Opið bréf til dómsmálaráðherra

Ágæti ráðherra.

Þú ert í vanda stödd, sem og aðrir þingmenn. Félagsskapur kvenna sem kallar sig ,,Líf án ofbeldis“ ákváðu að skora á þig, og aðra þingmenn, vegna Tálmunarfrumvarpsins sem nú er til meðferðar í þinginu. Þú átt að horfa framhjá lögum og réttindum barna. Konurnar telja í lagi að brjóta lög í eigin þágu. Konurnar berjast gegn ofbeldi ef faðir beitir því en samþykkja ofbeldi ef móðir beitir því. Hvers á barn að gjalda? Hvers á þjóðin að gjalda með svona mismunun? Sömu lög eiga að gilda um alla sem er frumskilyrði í lagasetningu.

Bent hefur verið á lögleysuna sem konurnar fara fram á við þingmenn. Einn flutningsmaður frumvarpsins sagði í tengslum við bréf sem þingmenn fengu sent:

„Miðað við innihald bréfsins er félagsskapurinn samansettur af mæðrum eingöngu sem gera þær kröfur að þingmenn bregðist við því sem þeir sem fara með úrskurðarvald í forsjár- og umgengnis­málum, þ.e. sýslumenn og dómstólar, gera. Félagsskapurinn vill að við skiptum okkur af því og breytum einhvern veginn umhverfinu vegna þess að niðurstaðan hentar ekki.“

Önnur lögleysa liggur í að ofbeldismanni sé ekki refsað ef hann tálmar og beitir foreldraútilokun. Það er sannað að slíkt ofbeldi hefur áhrif á andlega líðan barns. Afleiðingar þess ofbeldis er jafn slæmt og annað ofbeldi. Eins og kveður á um í Barnalögum skal refsa þeim sem beitir barni ofbeldi, líkamlegu, andlegu og kynferðislegu.

Í ritinu ,,Ofbeldi gegn börnum“ á bls.22 segir: ,, Einstaklingar sem hafa verið beittir andlegu ofbeldi virðast oft glíma við afleiðingarnar einnig á unglings- og fullorðinsárum. Samanborið við aðra illa meðferð á börnum er talið að andlegt ofbeldi spái sterkast fyrir um sálræna erfiðleika síðar í lífinu, t.d. þunglyndi, lítið sjálfstraust o.fl. Erfitt getur reynst að greina andlegt ofbeldi og er eitt merki um það að oft skipta barnaverndaryfirvöld sér ekki af ofbeldi af þessu tagi (Crittenden, Claussen og Sugarman, 1994). Þetta er alvarlegt því að andlegt ofbeldi hindrar að barn vaxi og dafni. Tekist er á um það hvort skilgreina skuli andlegt eða tilfinningalegt ofbeldi út frá afleiðingum á barnið eða hvort miða eigi við hegðun þess sem því beitir. Skilgreining út frá afleiðingum kemur í veg fyrir að gripið sé inn í áður en áhrifin koma fram. Nokkur samstaða er um að skilgreina andlegt/tilfinningalegt ofbeldi fyrst og fremst út frá hegðun þess sem því beitir, þó að alltaf þurfi að hafa afleiðingar í huga líka (Miller-Perrin og Perrin, 2007).”

Að hamla umgengni við annað foreldrið eða koma í veg fyrir hana er vanræksla, andlegt og tilfinningalegt ofbeldi gegn barni og á að vera refsivert. Tálmunarfrumvarpið er liður í leiðréttingu stjórnvalda gagnvart því ofbeldi gegn börnum, burtséð frá hver beitir ofbeldinu.

Ágæti ráðherra, mörgum er það þyrnir í augum að refsingin geti verið fangelsisvistun að undangegnum grófum og síendurteknum brotum, þegar úrskurður þar til bæra yfirvalda liggur fyrir, en það vita allir sem til þekkja að mikið hefur gengið á áður en til þess kemur og gefur foreldri möguleika á að snúa af rangri braut.

Undirrituð skorar á dómsmálaráðherra og þingmenn alla að hafa þor og kjark til að samþykkja Tálmunarfrumvarpið sem menn hafa skorast undan alltof lengi, barnanna vegna.

Virðingarfyllst

Helga Dögg Sverrisdóttir


Bloggfærslur 4. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband