitarfélagið setur það á herðar grunnskólakennara að finna út hvað og hvernig eigi að kenna umræddu barni og á hvaða tungumáli. Þar sem nemandinn fær ekki stuðning situr hann kennslustundir í samfélagsfræði, stærðfræði, ensku, náttúrufræði, list- og verkgreinum og öðrum fögum sem eru kennd, allt á íslensku að sjálfsögðu. Ef við setjum okkur í spor barnsins hlýtur vanlíðan vera það fyrsta sem fólki dettur í hug. Að sitja hverja kennslustundina á fætur annarri án þess að skilja orð hlýtur að vera erfitt, hvað þá fyrir ungan nemanda.
Grunnskólakennarar hafa tekið á móti útlenskum börnum með opnum örmum og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að öllum nemendum líði vel. Það er sárt að horfa upp á vanlíðan í andliti og líkamsmáli útlendra nemenda sem eru í þessari stöðu. Stundum bregður svo við að hegðun versnar sem afleiðing af vanlíðan í skólanum. Kemur ekki á óvart. Þó svo kennarinn hafi vilja til að sinna nemandanum betur er það ekki í boði, aðrir bíða og allir hafa sama rétt á aðstoð frá kennaranum sínum. Grunnskólakennari sem fær útlenskan nemanda í bekk fær hvorki aukinn undirbúningstíma eða kennsluafslátt til að undirbúa og hanna námsefni fyrir nemandann. Hugsið ykkur ef þeir væru tveir í bekknum frá sitt hvoru landinu. Kennari þarf að nota tíma til að finna út hver staða nemandans er og það er ekki gert nema nægur tími sé til þeirrar vinnu. Hafi kennari ekki tíma til að vinna þá vinnu á að leggja hana til hliðar. Sé það ekki gert er það á kostnað hinna barnanna og við bætist við vinnutíma kennara án greiðslu. Skólakerfi hinna ýmsu landa er ekki eins og okkar og því ekki á vísan að róa um stöðu barns þó það sé jafngamalt bekkjarfélögunum. Vinnutími sem tengist útlenskum nemendum er vanmetinn af forsvarsmönnum bæjarins ef hann er á annað borð eitthvað metinn.
Umræða um brottfall nemenda í framhaldsskóla er viðvarandi umræðuefni. Nemendur sem hafa útlenskan bakgrunn eru þar í meiri hluta. Kemur engum á óvart. Íbúðarblokk með veikar undirstöður er líkleg til að hrynja á einhverjum tímapunkti og um það geta allir verið sammála og það sama hlýtur að gilda um börnin. Sé menntagrunnur nemenda ekki góður er ekki hægt að ætlast til að þau byggi ofan á hann sem nokkru nemi. Málaflokkurinn ,,útlenskir nemendur og þarfir þeirra þarfnast endurskoðunar hjá bæjarfélaginu og kannski fleirum.
Hver tekur ákvörðun um að útlenskir nemendur fái ekki aðstoð til að aðlagast íslensku skólakerfi? Eftir því sem ég best veit er ákvörðun sveitarstjórnarmanna. Þeir stjórna með fjármagninu. Þegar grunnskólakennarar leita á náðir stjórnenda er svarið oftar en ekki að fjármagnið sé ekki til og því ekki hægt að bæta við starfsfólki vegna útlenska barnsins, rýmka tíma kennarans eða greiða aukalega fyrir viðbótarvinnu. Með það í farteskinu er öll vinnan og ábyrgðin komin á herðar grunnskólakennarans. Aukið álag.
Til að svara spurningunni sem felst í fyrirsögninni þá er einfalda svarið, NEI.
Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari og varaformaður BKNE.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2018 | 17:28
Í upphafi skólaárs- grunnskólakennarar hugsið ykkar gang!
Grunnskólar bæjarins eru hafnir. Sumum til gleði, öðrum til leiða. Um það er ekki spurt, við höfum starfsár sem þarf að fara eftir. Grunnskólakennarar eru væntanlega eina stétt bæjarins sem fær ekki greidda yfirvinnu, nema fyrir forfallakennslu að sjálfsögðu, en skilar oft fleiri tímum en þeir eiga að gera.
Vinna grunnskólakennara er víðfeðm og ekki hægt að búa til einfaldan ramma sem passar öllum. Grunnskólakennarar hafa gert sitt besta til að sinna nemendum sínum, foreldrum og bæjarfélaginu. Fyrir nokkrum árum ákváðu fulltrúar bæjarins að grunnskólakennarar notuðu vinnustund. Það er tæki sem mælir vinnuframlag starfsmanna en greiðir ekki samkvæmt því, allavega ekki grunnskólakennurum. Mikil óánægja er með þá ráðstöfun bæjarins. Forsvarsmenn bæjarins virðast hafa tekið einhliða ákvörðun, grunnskólakennurum er ekki greitt aukalega þrátt fyrir aukið vinnuframlag. Forsvarsmenn bæjarins hafa líka tekið þá ákvörðun að ekki skuli greiða aukalega fyrir stigsstjórn eða formennsku í vinnufrekum nefndum, s.s. umhverfisnefnd. Allt á þetta að rúmast innan hefðubundins vinnutíma.
Vinnutími grunnskólakennara er annar en venjulegs launamanns. Grunnskólakennari þarf að skila tæpum 43 stundum á viku til að vinna upp í haust- jóla- vetrar- og páskafrí. Þeir fá ekkert gefið eins og margir vilja halda fram. Grunnskólakennarar eins og aðrar stéttir vinna fyrir sínum fríum. Hins vegar fá grunnskólakennarar ekki að velja fríin sín, sveitarfélagið ákveður þau. Grunnskólakennari á að sinna endurmenntun, 102-150 stundum eftir orlofsrétti, sem bætist við vinnuframlagið. Grunnskólakennari skilar 1800 vinnustundum á ári.
Grunnskólakennarar eru þeir einu sem geta passað upp á vinnutímann sinn. Geri þeir það ekki gefa þeir bæjarfélaginu vinnu sína. Engin ástæða til þess. Grunnskólakennari sem vinnur mörg ár umfram lögboðins vinnutíma brennur út, því álag er mikið í kennslu. Við þekkjum öll að við fall á loftþrýstingi í flugvél setjum við grímuna fyrst á fullorðna fólkið og svo á börn séu þau með í för. Það er gert til að við séum í ástandi til að aðstoða þau. Sama má segja um kennara, hugsaðu fyrst um þig svo þú getir hugsað um nemendur þína.
Ágæti grunnskólakennari taktu málið í eigin hendur, skerðu niður verkefni, lengdu tíma yfirferða á verkefnum nemenda, settu foreldrum skorður og farðu ekki í vinnupóstinn eftir að vinnu lýkur eða áður en hún byrjar. Svaraðu aldrei á snjáldursíðu utan vinnutíma hafi bekkurinn eina slíka, hvað þá smáskilaboðum eða símtali. Skoðaðu heildarskipulagið og sjáðu hvort ekki megi sleppa eða breyta einhverju þannig að verkefnin falli innan vinnustundarinnar.
Öll vinna grunnskólakennara á að rúmast innan tæpra 43 stunda vinnuviku!
Njótið skólaársins.
Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari og varaformaður BKNE.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)