Andlegt ofbeldi á börnum er jafn alvarlegt og líkamlegt...

Ásta Kristrún Ólafsdóttir, kennari og ráðgjafi skrifaði fyrir 18 árum um andlegt ofbeldi á börnum. Á jafnvel við í dag og þá. Jafnvel betur því foreldraútilokun er betur þekkt í dag en þá. Börn sem beitt eru foreldraútilokun eru beitt andlegu ofbeldi.

Leyfum Ástu að eiga orðið:

BÖRN eiga rétt á vernd gegn líkamlegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi og gegn vanrækslu (19.gr. Barnasáttmála SÞ).

Fæstir foreldrar vilja börnum sínum illt og flestir foreldrar gera eins vel og þeir geta. Fæstir meiða börn sín viljandi eða af illmennsku en sumir gera það sökum andlegrar eða líkamlegrar vanheilsu, alkóhólisma eða annarra fíknisjúkdóma eða vegna vanþroska.

Það fer yfirleitt ekki á milli mála ef barn hefur verið meitt líkamlega eða kynferðislega en það gegnir öðru máli ef barn er beitt andlegu ofbeldi eða það er andlega eða tilfinningalega vanrækt. Andlegt ofbeldi á börnum er ekki síður skaðlegt og í mörgum tilfellum verra en hið líkamlega, einkum vegna þess hve erfitt er að festa hendur á því og hvað það getur staðið lengi yfir.

Það vefst oft fyrir okkur sem erum fullorðin að átta okkur á andlegu ofbeldi og hvernig við getum brugðist við því. Fyrir barn er það enn erfiðara og það á enga möguleika á að verjast því.

Andlegt ofbeldi á börnum getur verið í formi harðstjórnar og kúgunar eða niðurlægingar, vanrækslu og höfnunar. Sumar gerðir refsinga teljast ofbeldi svo og hótanir, öskur, ofurmannlegar kröfur, sum stríðni, háð og uppnefningar.

Þá teljast ásakanir um persónuleikabresti eða vanhæfni til ofbeldis, vanþóknun sýnd með þögn eða píslarvætti, óviðeigandi athugasemdir, stöðug neikvæðni, gagnrýni og tvöföld skilaboð. Það telst til andlegrar vanrækslu þegar andlegum, tilfinningalegum eða vitsmunalegum þörfum er ekki sinnt; ekki sýndur áhugi, ekki spjallað, kennt né leiðrétt. Ekki hrósað, hvatt eða leiðbeint.

Sumt andlegt ofbeldi er alvarlegra og hefur alvarlegri afleiðingar en annað.

Það er alvarlegt andlegt ofbeldi þegar barn er látið bera ábyrgð á fullorðnu fólki og þá látið sinna andlegum, tilfinningalegum eða félagslegum þörfum þess. Dæmi um þetta er þegar barn er gert að trúnaðarvini og þarf að heyra um persónulegar áhyggjur og leyndarmál foreldris síns og jafnvel gert þátttakandi í hjónabandserfiðleikum, stundum kallað andleg eða tilfinningaleg sifjaspell: "Finnst þér að ég ætti að skilja við pabba þinn?" "Ég er að hugsa um að skilja við mömmu þína, ég þoli hana ekki lengur." "Passaðu að pabbi þinn drekki ekki of mikið." "Ég held að mamma þín sé að halda framhjá mér, reyndu að komast að því fyrir mig." "Ég hélt framhjá pabba þínum og ef hann spyr þig, segðu þá að..." "Ég á aldrei eftir að komast yfir allt það sem hann pabbi þinn gerði mér." "Hún mamma þín lagði líf mitt í rúst."

Þá er þess krafist að barnið beri ábyrgð á líðan og velferð foreldris og skynji þarfir þess og bregðist við þeim: "Þú verður að vera heima svo mömmu leiðist ekki." "Aumingja pabbi er alltaf svo þunglyndur, þú verður að reyna að gleðja hann." "Mamma á svo bágt því það hafa allir verið svo vondir við hana, þú ert eina manneskjan sem hún á að." "Ef þú hefðir ekki verið svona óþekkur hefði mamma ekki dottið í það." "Pabbi er kominn með magasár út af frekjunni í þér." "Ef þú færir frá mér myndi ég drepa mig." "Þú áttir að sjá hvernig mér leið, ég átti ekki að þurfa að biðja þig..."

Með þessu er verið að leggja á barn ábyrgð sem það getur ekki borið. Barnið fær ekki að vera barn en er þvingað til að taka á sig óbærilegar byrðar sem jafnvel fullorðnum er um megn að bera.

Andlegt ofbeldi er ekki alltaf svona skýrt eins og í dæmunum hér að ofan og hægt er að beita miklu andlegu ofbeldi án þess að segja eitt einasta orð!

Í mörgum ákvæðum barnaverndarlaga er andlegt ofbeldi á börnum lýst refsivert og segir til dæmis í 64. grein: Hver, sem beitir barn refsingum, hótunum eða ógnunum og ætla má að slíkt skaði barnið andlega eða líkamlega, skal sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.

Sá skaði sem andlegt ofbeldi veldur er oft mikill og erfitt að bæta. Margir þurfa að glíma við afleiðingar andlegs ofbeldis alla ævi.

Afleiðingar andlegs ofbeldis eru m.a. öryggisleysi, vantraust, erfiðleikar við að tengjast fólki, mikil skömm og vanlíðan, óskýr sjálfsmynd og óljós mörk, sjálfsfyrirlitning, kvíði, þunglyndi, ofbeldi, sálvefræn einkenni, vímuefnanotkun, fíknir, áhættuhegðun og jafnvel sjálfsmorð.

Við getum e.t.v. ekki hindrað að börn okkar verði fyrir barðinu á arfgengum geðsjúkdómum en við getum hlúð að geðheilsu þeirra með því að axla ábyrgð á okkur sjálfum og verndað börnin okkar gegn ofbeldi, hvaða nafni sem það nefnist.

 


Bloggfærslur 19. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband